Fréttir


Sterkri auðkenningu vegna PSD2 framfylgt í Evrópu eftir 31. desember 2020

17.10.2019

Evrópska bankaeftirlitið (EBA) hefur birt álit varðandi lokafrest sem greiðsluþjónustuveitendur í Evrópu hafa til að koma upp sterkri auðkenningu (e. strong customer authentication – SCA) í tengslum við framkvæmd greiðslna. Lokafrestur er gefinn til 31. desember 2020. Krafan um sterka auðkenningu öðlaðist lagalega séð gildi í Evrópu 14. september sl. en með þessu áliti EBA er eftirlitsstjórnvöldum veitt svigrúm til framfylgja ekki kröfunni fyrr en eftir 31. desember 2020. Þessi undanþága nær sérstaklega til kortagreiðslna. Það er skilyrði að greiðsluþjónustuveitendur sem beita henni hafi tiltæka áætlun um á hvaða tíma auðkenningaraðferðir sem ekki teljast sterkar verða aflagðar og aðrar aðferðir teknar upp (e. migration plan). Í álitinu felst m.a. tímasett aðgerðaáætlun um þau skref sem eftirlitsstjórnvöld eiga að stíga fram til 31. desember 2020 með tilliti til þeirra greiðsluþjónustuveitenda sem svigrúmið nær til. Áætlunin er í átta skrefum. Felur hvert skref í sér áfanga sem þarf að vera lokið fyrir enda hvers ársfjórðungs fram til 31. desember 2020.

Fjármálaeftirlitið vill vekja athygli markaðsaðila á álitinu og hvetur greiðsluþjónustuveitendur og aðra haghafa, t.a.m. fjártæknifyrirtæki, til að undirbúa sig undir innleiðingu PSD2-tilskipunarinnar hér á landi með hliðsjón af því.

Álit EBA skýrir hvaða tímafrest eftirlitsstjórnvöld eiga að veita greiðsluþjónustuveitendum. Álitið kemur í kjölfar annarra álita EBA um hvaða aðferðir uppfylla kröfur til að teljast til sterkrar auðkenningar og um hvaða aðilar eiga að beita sterkri auðkenningu.

Álit EBA helst í hendur við innleiðingu PSD2-tilskipunarinnar sem er hafin hér á landi. Við innleiðingu hennar þarf m.a. að hafa hliðsjón af þessu áliti EBA varðandi hvenær greiðsluþjónustuveitendum ber að uppfylla kröfur og skilyrði tilskipunarinnar. Tilskipunin hefur ekki verið lögfest en varð hluti af EES-samningnum fyrr á árinu. Tæknilegu staðlarnir um sterka auðkenningu hafa þó ekki verið teknir upp í EES-samninginn. Það verður væntanlega gert á næstu mánuðum. Nánari upplýsingar um innleiðingu PSD2 má finna hér og hér

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica