EMIR (European Market Infrastructure Regulation)

Hvað er EMIR?

Þann 1. október 2018 tóku gildi lög nr. 15/2018 um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár. Með þeim öðlast reglugerð Evrópusambandsins (ESB) nr. 648/2012 (Opnast í nýjum vafraglugga) frá 4. júlí 2012 um OTC-afleiður, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár (almennt kölluð European Markets Infrastructure Regulation, eða EMIR), lagalegt gildi á Íslandi. Reglugerðin felur í sér nýjar kröfur vegna viðskipta með afleiður, bæði OTC-afleiður[1] (afleiður sem átt er viðskipti með utan markaða) og skráðar afleiður, auk þess að leggja til grundvallar samræmdar kröfur um skipulag, starfshætti og rekstur miðlægra mótaðila[2] (e. central counterparties) og afleiðuviðskiptaskráa[3] (e. trade repositories). Miðlægur mótaðili er lögaðili sem gengur á milli mótaðila að afleiðusamningum og gerist þar með kaupandi gagnvart hverjum seljanda og seljandi gagnvart hverjum kaupanda. Afleiðuviðskiptaskrá er lögaðili sem safnar miðlægt saman og viðheldur gögnum um afleiður. Markmið reglugerðarinnar er að bæta gagnsæi og draga úr áhættu á mörkuðum með afleiður.

EMIR samanstendur af reglugerð (ESB) nr. 648/2012 auk framkvæmdareglugerða og afleiddra reglugerða sem innleiða svonefnda tæknistaðla. Tæknistaðlarnir geta verið tæknilegir eftirlitsstaðlar (e. regulatory technical standards, RTS) eða tæknilegir framkvæmdastaðlar (e. implementing technical standards, ITS) og varða nánari framkvæmd ákvæða reglugerðar (ESB) nr. 648/2012.

Reglugerðin tók gildi innan Evrópusambandsins þann 16. ágúst 2012 og hefur komið til framkvæmdar í skrefum. 

Hvað felur EMIR í sér?

Gildissvið reglugerðarinnar er nokkuð vítt en hún hefur áhrif á aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) auk aðila utan EES sem eiga í afleiðuviðskiptum við mótaðila innan EES. Þannig fylgja reglugerðinni ekki einungis kröfur á fjármálafyrirtæki heldur einnig á aðra aðila á markaði sem eiga í afleiðuviðskiptum.

Með EMIR eru gerðar kröfur um að allir sem gera afleiðusamninga, þ.m.t. vaxta-, gjaldeyris-, hlutabréfa-, skulda- og hrávöruafleiðusamninga:

 • tilkynni þá til afleiðuviðskiptaskrár;
 • uppfylli nýjar kröfur um áhættustýringu fyrir alla tvíhliða OTC-afleiðusamninga, þ.e. samninga sem eru ekki stöðustofnaðir (e. cleared) hjá miðlægum mótaðila; og
 • stöðustofni (e. clear) alla OTC-afleiðusamninga sem falla undir stöðustofnunarskylduna hjá miðlægum mótaðilum.

 

Flokkar mótaðila

Þegar aðilar gera með sér afleiðusamning, þ.m.t. valrétti, framvirka samninga og skiptasamninga með gjaldeyri, vexti, skuldagerninga, hrávörur og hlutabréf gerast viðkomandi aðilar mótaðilar hvor annars í viðskiptunum.

Samkvæmt EMIR er gerður greinarmunur á mótaðilum í afleiðuviðskiptum og skiptast þeir í tvo flokka:

 • Fjárhagslegir mótaðilar (FM): Til þeirra teljast fjárfestingarfyrirtæki, lánastofnanir, vátryggingafélög, lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir og rekstrarfélög þeirra auk rekstraraðila sérhæfðra sjóða (e.AIFM).
 • Ófjárhagslegir mótaðilar (ÓFM): Til þeirra teljast allir þeir sem falla ekki undir skilgreiningu fjárhagslegra mótaðila.

Ófjárhagslegum mótaðilum má skipta í tvo undirflokka:

 • Þá sem eru með stöður í afleiðusamningum sem nema hærri fjárhæð en fjárhæðarmörkin sem getið er um í 10. gr. reglugerðarinnar (ÓFM+); og
 • Þá sem eru með stöður sem nema lægri fjárhæð en fjárhæðarmörkin sem getið er um í 10. gr. reglugerðarinnar (ÓFM-).

Fjárhæðarmörkin skv. 10. gr. EMIR eru nánar tilgreind í 11. gr. afleiddrar reglugerðar (ESB) nr. 149/2013 (Opnast í nýjum vafraglugga) . Þau eru eftirfarandi:

 • €1 ma. fyrir skulda- og hlutabréfaafleiður
 • €3 ma. fyrir vaxta- og gjaldmiðlaafleiður
 • €3 ma. að heildarvirði fyrir hrávöruafleiður og aðrar afleiður (samanlagt)

Fari ófjárhagslegur mótaðili yfir fyrrgreind fjárhæðarmörk skal hann tilkynna FME um það tafarlaust. Fari hann aftur niður fyrir þessi fjárhæðarmörk skal einnig tilkynna um það tafarlaust. Hægt er að senda þessar tilkynningar með eftirfarandi eyðublöðum:

Tilkynning um að ófjárhagslegur mótaðili fari yfir fjárhæðarmörk skv. 10. gr. EMIR.

Notification of non financial counterparty of exceeding the clearing threshold in accordance with article 10(1) of Regulation (EU) 648/2012 (EMIR)

Tilkynning um að ófjárhagslegur mótaðili sé ekki lengur yfir fjárhæðarmörkum skv. 10. gr. EMIR.

Notification of non financial counterparty of no longer exceeding the clearing threshold in accordance with article 10(2) of Regulation (EU) 648/2012 (EMIR)

 

Tilkynningar til afleiðuviðskiptaskrár

Ein af þeim nýjungum sem fylgja EMIR er tilkynningarskyldan. Hún felur í sér að upplýsingum um afleiðusamninga þarf að skila inn til afleiðuviðskiptaskrár þegar stofnað er til samninganna, þeim breytt eða lokað. Afleiðuviðskiptaskrár eru ný tegund þjónustuaðila á fjármálamarkaði og gegna því eina hlutverki að safna miðlægt saman og viðhalda gögnum um afleiðuviðskipti. Nánari upplýsingar um viðskiptaskrár (Opnast í nýjum vafraglugga) má finna á vefsvæði ESMA.

Skila þarf upplýsingunum til afleiðuviðskiptaskrár sem fengið hefur skráningu (gildir um afleiðuviðskiptaskrár innan EES) eða verið viðurkennd af hálfu ESMA (gildir um afleiðuviðskiptaskrár utan EES). Tilkynningarskyldan nær jafnt til fjárhagslegra mótaðila og ófjárhagslegra mótaðila, óháð fjárhæðarmörkunum (FM, ÓFM+ og ÓFM).

Ef afleiðuviðskiptaskrá er ekki til staðar ber að skila upplýsingunum beint til ESMA.

Hverjir þurfa að skila inn tilkynningum?

Allir þeir sem gera afleiðusamninga þurfa að uppfylla tilkynningaskylduna. Felur það í sér að báðir mótaðilar viðskipta þurfa að tilkynna þau, nema þeir hafi samið um það sín á milli að annar aðilinn muni sjá um tilkynningar fyrir hönd beggja. Hafi mótaðilar gert með sér slíkt samkomulag þarf að geta þess sérstaklega í skýrslunni. Mögulegt er fyrir mótaðila í afleiðuviðskiptum að útvista skýrsluskilum til þriðja aðila.

Hvaða samninga þarf að tilkynna?

Skila þarf inn skýrslum um öll viðskipti með afleiðusamninga eigi síðar en við lok næsta viðskiptadags eftir að samningur var gerður (T+1). Á það jafnt við um OTC-afleiður og afleiður sem teknar hafa verið til viðskipta á verðbréfamarkaði.

Tilkynningarskyldan er að hluta til afturvirk. Í þessu felst að skila þarf inn tilkynningum fyrir alla afleiðusamninga sem gerðir voru fyrir og voru enn útistandandi þann 1. júlí 2017 auk allra samninga sem gerðir voru eftir þann dag og fram til 1. október 2018, þegar tilkynningarskyldan tók gildi á Íslandi. Mismunandi tímasetningar gilda um þessi afturvirku skil og fara þær eftir því hvenær samningarnir voru gerðir og hver líftími þeirra er eða var. Nánari upplýsingar um tímasetningarnar er að finna í framkvæmdareglugerð (ESB) nr. 1247/2012 (Opnast í nýjum vafraglugga) .

Hvaða upplýsingar þurfa að koma fram í tilkynningum?

Mótaðilar þurfa hvor um sig að skila inn upplýsingum í tvennu lagi. Annars vegar svokölluðum mótaðilaupplýsingum (e. counterparty data) og hins vegar almennum upplýsingum um viðskiptin (e. common data).

Upplýsingar sem koma eiga fram í tilkynningum eru tilgreindar í tæknistaðli sem innleiddur var með framkvæmdareglugerð (ESB) nr. 148/2013 (Opnast í nýjum vafraglugga) .

Sérstök athygli er vakin á því að ESMA gerir ráð fyrir því að allir mótaðilar auðkenni sig með svokölluðu LEI auðkenni (e. Legal Entity Identifier). Hægt er að nálgast upplýsingar um LEI auðkennin á  vefsvæði „The LegalEntity Identifier Regulatory Committee“  (Opnast í nýjum vafraglugga) (LEIROC).

Að velja afleiðuviðskiptaskrá

Einungis er heimilt að senda tilkynningar til afleiðuviðskiptaskrár sem hlotið hefur samþykki eða verið viðurkennd af ESMA. Sem stendur hafa átta afleiðuviðskiptaskrár hlotið samþykki. Á vefsvæði ESMA er að finna lista yfir viðskiptaskrár (Opnast í nýjum vafraglugga) sem hafa verið samþykktar eða verið viðurkenndar. Mótaðilar bera sjálfir ábyrgð á að velja sér þá viðskiptaskrá sem þeir kjósa að eiga í viðskiptum við. Athygli er vakin á því að engin afleiðuviðskiptaskrá er staðsett á Íslandi.

Kröfur um aukna áhættustýringu

Með EMIR eru gerðar kröfur um að fjárhagslegir og ófjárhagslegir mótaðilar uppfylli ákveðnar skyldur um áhættustýringu vegna allra afleiðusamninga sem ekki hafa verið stöðustofnaðir hjá miðlægum mótaðila. Ríkar kröfur eru gerðar til fjárhagslegra mótaðila og ófjárhagslegra mótaðila með stöður yfir fjárhæðarmörkunum sem getið er um í 10. gr. EMIR (ÓFM+) en minni kröfur eru gerðar til ófjárhagslegra mótaðila með stöður undir fyrrgreindum fjárhæðarmörkum (ÓFM-).

Kröfurnar fela í sér að mótaðilar þurfa m.a. að geta staðfest skilmála samnings tímanlega (e. timely confirmation), afstemmt eignasafn (e. portfolio reconciliation), þjappað saman eignasafni, greint og leyst úr ágreiningi, bókfært daglega markaðsvirði útistandandi samninga, skipst á tryggingum og búið yfir nægu eigin fé til að stýra áhættu sem skipti á tryggingum taka ekki til.

Taflan hér að neðan tilgreinir þær aðgerðir sem EMIR kveður á um til að draga úr áhættu vegna afleiðusamninga sem ekki eru stöðustofnaðir miðlægt og þær mismunandi kröfur sem gerðar eru til flokkar mótaðila.

AÐGERÐIR TIL AÐ DRAGA ÚR ÁHÆTTU FLOKKAR MÓTAÐILA
  FM ÓFM+ ÓFM-
Bókun markaðsvirðis Nei
Tímanleg staðfesting T+1 T+2
Afstemming eignasafns Daglega, vikulega eða ársfjórðungslega. Fer eftir stærð eignasafns. Ársfjórðungslega eða árlega. Fer eftir stærð eignasafns.
Samþjöppun eignasafns Þegar mótaðilar eiga milli sín meira en 500 útistandandi afleiðusamninga, ber þeim skylda að greina möguleika á að sameina og fækka útistandandi samningum.
Úrlausn ágreinings Ferli þarf að vera til staðar auk þess sem tilkynna þarf Fjármálaeftirlitinu Ferli þarf að vera til staðar.
Skipti á tryggingum Nei

 

Fjármálaeftirlitið vill hvetja mótaðila til að kynna sér sérstaklega vel hvaða kröfur eiga við þá.

Stöðustofnunarskylda

Stöðustofnun (e. clearing) nefnist ferlið við að stofna stöður, þ.m.t. útreikningur á hreinni skuldbindingu og við að tryggja að fjármálagerningar, reiðufé, eða hvort tveggja, sé til staðar til að tryggja áhættuskuldbindingar sem leiðir af stöðunum. Með stöðustofnun gengur miðlægi mótaðilinn milli mótaðila að samningnum og verður kaupandi gagnvart hverjum seljanda og seljandi gagnvart hverjum kaupanda.

Stöðustofnunarskyldan felur í sér að stöðustofna skal alla OTC-afleiðusamninga sem tilheyra þeim flokkum OTC-afleiða sem samkvæmt skilgreiningu falla undir stöðustofnunarskylduna. ESMA sér um að ákvarða hvaða flokkar afleiðusamninga falla undir skylduna.

Stöðustofna þarf samninga hjá miðlægum mótaðilum sem fengið hafa til þess sérstakt starfsleyfi (miðlægir mótaðilar innan EES) eða hafa verið viðurkenndir af ESMA (miðlægir mótaðilar utan EES). Nánari upplýsingar um miðlæga mótaðila (Opnast í nýjum vafraglugga) má finna á vefsvæði ESMA.

Hverjir þurfa að stöðustofna samninga sína hjá miðlægum mótaðilum?

Fjárhagslegir mótaðilar og ófjárhagslegir mótaðilar með stöður yfir fjárhæðarmörkunum skv. 10. gr. EMIR (ÓFM+) þurfa að stöðustofna alla OTC-afleiðusamninga sem falla undir stöðustofnunarskylduna. Ófjárhagslegir mótaðilar undir fjárhæðarmörkunum (ÓFM-) þurfa ekki að stöðustofna þá afleiðusamninga sem þeir stofna til.

Öllum er heimilt að stöðustofna miðlægt hvaða afleiður sem er, svo lengi sem fundinn er miðlægur mótaðili sem tekur við slíkum afleiðum og báðir mótaðilar erum samþykkir því. Hvað varðar þá afleiðusamninga sem falla undir stöðustofnunarskylduna er ófrávíkjanleg krafa um miðlæga stöðustofnun.

Hvaða afleiðusamningar falla undir stöðustofnunarskylduna?

ESMA ákvarðar hvaða flokkar afleiðusamninga falla undir stöðustofnunarskylduna. Til þess notar ESMA tvær aðferðir:

 

 • „Bottom-up“ aðferð þar sem ESMA ákvarðar hvaða flokkar muni falla undir skylduna út frá þeim afleiðusamningum sem miðlægir mótaðilar hafa þegar fengið leyfi til að stöðustofna; og
 • „Top-down“ aðferð þar sem ESMA greinir og ákvarðar að eigin frumkvæði hvaða flokkar muni falla undir stöðustofnunarskylduna út frá afleiðusamningum sem miðlægir mótaðilar hafa ekki fengið leyfi til að stöðustofna.

 

Á vefsvæði ESMA má finna (PDF skjal) lista yfir alla þá flokka afleiðna sem miðlægir mótaðilar innan Evrópu hafa fengið leyfi til að stöðustofna og gætu því mögulega fallið undir stöðustofnunarskylduna þegar fram í sækir.

Sem stendur falla engir flokkar afleiðna undir stöðustofnunarskylduna en drög að þremur tæknistöðlum eru nú til skoðunar hjá Framkvæmdastjórn ESB. Þegar tæknistaðlarnir verða samþykktir mun stöðustofnunarskyldan taka gildi fyrir þá flokka afleiðna sem getið er um í tæknistöðlunum.

Að velja miðlægan mótaðila

Stöðustofna þarf þá samninga sem falla undir stöðustofnunarskylduna hjá miðlægum mótaðila sem fengið hefur til þess sérstakt starfsleyfi eða hefur verið viðurkenndur af ESMA. (PDF skjal) Lista yfir alla miðlæga mótaðila sem fengið hafa starfsleyfi eða verið viðurkenndir má finna á vefsvæði ESMA. Hafa skal í huga að ekki hafa allir miðlægir mótaðilar leyfi til að stöðustofna alla þá flokka afleiðna sem kunna að falla undir stöðustofnunarskylduna.

Hvenær þurfa mótaðilar að byrja að stöðustofna samninga?

Stöðustofnunarskyldan tekur gildi á mismunandi tíma sem ákvarðast ekki eingöngu af því hvenær tiltekinn flokkur afleiðna hefur verið felldur undir stöðustofnunarskylduna, heldur ræðst tímasetningin einnig af því um hvernig mótaðila er að ræða.

Í tæknistöðlum, sem framkvæmdastjórnin gefur út um hvaða flokkar afleiðna falla undir stöðustofnunarskylduna, er sett fram ítarleg sundurgreining á flokkun mótaðila. Þessi flokkun ræður því síðan hvenær viðkomandi mótaðili þarf að byrja að stöðustofna þá samninga sem falla undir skylduna. Tímabilið frá því tæknistaðlarnir eru gefnir út og stöðustofnunarskyldan tekur gildi þangað til mótaðilar þurfa að byrja að stöðustofna afleiðusamninga sína getur varað allt frá sex mánuðum til þriggja ára, allt eftir því í hvaða flokk mótaðilarnir falla.

Nánari upplýsingar um þetta er að finna í lokaskýrslum ESMA til framkvæmdastjórnarinnar auk umsagnarskjala (e. consultation paper) sem ESMA hefur birt. Skjölin má nálgast á vefsvæði ESMA (Opnast í nýjum vafraglugga) .

Undanþágur frá ákvæðum EMIR

 

EMIR veitir tvenns konar undanþágur vegna afleiðuviðskipta innan samstæðu:  frá stöðustofnunarskyldu og afhendingu trygginga vegna OTC-afleiðusamninga sem ekki eru stöðustofnaðir hjá miðlægum mótaðila. Séu báðir mótaðilar innan EES þarf að tilkynna FME um að slík undanþága sé nýtt en sé annar mótaðilanna innan EES en hinn utan þarf að sækja um slíka undanþágu til FME.

Hægt er að tilkynna eða sækja um slíkar undanþágur með tenglum hér að neðan:

Tilkynning um nýtingu undanþágu vegna OTC-afleiðuviðskipta innan samstæðu

Tilkynning um nýtingu undanþágu vegna OTC-afleiðuviðskipta innan samstæðu á ensku

Umsókn um nýtingu undanþágu vegna OTC-afleiðuviðskipta innan samstæðu

Umsókn um nýtingu undanþágu vegna OTC-afleiðuviðskipta innan samstæðu á ensku

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar má finna á vefsvæði ESMA (Opnast í nýjum vafraglugga) og vefsvæði Framkvæmdastjórnar ESB (Opnast í nýjum vafraglugga) . Markaðsaðilar eru hvattir til að kynna sér skjölin á þessum vefsvæðum áður en þeir hafa samband við Fjármálaeftirlitið. Í skjölunum er að finna svör við fjölmörgum spurningum sem kunna að vakna.

Allar fyrirspurnir varðandi EMIR skal senda á netfangið emir@sedlabanki.is.

Umfjöllun um EMIR

(PDF skjal) EMIR og miðlæg stöðustofnun OTC-afleiðna
Grein eftir Hörð Tulinius, sérfræðing á vettvangs og verðbréfaeftirlitssviði, er að finna í ágústhefti Fjármála 2015, vefrits Fjármálaeftirlitsins

(PDF skjal) EMIR reglugerðin og áhrif hennar á Ísland – Glærur úr kynningu Andra Más Gunnarssonar, sérfræðings Fjármálaeftirlitsins á morgunverðarfundi Fjármálaeftirlitsins 21. ágúst 2015

 


[1] OTC-afleiða: Afleiðusamningur sem ekki eru viðskipti með á skipulegum verðbréfamarkaði í skilningi 14. liðar 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2004/39/EB eða á markaði þriðja lands sem telst jafngildur skipulegum verðbréfamarkaði í samræmi við 6. mgr. 19. gr. tilskipunar 2004/39/EB

[2] Miðlægur mótaðili: Lögaðili sem gengur á milli mótaðila að samningum sem viðskipti eru með á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og verður þar með kaupandi gagnvart hverjum seljanda og seljandi gagnvart hverjum kaupanda

[3] Afleiðuviðskiptaskrár: Lögaðili sem safnar miðlægt saman og viðheldur gögnum um afleiður

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica