Spurt og svarað um afturköllun starfsleyfis NOVIS

Hvað er NOVIS?

  • NOVIS[1] er vátryggingafélag sem stofnað var í Slóvakíu árið 2014 og er undir eftirliti Seðlabanka Slóvakíu (NBS). NOVIS hefur verið með starfsemi í heimaríki sínu Slóvakíu, auk þess að vera með útibú í Austurríki, Tékklandi og Þýskalandi og veitt þjónustu yfir landamæri í Finnlandi, Ungverjalandi, Íslandi, Ítalíu, Litháen, Póllandi og Svíþjóð. Afurðir NOVIS hafa verið seldar íslenskum neytendum í gengum dreifingaraðila (vátryggingamiðlara) á Íslandi frá árinu 2018.

Hvað gerðist?

  • Hinn 5. júní 2023 afturkallaði NBS starfsleyfi NOVIS í kjölfar athugunar sem leiddi í ljós brot NOVIS á Solvency II löggjöfinni er varða gjaldþol, áhættustýringu og í tengslum við breytingar félagsins á vátryggingaskilmálum viðskiptavina.
  • Afturköllun starfsleyfis eru þyngstu viðurlög sem NBS getur beitt eftirlitsskyldan aðila. Í ljósi þess hve íþyngjandi ákvörðun um afturköllun starfsleyfis er slík ákvörðun einungis tekin í alvarlegustu tilfellunum.
  • NBS hefur gripið til ýmissa ráðstafana gagnvart NOVIS sem ekki hafa verið birtar tilkynningar um opinberlega. NBS hefur einnig beitt NOVIS viðurlögum í nokkrum tilvikum sem tilkynningar hafa birst um á vefsíðu NBS. Í ljósi þess að engar þessara ráðstafana eða viðurlagabeitingar leiddu til umbóta af hálfu NOVIS, ákvað NBS að afturkalla starfsleyfi félagsins.

Hvaða áhrif hefur afturköllun starfsleyfis NOVIS á íslenska neytendur?

  • Afturköllun starfsleyfis NOVIS ein og sér, hefur ekki áhrif á gildi núgildandi vátryggingarsamninga félagsins eða vátryggingavernd á grundvelli þeirra.
  • Vátryggingartökum er bent á að kynna sér vel skilmála vátryggingarsamninga sinna áður en tekin er ákvörðun um að hætta að greiða iðgjöld, uppsögn samnings, hlutauppsögn samnings, lækkun iðgjaldagreiðslna eða aðrar aðgerðir.
  • Í skilmálum vátryggingarsamninga NOVIS er að finna upplýsingar um kostnað og gjöld sem dregin eru frá inneign vátryggingartaka ef samningnum er sagt upp fyrir áætluð samningslok. Í skilmálunum er einnig að finna upplýsingar um skilyrði uppsagnar að hluta, undanþágu frá skyldu til iðgjaldagreiðslu og breytingar á vátryggingarsamningum.
  • Eftir að hafa kynnt sér skilmála vátryggingarsamninginn vel, sérstaklega þau ákvæði sem fjalla um kostnað, gjöld og mögulega réttindaskerðingu, getur vátryggingartaki tekið upplýsta ákvörðun. Mismunandi sjónarmið geta komið til skoðunar við slíka ákvörðun, s.s. hve lengi samningssambandið hefur varað, fjárhæð inneignar á tryggingarreikningi og hvort mögulegt sé að fá sambærilega vátryggingavernd hjá öðru félagi.
  • Vátryggingartökum er bent á að hafa samband við þann vátryggingamiðlara sem kom samningnum á til að fá nánari upplýsingar um vátryggingarsamninginn, viðeigandi skilmála og möguleg næstu skref.  

Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga

  • Áður en vátryggingartaki tekur ákvörðun um uppsögn vátryggingarsamnings í heild eða hluta er gott að hafa í huga að kynna sér vel þann kostnað sem kemur til frádráttar greiddum iðgjöldum ásamt ávöxtun við útreikning á endurkaupsvirði vátryggingarsamnings þegar honum er sagt upp fyrir áætluð samningslok.
  • Með endurkaupsvirði er átt við þá fjárhæð sem vátryggingartaki má eiga von á að fá greidda sé samningi sagt upp fyrir áætluð samningslok. Sjá nánari útskýringar hér að neðan eftir tegund samninga.
  • Með uppsögn að hluta er átt við heimild vátryggingartaka til að óska eftir að fá tiltekna fjárhæð greidda úr vátryggingarsamningum án þess að segja upp samningnum.

Wealth Insuring og Life Savings Plan afurðirnar

  • Upplýsingar um endurkaupsvirði, kostnað og gjöld er að finna í 12. grein almennra skilmála Wealth Insuring og Life Savings Plan afurðanna. Með því að kynna sér efni greinarinnar getur vátryggingartaki betur gert sér grein fyrir þeim kostnaði eða skerðingu á réttindum sem uppsögn samnings hefur í för með sér. Í greininni kemur meðal annars fram að fyrstu 5 ár samnings greiði vátryggingartaki 35% af iðgjaldi í kostnað. Segi vátryggingartaki samningi upp áður en 5 ár eru liðin af samningstímanum, er kostnaður dreginn frá endurkaupsvirði samningsins, sem nemur 35% af ógreiddum iðgjöldum fram að lokum 5 ára tímabilsins. Frekari upplýsingar um endurkaupsvirði, kostnað og gjöld sem vátryggingartaki greiðir er að finna í greininni. Skilmála afurðanna má nálgast hér.
  • Upplýsingar um uppsögn að hluta er að finna í 13. grein almennra skilmála Wealth Insuring og Life Savings Plan afurðanna. Skilmála afurðanna má nálgast hér.
  • Vátryggingartaki getur óskað eftir lækkun umsaminnar iðgjaldagreiðslu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Nánari upplýsingar um breytingar á vátryggingarsamningi, m.a. lækkun iðgjaldagreiðslna er að finna í 16. gr. almennra skilmála Wealth Insuring og Life Savings Plan afurðanna. Skilmála afurðanna má nálgast hér.

Flexible Savings Plan afurðin

  • Upplýsingar um endurkaupsvirði, kostnað og gjöld er að finna í 13. gr. almennra skilmála Flexible Savings Plan afurðarinnar. Með því að kynna sér efni greinarinnar getur vátryggingartaki betur gert sér grein fyrir þeim kostnaði eða skerðingu á réttindum sem uppsögn samnings hefur í för með sér. Í greininni kemur meðal annars fram að fyrstu 3 ár samnings greiði vátryggingartaki 35% af iðgjaldi í kostnað. Segi vátryggingartaki samningi upp áður en 3 ár eru liðin af samningstímanum, er kostnaður dreginn frá endurkaupsvirði samningsins, sem nemur 35% af ógreiddum iðgjöldum fram að lokum 3 ára tímabilsins. Frekari upplýsingar um endurkaupsvirði, kostnað og gjöld sem vátryggingartaki greiðir er að finna í greininni. Skilmála afurðarinnar má nálgast hér.
  • Upplýsingar um uppsögn að hluta er að finna í 14. grein almennra skilmála Flexible Savings Plan afurðarinnar. Skilmála afurðarinnar má nálgast hér.
  • Vátryggingartaki getur óskað eftir lækkun umsaminnar iðgjaldagreiðslu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Nánari upplýsingar um breytingar á vátryggingarsamningi, m.a. lækkun iðgjaldagreiðslna er að finna í 17. gr. almennra skilmála Flexible Savings Plan afurðarinnar. Skilmála afurðarinnar má nálgast hér

Hver eru næstu skref?

  • NBS hefur lagt fram beiðni fyrir þarlendum dómstól um skipan slitastjóra yfir NOVIS. Slitastjóri mun hafa með höndum slitameðferð NOVIS og taka við öllum heimildum stjórnar og stjórnenda félagsins. Slitastjóri mun setja sig í samband við vátryggingartaka NOVIS, þ.m.t. íslenska vátryggingartaka, og veita nánari upplýsingar um réttindi þeirra, þ.m.t. framlagningu vátryggingakrafna á grundvelli vátryggingarsamninga félagsins. Slitastjóri mun taka afstöðu til þess hvort óskað verður eftir gjaldþrotaskiptum félagsins eða hvort eignir séu nægar til að standa við skuldbindingar þess.

  • Áréttað er að hvorki afturköllun starfsleyfis NOVIS né skipun slitastjóra yfir félaginu leiðir til sjálfkrafa uppsagna á vátryggingarsamningum þess. Vátryggingarsamningar NOVIS og vátryggingavernd á grundvelli þeirra er því óbreytt þrátt fyrir ofangreint, að svo stöddu. 

Hvar er hægt að nálgast frekari upplýsingar?

  •  Vátryggingartakar NOVIS geta sent fyrirspurnir til félagsins (og til slitastjóra þegar hann hefur verið skipaður) eða þess vátryggingamiðlara sem hafði milligöngu um að koma samningnum á, fyrir ítarlegri upplýsingar og/eða leiðbeiningar.
  • NBS sem er heimaeftirlit NOVIS hefur tekið saman og birt á vef sínum algengar spurningar og svör í tengslum við ákvörðun bankans um að svipta NOVIS starfsleyfi. Upplýsingarnar eru á ensku og má nálgast hér. Einnig er hægt að senda fyrirspurn til NBS á netfangið info@nbs.sk
  • Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands tekur einnig á móti fyrirspurnum á netfangið sedlabanki@sedlabanki.is

Seðlabanki Íslands fylgist áfram með málinu og mun uppfæra upplýsingar til íslenskra neytenda á vefsíðu sinni.


[1] Fullt nafn félagsins er NOVIS Versicherungsgesellschaft, NOVIS Compagnia di Assicurazioni, NOVIS Poisťovňa a.s.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica