Starfsleyfi greiðslustofnana

Þeim einum er heimilt að veita greiðsluþjónustu sem hafa til þess leyfi samkvæmt lögum nr. 114/2021, um greiðsluþjónustu. Samkvæmt 23. tölul. 3. gr. laganna er einungis eftirfarandi aðilum heimilt að veita greiðsluþjónustu:

 • Fjármálafyrirtækjum með heimild til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingu útlána
 • Rafeyrisfyrirtækjum
 • Póstgíróstofnunum sem hafa rétt samkvæmt landslögum til að veita greiðsluþjónustu
 • Greiðslustofnunum
 • Seðlabanka Evrópu og seðlabönkum ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu
 • Stjórnvöldum ef greiðsluþjónusta tengist ekki hlutverki þeirra
 • Greiðslustofnunum með takmarkað starfsleyfi
 • Tilteknum lögaðilum eða einstaklingum sem fengið hafa undanþágu samkvæmt 35. gr. laganna

Hvað telst vera greiðsluþjónusta?

Greiðsluþjónusta samkvæmt 22. tölul. 3. gr. laganna telst vera:

 • Þjónusta sem gerir kleift að leggja reiðufé inn á greiðslureikning ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til rekstrar greiðslureiknings
 • Þjónusta sem gerir kleift að taka reiðufé út af greiðslureikningi ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til rekstrar greiðslureiknings
 • Framkvæmd greiðslna, þ.m.t. millifærslur fjármuna á og af greiðslureikningi hjá greiðsluþjónustuveitanda notanda eða hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda:
  • Framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakra beingreiðslna
  • Framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegum búnaði
  • Framkvæmd millifærslu fjármuna, þ.m.t. boðgreiðslna
 • Framkvæmd greiðslna ef fjármunir eru tryggðir með lánalínu fyrir notanda greiðsluþjónustu:
  • Framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakra beingreiðslna
  • Framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegum búnaði
  • Framkvæmd millifærslu fjármuna, þ.m.t. boðgreiðslna
 • Útgáfa greiðslumiðla og/eða færsluhirðing greiðslna
 • Peningasending
 • Greiðsluvirkjun
 • Reikningsupplýsingaþjónusta

Umsókn og afgreiðsla starfsleyfis greiðslustofnana

Umsókn um leyfi til að starfa sem greiðslustofnun skal vera skrifleg og skulu henni fylgja tilteknar upplýsingar. Seðlabankinn hefur útbúið yfirlit yfir þær upplýsingar sem stofnunin fer fram á að fylgi umsókn.

Upplýsingagjöf vegna umsóknar um starfsleyfi sem greiðslustofnun má finna á Þjónustuvef bankans undir „Starfsleyfi“.

Seðlabankinn hefur eftirlit með þeim aðilum sem stunda greiðsluþjónustu samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu. Á grundvelli framangreinds hefur Seðlabankinn sett reglur nr. 88/2020, um tryggilega varðveislu fjármuna sem greiðslustofnun móttekur.

Hæfismat stjórnarmanna og framkvæmdastjóra greiðslustofnana

Samhliða afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi greiðslustofnana tekur Seðlabankinn til skoðunar mat á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra félagsins á grundvelli 11. gr. laga um greiðsluþjónustu, sbr. 52. og 52. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.

Nánari upplýsingar um verklag við hæfismat stjórnarmanna og framkvæmdastjóra má finna í vefritinu Fjármál.

Virkur eignarhlutur

Samhliða afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi fyrir greiðslustofnun getur Seðlabankinn þurft að leggja mat á hvort hluthafar hennar séu hæfir til að fara með virkan eignarhlut samkvæmt 5. gr. laga um greiðsluþjónustu, sbr. VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki. Nánari upplýsingar um matið.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica