Spurt og svarað um vátryggingastarfsemi

Spurt og svarað vegna Solvency II

 

Hlutfallsregla 

1.    Hvaða einfaldari aðferðir geta smærri vátryggingafélög notað í útreikningi á gjaldþolskröfu og vátryggingaskuld?

Svar:  Reglugerð 2015/35 um Solvency II (Commission Delegated Regulation CDR) kveður á um ýmsar einfaldanir á tölulegum kröfum þegar hlutfallsreglan leyfir. Kveðið er á um einfaldari aðferðir við útreikning vátryggingaskuldar í Title I, Chapter III, Section 6 og um einfaldari aðferðir við útreikning gjaldþolskröfu í Title I, Chapter V, Section 1, Subsection 6.

2.a.    Mun Fjármálaeftirlitið veita vátryggingafélögunum leiðbeiningar og/eða ráðgjöf um beitingu hlutfallsreglunnar við túlkun á einstökum efnisákvæðum tilskipunarinnar? Ef svo er, hvenær er von á slíkum leiðbeiningum/ráðgjöf?

Svar: Hlutfallsreglan er ekki eingöngu lögð til grundvallar í Solvency II tilskipuninni, heldur einnig í CDR, tæknistöðlum og viðmiðunarreglum sem EIOPA gefur út. Fjármálaeftirlitið er tilbúið að ræða við einstaka vátryggingafélög um beitingu hlutfallsreglunnar en telur ekki ástæðu til að gefa leiðbeiningar umfram það sem kemur frá EIOPA út til markaðarins.

2.b.    Telur Fjármálaeftirlitið að ein og sama deildin/einingin geti á sama tíma sinnt bæði áhættustýringu og tryggingafræðilegu hlutverki?

Svar: Samkvæmt Solvency II skulu starfssviðin vera aðskilin (e. Operationally independent). Skilvirkasta aðferðin við að tryggja slíkan aðskilnað næst með því að aðgreina verkefni hvers starfssviðs. Mögulegar undanþágur frá ákvæðinu gætu átt við mjög smá félög og verður skoðað í hverju tilfelli fyrir sig.

Gjaldþolskrafa

3.    Er útséð með að Fjármálaeftirlitið bjóði uppá eyðublað til útreiknings á Solvency II í gegnum skýrsluskilakerfi eftirlitsins?

Svar: Já, Fjármálaeftirlitið mun ekki leggja út í slíkan kostnað. Ekki er fyrirséð að EIOPA muni bjóða upp á slíka þjónustu.

4.    Hvernig verður með útreikning á aðlöguðu gjaldþoli þegar reglur um Solvency II hafa tekið gildi? Má gera ráð fyrir að aðlagaða gjaldþolið verði framsett með sama hætti og nú er?

Svar: Í Solvency II verður ekki lengur talað um aðlagað gjaldþol og viðbótareftirlit með samstæðum líkt og í Solvency I. Breytingin felst í því að lögð verður meiri áhersla á gjaldþolsstöðu samstæðunnar í heild. Hvað varðar útreikningsaðferðir verða grundvallarreglurnar samt svipaðar og áður. Fjármálaeftirlitið vísar til gjaldþolskafla tilskipunarinnar fyrir frekari upplýsingar.

5.    Vissir matskenndir þættir geta haft veruleg áhrif á gjaldþolsútreikninga í Solvency II. Hyggst Fjármálaeftirlitið gefa út leiðbeinandi tilmæli um hvernig félögin skulu standa að slíkum útreikningum/mati? Dæmi um slíka þætti er áætlaður kostnaður við uppgjör tjónakrafna eftir að starfsemi félagsins hefur lagst af.

Svar: Fjármálaeftirlitið mun ekki gefa út tilmæli að eigin frumkvæði, heldur taka mið af þeim viðmiðunarreglum sem EIOPA hefur gefið út. Gefi viðmiðunarreglur EIOPA ekki nægar upplýsingar má ávallt leita til Fjármálaeftirlitsins eða EIOPA beint.

6.    Mun Fjármálaeftirlitið gefa reglulega út samræmda vexti og vaxtaferil sem félögin skulu/mega nota við núvirðingu vátryggingaskuldar og eigna? Ef svo er, verður um að ræða raunvexti eða nafnvexti (líkt og EIOPA gaf út fyrir QIS5)? Ef um nafnvexti er að ræða, við hvaða verðbólguspá skulu félögin miða?

Svar: Nei. EIOPA gefur út vaxtaferil fyrir nafnvexti. Eigið mat félagsins verður að ráða því hvaða verðbólguspá er raunhæf fyrir skuldbindingar þess, þar sem taka skal tillit til bæði ytri verðbólgu (t.d. breytinga á neysluverði) og innri verðbólgu (t.d. hækkandi tjónakrafna).

7.    Hvernig eigum við að nota óefnislegar eignir (s.s. viðskiptavild) við gjaldþolsútreikninga? (100%? 80%? annað?)

Svar: Viðskiptavild verður metin á núll við gjaldþolsútreikninga. Aðrar óefnislegar eignir geta aðeins komið til greina ef hægt er að selja þær sér og að tiltækt sé markaðsverð á virkum markaði fyrir eignina eða sambærilega óefnislega eign. Við útreikning er miðað við 80% skv. ákvæðum CDR.

8.    Hamfaraáhætta innan sjótrygginga er skilgreind í reglugerð sem „tanker (oil or gas) collision“ og „platform (oil or gas) explosion“. Er hamfaraáhætta þeirra félaga sem ekki hafa slíkar eignir í vátryggingu (samanber íslensku félögin) því engin í sjótryggingum samkvæmt Solvency II, eða skyldi notast við annars konar nálgun/mat?

Svar:  Fyrirhugað er að breyta umræddu ákvæði þannig að reiknað verði með tapi stærstu áhættu félagsins í sjótryggingum óháð tegund áhættunnar. Þangað til reglugerðin breytist mælist Fjármálaeftirlitið til að sú aðferð sé notuð til að tryggja að hamfaraáhætta í sjótryggingum mælist í útreikningi gjaldþolskröfu.

9.    Nú er það þannig að við árslok er SCR reiknað út miðað við eignastöðu félagsins á þeim tíma. Ef stjórn hefur ákveðið að greiða út arð er sú upphæð dregin frá gjaldþoli félagsins og því í raun verið að „refsa“ félaginu tvöfalt – fyrst í gegnum SCR (á þær eignir sem seldar verða) og svo í gegnum gjaldþolið. 

Ef við gefum okkur að stjórnin ákveði um leið og hún ákveður með arðgreiðslur hvaða eignir skulu seldar til að greiða út arðinn væri þá ekki eitthvað til í því að þær eignir kæmu ekki fram í SCR-útreikningum? Ég veit að þetta er svolítið langsótt en hafa félög í Evrópu ekkert spáð í þetta?  Ég get ekki séð neitt um svona hluti í tilskipuninni en kannski hefur FME eitthvað heyrt?

Svar: SCR er reiknað miðað við áramótin og er áhættan á verulegu eignahruni reiknuð inn í markaðsáhættu. Það er vel hugsanlegt að slíkt eignahrun geti orðið í upphafi árs, áður en félagið getur framkvæmt arðgreiðsluna. Eignirnar sem ætlaðar voru til arðgreiðslunnar væru þar með ekki lengur til staðar.

Það er því varfærið að gera ráð fyrir markaðsáhættu á allar eignir félagsins um áramótin, burtséð frá því hvort standi til að selja þær vegna arðgreiðslu eða ekki.

11.    Á að notast við 20% eða 26%, með eða án fjársýsluskatts.  Við höfum verið með mun á vátryggingaskuldinni í IFRS og SII efnahagsreikningnum og því notað þann mun sem ígildi gjaldþols. Við það myndast skattaskuld í SII efnahagsreikningnum. Á þessi skuld að reiknast sem 20% eða 26% af því fjármagni sem nýtist sem gjaldþol? 

Eins er með „adjustment for deferred tax“. Þegar áfallið er reiknað á að notast við 20% eða 26%? Ég tel reyndar að hér ætti að notast við 20% vegna þess að hér myndast enginn hagnaður og því ekki grundvöllur fyrir fjársýsluskattinn. Gott væri að fá ykkar skoðun/mat á þessum málum.

Svar: Varðandi skattprósentuna sem félagið notar til að reikna af gjaldþolslið sem myndast vegna mismunar á stöðu vátryggingaskuldar skv. IFRS og Solvency II efnahagsreikningnum, er það mat Fjármálaeftirlitsins að félagið ætti að notast við þá skattprósentu sem áætlanir gera ráð fyrir að það muni þurfa að greiða í nánustu framtíð. Samkvæmt lögum um tekjuskatt er sérstakur fjársýsluskattur reiknaður á hagnað umfram kr. 1.000.000.000. 

Fjármálaeftirlitið er sammála því að notast eigi við 20% skatthlutfall við aðlögun vegna frestaðra skatta (adjustment for deferred tax). Helgast það m.a. af því að samkvæmt lögum um tekjuskatt er við útreikning fjársýsluskatts ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps.

12.    Ég er með spurningu varðandi árstíðarbundna liði í efnahagsreikningi eins og iðgjaldaskuld og vátryggingakröfur. 

Nú er það svo að iðgjaldaskuld og um leið vátryggingakröfur eru lægstar við lok ársins og fara þannig inn í SCR útreikning félagana. En strax við fyrsta ársfjórðung (og jafnvel strax á fyrsta mánuði ársins) eru þessar stærðar mikið mun hærri. Er rétt að taka þessar hærri upphæðir inn í útreikning SCR við Q1 eða er leyfilegt að meta þessar stærðir á einhvern annan hátt? Vátryggingakröfur fara tam. inn í mótaðilaáhættuna sem getur því hækkað allverulega strax eftir áramótin en svo smátt og smátt lækkað eftir því sem líður á árið og náð lággildi sínu við lok ársins.

Svar: Almenna reglan er sú að SCR er reiknað út árlega, og þá er eðlilegast að reikna það út á sama tíma og ársuppgjör miðast við, þ.e. miðað við árslok. 

Við ársfjórðungslegan útreikning á MCR er heimilt að nota síðasta reiknaða SCR (miðað við áramótin) nema að félagið hafi vitneskju um að verulegar breytingar hafi orðið á áhættusniðinu. Árstíðabundnar breytingar á vátryggingaskuld teljast varla verulegar breytingar. 

SCR á að vera framsýnn áhættumælikvarði. Ef SCR í lok ársins gefur ekki rétta mynd af raunverulegri áhættu félagsins er eðlilegt að tekið sé tillit til þess í ORSA ferlinu. 

Markaðsáhætta

13.    Hvers konar eignir bera a) skuldatryggingaálagsáhættu (e. spread risk) og b) samþjöppunaráhættu samkvæmt Solvency II? Ríkistryggðar eignir eru undanskyldar slíkri áhættu samkvæmt regluverki en hve víðtækt má skilgreina „ríkistryggða eign“? Nær skilgreining t.a.m. til íbúðalánasjóðs, sveitafélaga og fyrirtækja með ríkisábyrgð? 

Svar: Gjaldþolskrafa vegna vikáhættu (e. spread risk) reiknast á skuldabréf, útlán, stöður vegna verðbréfunar (e. securitization positions) og  skuldafleiður. Vikáhætta reiknast ekki á ríkistryggðar eignir. Krafan ræðst af líftíma eignar og lánshæfismatseinkunn mótaðila/útgefanda. 

Gjaldþolskrafa vegna samþjöppunaráhættu reiknast á allar fjárfestingar og stórar áhættuskuldbindingar, sem ekki hefur reiknast krafa á vegna mótaðilaáhættu. Þá reiknast ekki samþjöppunaráhætta á ríkistryggðar eignir. Samþjöppunaráhætta er með þröskuldum sem ráðast af lánshæfi mótaðilans, lægri þröskuldar eru á áhættusamari eignir. 

Í Solvency II er talað um „ borrowings by or demonstrably guaranteed by national government of an EEA state, issued in the currency of the government.“ Fjármálaeftirlitið telur að þessi skilgreining eigi við um Íbúðalánasjóð en þetta á ekki við um sveitarfélög á Íslandi. Varðandi fyrirtæki með ríkisábyrgð verður að skoða hverja eign fyrir sig. Ekki verður t.a.m. séð að líta megi á áhættuskuldbindingu eins og hún sé gagnvart ríki ef ríkisábyrgðin er tímabundin. 

Í þessu sambandi má nefna að EIOPA hefur gefið út Technical standards with regard to the lists of regional governments and local authorities, exposures to whom are to be treated as exposures to the central government. Í tæknistaðlinum er listi yfir þau lönd þar sem líta má á áhættuskuldbindingu gagnvart sveitarfélögum og héraðsstjórnum eins og gagnvart ríki viðkomandi landa, við útreikning gjaldþolskröfu með staðalreglu. Ísland er ekki á þeim lista. 

14.    Í Solvency II er talað um að horfa eigi í gegnum sjóði til að ná fram undirliggjandi áhættu á bak við fjárfestinguna, hvernig verður þessu háttað? 

Svar: Til að tryggja að útreikningur á gjaldþolskröfu vegna undirliggjandi markaðsáhættu sjóða um sameiginlega fjárfestingu sé fullnægjandi er nauðsynlegt að skoða undirliggjandi eignasafn þeirra. Þar sem unnt er að koma því við skal horft í gegnum slíka sjóði svo að hægt sé að meta þær áhættur sem fylgja undirliggjandi eignum. Slíkar undirliggjandi eignir yrðu þá flokkaðar eftir viðeigandi áhættu (e. sub-modules). 

Sé þörf á að horfa endurtekið í gegnum fjárfestingu, s.s. þar sem sjóður um sameiginlega fjárfestingu hefur fjárfest í öðrum sjóði um sameiginlega fjárfestingu, skal tryggja að horft sé í gegnum eignina nægilega oft til að upplýsingar um alla viðeigandi markaðsáhættu náist. 

Í þeim tilfellum sem sjóður um sameiginlega fjárfestingu er ekki nægilega gagnsær til að hægt sé að flokka eignasafn hans með því að horfa í gegn um hann, skal horfa til fjárfestingarstefnu sjóðsins. Gera skal ráð fyrir að sjóðurinn fjárfesti samkvæmt fjárfestingarstefnu og skal flokka eignir sjóðsins samkvæmt fjárfestingarstefnu undir viðeigandi áhættuflokkanir (e. sub-module). 

Þriðji kosturinn er að líta á fjárfestingu í sjóði um sameiginlega fjárfestingu sem flokk 2 í hlutabréfaáhættu (e. type 2 equity) og reikna gjaldþolskröfu samkvæmt því. Þessi kostur skal þó aðeins skoðaður fyrir óbeina markaðsáhættu sem getur ekki talist viðamikil með hliðsjón af heildareignum vátryggingafélags. 

Sjá nánar í Guidelines on look-through approach

15.    Varðandi hlutabréfaáhættu, munu félög þurfa að taka saman eignir sjóða í hlutabréfum og telja þær þar undir? 

Svar: Horfa þarf í gegnum sjóði eins nákvæmlega og mögulegt er. Sjá nánar í svari við spurningu 14. 

16.    Varðandi vaxtaáhættu og skuldaálagsáhættu (e. spread risk), munu félög þurfa að brjóta sjóði niður í undirliggjandi eignir og greiðsluflæði þeirra eða verður nóg að setja inn vaxtanæman hluta sjóðanna og meðallíftíma (e. duration) þeirra? 

Svar: Ekki er nóg að setja inn vaxtanæman hluta sjóðanna og meðallíftíma. Framkvæma þarf útreikninginn eins nákvæmlega og mögulegt er, sjá nánar í CDR reglugerðinni.

17.    Munu aðrir sjóðir en verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir falla undir type 2 equities og þar með undir hlutabréfaáhættu? 

Svar: Til að tryggja að útreikningur á gjaldþolskröfu vegna undirliggjandi markaðsáhættu sjóða um sameiginlega fjárfestingu sé fullnægjandi, er nauðsynlegt að skoða undirliggjandi eignasafn þeirra. Þar sem unnt er að koma því við skal horft í gegnum slíka sjóði svo að hægt sé að meta þær áhættur sem fylgja undirliggjandi eignum. Slíkar undirliggjandi eignir  yrðu þá flokkaðar eftir viðeigandi áhættu (e. sub-modules). 

Horfa skal í gegnum aðrar fjárfestingar sem geta haft í för með sér óbeinar áhættur, svo sem vegna fjárfestinga í eignarhaldsfélögum. 

Sé þörf á að horfa endurtekið í gegnum fjárfestingu, s.s. þar sem sjóður um sameiginlega fjárfestingu hefur fjárfest í öðrum sjóði um sameiginlega fjárfestingu, skal tryggja að horft sé í gegnum eignina nægilega oft til að upplýsingar um alla viðeigandi markaðsáhættu náist. 

Þar sem sjóður um sameiginlega fjárfestingu er ekki nægilega gagnsær til að hægt sé að flokka eignasafn hans með því að horfa í gegn um hann, skal horfa til fjárfestingarstefnu sjóðsins. Gera skal ráð fyrir að sjóðurinn fjárfesti samkvæmt fjárfestingarstefnu og skal flokka eignir sjóðsins samkvæmt fjárfestingarstefnu undir viðeigandi áhættuflokkanir (e. sub-module). 

Þriðji kosturinn er að líta á fjárfestingu í sjóði um sameiginlega fjárfestingu sem flokk 2 í hlutabréfaáhættu (e. type 2 equity) og beita álagsprófum samkvæmt því. Þessi kostur skal þó aðeins skoðaður fyrir óbeina markaðsáhættu sem getur ekki talist viðamikil með hliðsjón af heildareignum vátryggingafélags.

Flokkur 2 af hlutabréfum samanstendur af hlutafélögum sem eru skráð í löndum utan EES eða OECD, óskráðum hlutafélögum, vogunarsjóðum, hrávörum og öðrum sérhæfðum fjárfestingum. Í þennan flokk falla einnig allar aðrar fjárfestingar sem ekki falla undir vaxtaáhættu (e. interest rate risk sub-module), fasteignaáhættu (e. property risk sub-module) eða vikáhættu (e. spread risk sub-module), þar á meðal eru eignir sem falla undir hlutabréfaáhættu þar sem ekki reynist unnt að horfa í gegnum sjóði um sameiginlega fjárfestingu eða aðrar sambærilegar eignir. 

Með hliðsjón af framangreindu munu aðeins þeir verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir sem ekki er hægt að horfa í gegnum eða meta eignir út frá fjárfestingarstefnu falla undir flokk 2 í hlutabréfaáhættu.

18.    Verður leyfilegt að færa þá sjóði sem félögum sýnist undir hlutabréfaáhættu? 

Svar: Nei, fara verður eftir þeim leiðbeiningum sem koma fram í svari við spurningu nr. 17. 

19.    Spurning varðandi  fasteignasjóði í SCR útreikningum félaganna. Tökum sem dæmi eign vátryggingafélags í fasteignafélagi: 

Segjum sem svo að við eigum skuldabréf upp á 500m og hlutabréf upp á 500m. 

Undir hlutabréfaáhættuna fellur hlutabréfið með 49% capital charge og skuldabréfið fer undir vaxta- og vikáhættu. En hvernig fer þetta undir samþjöppunaráhættuna? Þannig er að í samþjöppunaráhættunni skiptir máli af hvaða gerð „type of exposure“-ið upp á hvaða þrep (threshold) á að nota og hvaða capital charge. 

Er hægt að líta á þessa eign sem „property exposure“ eða er þetta „standard exposure“ eða jafnvel hvort tveggja, þ.e.a.s. Hlutabréfið sem „property exposure“ og skuldabréfið sem „standard“. 

Eða á jafnvel að notast við „look through approach“ til að skoða concentration niður á hverja fasteign  sem þá eflaust verður þess valdandi að lítið sem ekkert concentration capital charge reiknast á hlutabréfið. 

Svar: Þegar horft er til samþjöppunaráhættu er eðlilegast að horfa til þess undir hvaða tegund markaðsáhættu eignin fellur að öðru leyti. Eins og segir í viðmiðunarreglum EIOPA um look-through (Opnast í nýjum vafraglugga)  þá segir í Guideline 3 að eign í fasteignasjóði skuli falla undir hlutabréfaáhættu. Það er því eðlilegast að líta á að hlutabréf í fasteignafélagi falli undir hlutabréfaáhættu, frekar en að horfa í gegn. Þar sem skuldabréfið er áhættuskuldbinding gagnvart sama aðila ætti að leggja eignirnar saman. 

Samkvæmt CDR miðast stuðullinn g i við gæði mótaðilans en við getum ekki séð að tegund eignarinnar skipti máli. Hugtakið „standard exposure“ er ekki að finna í þessari reglugerð. 

20.    Er ekki rétt skilið að almennar viðskiptakröfur flokkast sem Type 2 counterparty Risk? Nú er það svo að viðskiptakröfur myndast oft vegna þess viðskiptavinur er í greiðsludreifingu með iðgjöldin sín. Er rétt að skipta þeim niður þannig að þær kröfur sem eru yngri en 3mánuðir fá „capital charge“ 15% og þær kröfur sem eru eldri en 3 mánuðir fái 90% „capital charge“? 

Svar: Ekki er fjallað sérstaklega um greiðsludreifingu í CDR, tæknistöðlum eða viðmiðunarreglum.  Í CDR (gr. 202) er talað um „ have been due for more than three months“ varðandi vanskil. 

Fjármálaeftirlitið telur að iðgjöld sem eru komin í greiðsludreifingu séu ekki í vanskilum og því þurfi ekki hærri  kröfu vegna mótaðilaáhættu. 

Vátryggingaskuld 

Ákveðin óvissa ríkir um núvirðingu á vátryggingaskuldinni, m.a. vegna þess að hluti skuldarinnar er verðtryggður. 

21.    Hvaða liði vátryggingaskuldar skal núvirða? 

Svar: Almenna reglan er sú að öll vátryggingaskuldin er núvirt. 

22.    Álag vegna rekstrarkostnaðar? 

Svar: Samkvæmt 31. gr. CDR  skal við útreikning vátryggingaskuldar miða við sjóðstreymi sem tekur til ýmissa kostnaðarliða, þ.á m. rekstrarkostnaðar. 

23.    Hvernig skal hugsa Risk Margin? 

Svar: Sjá Title I, Chapter III, Section 3, Subsection 4 í CDR. 

24.    Hvað skulu vátryggingafélög gera ef væntanlegur reikningsskilastaðall um vátryggingaskuldbindingar verður frábrugðinn Solvency II? Þarf þá að meta vátryggingaskuld eftir tveimur leiðum eða má reikna með að Solvency II verði breytt? 

Svar:. EIOPA hefur hafið greiningu á muninum á IFRS 17 og Solvency II Það er líklegt að alltaf verði einhver munur þó að ekki sé hægt að útiloka að breytingar verði gerðar á Solvency II til að koma til móts við IFRS 17. 

25.    Má ekki miðað við venjulegt íslenskt vátryggingafélag og nýjustu útgáfur EIOPA um Risk Margin (Delegated act Solvency II, gr. 38),  miða við að markaðsáhætta sé núll þegar SCR fyrir viðmiðunarfélagið er reiknað? 

Svar: Fjármálaeftirlitið myndi ekki gera athugasemd við það ef SCR sem útreikningar á risk margin byggjast á eru án markaðsáhættu skv. ákvæðum gr. 105(5) a-f í tilskipun 2009/138 og ákvæði gr. 164 (2) í reglugerð nr. 2015/35. 

Rétt er þó að benda á 38. gr. CDR liði h og i og jafnframt guideline 62 í Guideline on valuation of technical provisions No. 14/036 frá 27. nóvember 2014 sem nálgast má hér. Þar segir að ekki sé leyfilegt að horfa framhjá markaðsáhættu sé hún veruleg. Þar af leiðandi, telji félag sig geta horft framhjá markaðsáhættu í útreikningi á risk margin er æskilegt að félagið geti rökstutt það með greinargóðum hætti. 

Líkön 

26.    Mun Fjármálaeftirlitið taka þátt í aðlögun að íslenskum aðstæðum þar sem staðlaða líkanið hentar illa? Dæmi um slíkt gæti verið með því að meta "eigin" stuðla sameiginlega fyrir öll vátryggingafélög í sérstökum liðum vátryggingaáhættu. 

Svar:. Að svo stöddu er ekkert sem bendir til þess en síðar kunna að verða settar reglur sem gefur kost á notkun svokallaðra þjóðhagsvarúðartækja þar sem mögulega yrði hægt að beita einhvers konar sértækum kröfur fyrir íslenskan markað við tilteknar aðstæður.

Gagnaskil 

27.    Hvernig sér Fjármálaeftirlitið samhengið á milli "Solvency and Financial Condition Report" (SFCR), "Regular Supervisory Report" (RSR) og það sem við þekkjum í dag sem ársskýrslur félaganna? 

Svar: Ársskýrslu þarf að gera í samræmi við lög um ársreikninga. Vissulega eru ákveðin atriði sem krafist er í SFCR skýrslunni sem koma fram í skýringum við ársreikning. Hafa ber í huga að RSR er skýrsla sem ætluð er til að senda til Fjármálaeftirlitsins á meðan hinar eru birtar opinberlega og innihalda því ekki eins ítarlegar upplýsingar og RSR. 

28.    Má orða það þannig að ársskýrslurnar minnki þar sem hlutir eins og lýsing á stjórnarháttum og áhættustýringu geta færst yfir í hinar? 

Svar: Ekki ef slík breyting er í ósamræmi við IFRS. Framangreindar lýsingar í ársskýrslum eru ekki gerðar að kröfu Fjármálaeftirlitsins. 

29.    Í Solvency II tillögum er talað um skila á SFCR og RSR fyrir bæði samstæður og einstök félög. 

Munu íslensk félög þurfa að uppfylla þessi ákvæði og skrifa allar þessar skýrslur eða telur Fjármálaeftirlitið sig geta leyft félögunum að skila bara samstæðuskýrslum í samræmi við meðalhóf og núverandi rekstur íslensku félaganna? 

Svar: Hægt að gera þessar skýrslur (RSR + SFCR) fyrir alla samstæðuna í heild, en þá skal þess gætt að fullnægjandi upplýsingar komi fram um einstök félög. 

30.    Hvað með lítil félög sem má segja að séu í uppgjörsferli (e. run off) og falla ekki undir gjaldþolsreglurnar? 

Svar: Félög sem falla ekki undir Solvency II munu ekki þurfa að skila þessum skýrslum og lúta mun minna eftirliti. 

31.    Munu íslensk félög þurfa að skila "Quarterly reporting templates" (QRT)? 

Svar: Já, eins og við á um starfsemi þeirra. 

32.    Ef svo er munu félögin þurfa að skila 3-4 QRT skýrslum, fyrir samstæðu, móðurfélag og dótturfélög? 

Svar: Já, Fjármálaeftirlitið fer með eftirlit bæði með einstökum félögum sem og samstæðum þeirra. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að fá skýrslur bæði fyrir einstök félög og samstæðuna í heild sinni. 

33.    Munu öll einstök félög, s.s. dótturfélög, þurfa að skila annual reporting templates? 

Svar:  Já, öll sem falla undir Solvency II 

36.    Nú er það svo að dótturfélag  er með söfnunarlíftryggingu þar sem söfnunin er algerlega á ábyrgð vátryggingataka – dótturfélag (og samstæða móður- og dótturfélaga) er undanskilin allri ábyrgð og skuldbindingu varðandi hana. Á að sundurliða þessar eignir sem liggja á bakvið? Í SCR útreikningi félagsins og samstæðunnar kemur þessi eign hvergi inn í útreikning (enda áhættulaus með öllu fyrir félagið) og nettast í raun út í efnahagsreikningnum. 

Svar: Já, það þarf að sundurliða eignir á bak við söfnunarlíftryggingu, bæði í efnahagsreikningi (eyðublaði S.02) og í lista yfir eignir (S.06.02) þarf að taka fram hvort eignin sé vegna söfnunarlíftryggingar í dálki C0090 . 37.    Hvernig er með ID-code óskráðra eigna og innistæðna/lausafé í bönkum – má notast við Undertaking-specific ( t.d. kennitölu) eða má þetta standa autt? 

Svar: Ef fyrstu tvö skilyrðin (þ.e. að til sé ISO 6166 kóði eða annar viðurkenndur kóði) eru ekki uppfyllt á að nota það þriðja, þ.e. það er félagsins að skilgreina eignina t.d. með kennitölu. Sjá nánar í leiðbeiningum fyrir dálk C0040 í eyðublaði S.06.02 í Annex II í tæknistaðlinum fyrir gagnaskil. 

39.    Issuer Group – Hvernig er farið með þetta ef engin móðurfélagsábyrgð er á eigninni? Má þetta vera autt ef ekki er um neina samstæðu að ræða eða þarf að setja inn það sama og Issuer name? 

Svar: Hér er verið að óska eftir nafni móðurfélags ef eign er útgefin af dótturfélagi. Ef eign er gefin út af móðurfélagi skal nota nafn þess. Ástæða þessa er sú að verið er auðvelda eftirlitsstjórnvöldum að safna saman gögnum um áhættu vegna tilteknar samstæðu, undir hatti móðurfélags. 

41.    Hvað með verðbætur – fara þær undir „Accrued Interest“? 

Svar: Já, færa skal verðbætur undir „Accrued Interest“. 

Svör (36-41) byggjast m.a. á Q&A skjali EIOPA. 

42.    Er til  listi yfir endurtryggjendur, þ.e. code number sem notuð verða við skýrslugjöf í SII? 

Svar: Allir endurtryggjendur ættu að vera komnir með LEI kóða.  Sjá viðmiðunarreglur EIOPA um LEI kóða hér. 

43.    As Solvency II approaches, I am researching how the reporting requirements for insurance companies within Iceland will be impacted.  Will Solvency II replace all reporting requirements or will local reporting requirements be required in addition to Solvency II?  If yes, what local requirements will remain? 

Also, can you tell me if the Solvency II QRTs will be made available for public consumption?  

Svar: Fjármálaeftirlitið (the Icelandic FSA) decided does not collect any additional regular quantitative data. We still collect some additional narrative reports, like minutes of the Board and the Auditors' reports.

Solvency II QRT´s are not expected to be made available to the public.  

It is worth noting, however, that the three largest insurance companies in Iceland with a combined market share of approx. 85% have listed shares on the Icelandic stock exchange and are therefore subject to all the same disclosure requirements as other exchange listed companies. 

44.    Hvaða formerki á að vera á vátryggingaskuld og hluta endurtryggjenda í vátryggingaskuld í eyðublöðum TP-E1 (nú S.12 og S.17)? 

Svar: Á eyðublöðin færast algildin (absolute values) nema ef sérstaklega er tekið fram að færa skuli neikvæða tölu. 

45.    Samkvæmt því sem ég les þá eiga QRT skýrslur íslenskra félaga að vera í krónum með engum aukastöfum (ISO_4217). Er það rétt? 

Svar: Já, rétt ályktun. 

46.    Hvernig á að horfa á dótturfélag sem er utan um fjárfestingar  þegar  QRT skýrsla fyrir móðurfélag er gerð? 

Það sem ég er að velta fyrir mér varðandi skil móðurfélags á t.d. QRT skjölum er það að við erum vanir að horfa í gegnum eignir og skuldir dótturfélagsins má segja eins og það sé sé móðurfélagið. Hingað til þá hefur maður mest verið á group level og verið að horfa í gegnum öll félögin. Ég geri ráð fyrir að það sé rétt að gera það áfram. T.d. í stað þess að ein eign móðurfélagsins sé dótturfélags,  þá yrði horft í gegnum það og einstakar eignir dótturfélagsins listaðar upp. Dótturfélagið er ekki tryggingafélag og það er verið að gera þetta á Solo level og þess vegna var ég ekki alveg viss með þetta og vil fá þetta staðfest. 

Svar: Horfa skal framhjá (look-through) dótturfélaginu sem lýst er í spurningunni í gagnaskilunum fyrir móðurfélag „solo“. 

Tilgangurinn er m.a. að gjaldþolskrafan er reiknuð út frá raunverulegri áhættu sem stafar af beinum og óbeinum áhættuskuldbindingum. 

Um þetta efni er m.a. fjallað í „Guidelines on look-through approach“ (sjá heimasíðu EIOPA) og  84. gr. í CDR (2015/35) 

48.    Í skýrslunni balance sheet by currency kemur fram  „Reporting currency“, má skilja það sem svo að í tilfelli íslenskra félaga sé einungis um ISK (íslenskar krónur) að ræða eða snýst þetta um í hvaða myntum eignir og skuldir félagsins eru? 

Svar: „Reporting currency“ er sú uppgjörsmynt sem viðkomandi vátryggingafélag notar, þ.e. ISK 


Gæði gagna 

50.    Í Solvency II er kveðið á um fagleg vinnubrögð varðandi gæði, skjölun og meðhöndlun gagna. Hversu langt á að ganga í þessum málum hjá félögum sem að koma til með að nota staðlaða líkanið til að reikna út gjaldþolskröfuna? 

Svar: Í Solvency II er fyrst og fremst fjallað um gæði gagna í tengslum við vátryggingaskuld, en einnig þarf félagið að hafa viðeigandi ferla til að tryggja gæði gagna sem skilað er til Fjármálaeftirlitsins. Gæði gagna falla einnig undir almenna stjórnarhætti. Sérstakar kröfur gilda síðan um kröfur til gagna sem notuð er við útreikning í eigin líkönum.   

51.    Hvaða faglegu vinnubrögð þurfa félög sem að nota eigin mæliaðferðir til að mæla áhættuþætti félagsins í t.d. ORSA að tileinka sér? 

Svar: Sjá viðmiðunarreglur EIOPA um ORSA. 

Almennt um innleiðingu á Solvency II 

52.  Solvency II tilskipunin gerir ýmsar kröfur til stjórnvalda, eftirlitsaðila og vátryggingafélaga. Mun Fjármálaeftirlitið veita félögunum einhverjar leiðbeiningar um nákvæmlega hvaða efnisákvæði tilskipunarinnar snúa beint að vátryggingafélögunum? 

Svar:
 Vísað er til nýrra laga um vátryggingastarfsemi sem innleiða einstök tilskipunarákvæði. Ljóst á að vera í hverri grein að hvaða aðilum hún beinist, Fjármálaeftirlitið er að sjálfsögðu tilbúið til umræðu um einstök ákvæði. 

Stjórnarhættir/ORSA 

54 .    Er nokkuð sem mælir móti því að útfæra stefnur varðandi einstaka áhættuþætti, sbr. sp. 53, í einni heildstæðri ORSA-stefnu (e. ORSA policy)? 

Svar: Hér er væntanlega átt við heildstæða stefnu um áhættustýringu en gæta þarf að því að  rugla ekki saman stefnu um áhættustýringu (e. risk management policy) og ORSA. Hinsvegar er ekkert sem kemur í veg fyrir að stefna um ORSA sé hluti af stefnu um áhættustýringu. Óháð því hvar stefna um ORSA er staðsett er það innihald hennar sem skiptir máli. 

56. Hvers er ætlast til af okkur? Á að fara í gegnum hverja einustu forsendu og færa rök fyrir því hvort við uppfyllum hana eða ekki? Og ef ekki hvað er til ráða? 

Svar: FME bendir á Guideline 12 í viðmiðunarreglum EIOPA um ORSA þar sem segir: 

The undertaking should assess whether its risk profile deviates from the assumptions underlying the SCR calculation and whether these deviations are significant. The undertaking may as a first step perform a qualitative analysis and if that indicates that the deviation is not significant, a quantitative assessment is not required.

Það má því leggja í fyrstu huglægt mat á það hvort áhættusnið félagsins í einstökum áhættuþáttum víki verulega frá forsendum staðalreglunnar. Sé niðurstaðan sú að um verulegt frávik gæti verið að ræða þarf að nota útgáfu EIOPA, The underlying assumptions in the standard formula for the Solvency Capital Requirement calculation  opnast í nýjum vafraglugga

Gagnaskil - Spurningar sem fram komu á kynningarfundi 12. janúar 2017 og svör við þeim

S.02.01 — Balance sheet

Á eignarhlutur í dótturfélögum að vera færður eins og í samstæðunni með hlutdeildaraðferð eða eins og í móðurfélagi á kostnaðarverði?

Svar: Almenna reglan í Solvency II er að gera á grein fyrir öllum eignum á gangvirði í Solvency II efnahagsreikningi, sbr. 75 gr. Evróputilskipunar nr. 2009/138/EC. Verður því ekki annað ráðið en að við skil á móðurfélagsgrunni beri félögum að gera grein fyrir eignarhlutum í dótturfélögum á gangvirði. Nánari leiðbeiningar um verðmatsaðferðir er að finna í viðmiðunarreglum EIOPA um verðmat á eignum og skuldbindingum öðrum en vátryggingaskuld (e. Guidelines on recognition and valuation of assets and liabilities other than technical provisions).

S.03.01. – Off-balance sheet – items – General

Er skilgreining Solvency II samsvarandi og skilgreining IFRS á óvissum skuldbindingum? (e. contingent liability).

Svar: Skv. 11 gr. Evrópureglugerðar nr. 2015/35 þurfa vátryggingafélög að bera kennsl á óvissar skuldbindingar sem teljast verulegar (e. material). Óvissar skuldbindingar teljast vera verulegar ef upplýsingar um núverandi eða mögulega stærð þeirra gæta haft áhrif á ákvörðunartöku eða mat (e. judgement) notenda upplýsinganna, þ.m.t. eftirlitsstjórnvalda. Skv. fyrirliggjandi leiðbeiningum í gagnaskilatæknistöðlum þarf ekki að vera líklegt að skuldbinding raungerist og leiði þ.a.l. til útflæðis fjármuna. Skv. reikningaskilastöðlum (IAS 37) þarf á hinn bóginn að vera líklegt að óviss skuldbinding raungerist til að hennar sé getið í skýringum. Í töflu S.03.01 þarf m.a. að gera grein fyrir óvissum skuldbindingum skv. skilgreiningu Solvency II. Í gagnaskilatæknistaðli (EU) nr. 2015/2450 er að finna nánari upplýsingar um óvissar skuldbindingar skv. Solvency II.

S.05.01.01 – Premiums, claims and expenses by line of business

Í töflu 05.01.01 á m.a. að sundurliða kostnað niður á vátryggingagreinar, ber að flytja allan fjárfestingarkostnað á vátryggingagreinar eða einungis þann fjárfestingarkostnað sem fluttur er á vátryggingagreinar sem fjárfestingarkostnað skv. ársreikningi?

Svar: Skv. fyrirliggjandi leiðbeiningum í gagnaskilatæknistaðli nr. (EU) nr. 2015/2450 á að færa inn í töfluna fjárhæðir í samræmi við þá reikningsskilaaðferð sem beitt er við gerð ársreiknings (IFRS í tilviki íslenskra vátryggingafélaga), nema að því leiti að nota á greinaskiptingu vátrygginga skv. reglum Solvency II. Ennfremur kemur fram að undir annan kostnað (e. other expenses) eigi að færa annan kostnað sem ekki er skipt niður á vátryggingagreinar. Verður því ekki annað ráðið en að undir fjárfestingarkostnað (e. investment management expenses) eigi aðeins að færa þann hluta sem færður er á vátryggingagreinar skv. reikningsskilum. Tekið skal fram að taflan miðast við uppsafnaða stöðu frá áramótum (e. year to date basis).

S.06.03 - Collective investment undertakings – look-through approach

Hvaða reglur gilda um skilaskyldu á töflunum?

Svar: Samstæður og móðurfélög eru skyldug til að standa skil á töflunum árlega. Þá þurfa samstæður og móðurfélög að standa skil á töflunum ársfjórðungslega ef þau fara yfir neðangreindan þröskuld sem skilgreindur er í gagnaskilatæknistaðli nr. (EU) nr. 2015/2450:

Quarterly information shall only be reported when the ratio of collective investments undertakings held by the undertaking to total investments, measured as the ratio between item C0010/R0180 of template S.02.01 plus collective investments undertakings included in item C0010/R0220 of template S.02.01 plus collective investments undertakings included in item C0010/R0090 and the sum of item C0010/R0070 and C0010/RC0220 of template S.02.01, is higher than 30 %.

S.07.01 – Structured products

Hvaða reglur gilda um skilaskyldu á töflunni?

Svar: Standa þarf árleg skil á töflunum á móðurfélagsgrunni og samstæðugrunni ef farið er yfir neðangreindan þröskuld sem skilgreindur er í gagnaskilatæknistaðli nr. (EU) nr. 2015/2450:

This template shall only be reported when the amount of structured products, measured as the ratio between assets classified as asset categories 5 (Structured notes) and 6 (Collateralised securities) as defined in Annex IV — Asset Categories of this Regulation and the sum of item C0010/R0070 and C0010/R0220 of template S.02.01, is higher than 5 %.

S.09.01 – Information on gains/income and losses in the period.

Hver er nákvæm skilgreining á vaxtatekjum (e. Interest)?

Svar: Skilgreiningu á vöxtum er að finna í gagnaskilatæknistaðli nr. (EU) nr. 2015/2450. Um er að ræða vaxtatekjur ársins, að frádregnum áföllnum vöxtum í upphafi tímabils en að viðbættum áföllnum vöxtum í lok tímabils. Á einnig við um vaxtatekjur af eignum sem hafa verið seldar eða voru með lokagjalddaga á tímabilinu. Taflan tekur til vaxtatekna af skuldabréfum, lánum og innistæðum. 

Hver er nákvæm skilgreining á arðgreiðslum (e. dividends) er einungis átt við arðgreiðslur, en ekki tekjur vegna endurfjárfestingar á arðgreiðslum?

Svar:

Skilgreiningu er að finna í gagnaskilatæknistaðli nr. (EU) nr. 2015/2450. Um er að ræða arðgreiðslur sem fengist hafa á tímabilinu að frádregnum arði sem ákvarðaður var áður en tímabil hófst en að viðbættum arðgreiðslum sem félag hefur verið ákvarðaður fyrir lok tímabilsins. Taflan tekur einnig til arðgreiðslna af eignum sem seldar hafa verið á tímabilinu.

Fyrir hvaða CIC flokka á að skila „Unrealised gains and losses“?

Svar:

Með hliðsjón af tilvísun gagnaskilatæknistaðals nr. (EU) nr. 2015/2450 í eignaflokka eins og þeir eru skilgreindir í viðauka IV   verður ekki annað ráðið en gera þurfi grein fyrir óinnleystum hagnaði (eða tapi) vegna allra flokkanna sem tilgreindir eru í viðaukanum. Óinnleystur hagnaður eða tap miðast við verðmat eigna skv. 75 gr. Evróputilskipunar nr. 2009/138/EC.

Síðast uppfært 27. mars 2018. Teknar hafa verið út spurningar sem vísa til leiðbeinandi tilmæla sem fallið hafa úr gildi.

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica