Eftirlit með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Peningaþvætti er hvers konar viðtaka, meðhöndlun eða tilfæringar ávinnings (hagnaðar eða eigna) sem fenginn er með afbroti, hvort sem brotið er gegn almennum hegningarlögum eða sérrefsilögum.

Peningaþvætti er aðalforsenda þess að skipulögð afbrotastarfsemi þrífist innan samfélags og yfir landamæri. Peningaþvætti hefur neikvæð áhrif á fjármálakerfi samfélagsins, heftir frjálsa samkeppni og hindrar að markaðsöflin fái að njóta sín. Þess vegna er mikilvægt að ríki sé með traust og sýnilegt eftirlit og sjái til þess að tilkynningarskyldir aðilar séu með viðeigandi eftirlitskerfi í starfsemi sinni. Það fælir afbrotamenn frá því að herja á fjármálakerfi viðkomandi ríkis.

Fjármögnun hryðjuverka er sú háttsemi að afla fjár í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi féð til að fremja brot sem er refsivert samkvæmt ákvæðum 100. gr. a.-c. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þ.e. fremja hryðjuverk, styðja þann sem fremur slík verk eða hvetja til þeirra. Hryðjuverkamaður eða hópur hefur það markmið að hvetja til, styðja eða framkvæma hryðjuverk og gerir það í mörgum tilvikum með fjármögnun.

Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Á Íslandi gilda lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018.
Markmið laganna er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi, sem kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka, til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna án tafar um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða vart verði við slíka ólögmæta starfsemi.

Hlutverk Seðlabanka Íslands

Hlutverk Seðlabanka Íslands er að hafa eftirlit með þessum aðilum og tryggja að þeir framfylgi ákvæðum framangreindra laga. Bankinn hefur heimildir til þess að beita viðurlögum komi í ljós að ákvæðum laganna, eða reglugerða á grundvelli þeirra, er ekki framfylgt, s.s. stjórnvaldssektum, brottvikningu stjórnar og framkvæmdastjóra, afturköllun starfsleyfis og birtingu viðurlaga.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica