Fjárhagslegar viðmiðanir

Með lögum um fjárhagslegar viðmiðanir var reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/2011 frá 8. júní 2016 (hér eftir BMR), með breytingum samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2019/2089 frá 27. nóvember 2019 innleidd hér á landi. Í samræmi við 1. mgr. 13. gr. laganna hefur ráðherra gefið út reglugerð nr. 162/2021 um fjárhagslegar viðmiðanir, auk þess sem Seðlabanki Íslands hefur í samræmi við 2. mgr. 13. gr. laganna sett reglur nr. 752/2021 um fjárhagslegar viðmiðanir.

Reglugerðin gildir bæði um gerð viðmiðana, þar á meðal vinnslu inntaksgagna sem liggja þeim til grundvallar, og notkun. Með viðmiðunum er í stórum dráttum átt við tölur sem eru almenningi aðgengilegar, eru ákvarðaðar með reglulegu millibili á grundvelli tiltekinna verðgilda og eru notaðar til að ákvarða greiðslur, virði fjárhagslegra gerninga eða eignaskiptingu fjárfestingarsjóða. Tilgreindir aðilar eru undanþegnir reglugerðinni, þar á meðal seðlabankar og aðilar sem taka saman viðmiðanir vegna opinberrar stefnu.

Þá eru aðilar sem telja sig falla undir lög nr. 7/2021 um fjárhagslegar viðmiðanir hvattir til að kynna sér efni laganna og eftir atvikum innleiða í rekstur sinn þær skyldur sem lögin kveða á um, sækja um starfsleyfi eða skrá sig hjá Seðlabankanum. Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið BMR@sedlabanki.is eða hafa samband í síma: 569-9600.

Mismunandi flokkar og tegundir viðmiðana

  • Mjög mikilvægar viðmiðanir - eru skilgreindar í 20. gr. BMR en í þann flokk falla viðmiðanir sem uppfylla tiltekin stærðar- eða mikilvægisviðmið. Hvað stærðarmörk varðar falla viðmiðanir sem eru nýttar beint eða óbeint í samsetningu viðmiðana undir a. lið 1. mgr. 20. gr. BMR ef þær eru notaðar sem tilvísun fyrir fjármálagerninga, fjárhagslega samninga eða til að mæla árangur fjárfestingarsjóða og eru að andvirði a.m.k. 500 milljarðar evra.
  • Mikilvægar viðmiðanir – eru skilgreindar í 24. gr. BMR en í þann flokk falla viðmiðanir sem ekki uppfylla stærðar- eða mikilvægisviðmið í 20. gr. BMR um mjög mikilvægar viðmiðanir en uppfylla þó samskonar viðmið sem eru sett fram í 24. gr. BMR. Hvað stærðarmörk varðar falla viðmiðanir sem eru nýttar beint eða óbeint í samsetningu viðmiðana undir a. lið 1. mgr. 24. gr. BMR ef þær eru notaðar sem tilvísun fyrir fjármálagerninga, fjárhagslega samninga eða til að mæla árangur fjárfestingarsjóða og eru að andvirði a.m.k. 50 milljarðar evra (þó ekki hærri en 500 milljarðar evra, sbr. skilyrði 20. gr. BMR).
  • Viðmiðanir sem eru ekki mikilvægar – eru þær viðmiðanir sem hvorki teljast mjög mikilvægar samkvæmt 20. gr. BMR, né mikilvægar samkvæmt. 24. gr. BMR.

Fjárfestingasjóður

Seðlabankinn vekur sérstaka athygli á að notkun á hugtakinu fjárfestingarsjóður í BMR er frábrugðin því sem gerist í annarri löggjöf á fjármálamarkaði. Með hugtakinu fjárfestingarsjóður í BMR er bæði átt við sérhæfða sjóði og verðbréfasjóði.

Starfsleyfi eða skráning

Seðlabankinn bendir sérstaklega á að aðilum sem hyggjast stjórna gerð viðmiðana ber að sækja um starfsleyfi þar að lútandi, eða eftir atvikum tilkynna sig sem stjórnanda við gerð viðmiðana hjá Seðlabankanum í samræmi við 34. gr. BMR.

Almenna reglan, sem er sett fram í a. lið 1. mgr. 34. gr. BMR er sú að aðilum beri að sækja um starfsleyfi til að verða stjórnendur gerðar viðmiðunar í skilningi reglugerðarinnar. Tvær undanþágur eru frá þessari meginreglu, annars vegar í b. lið 1. mgr. 34. gr. þar sem kemur fram að möguleiki sé fyrir einingar undir eftirliti að skrá sig sem stjórnanda að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og hins vegar í c. lið 1. mgr. 34. gr. þar sem kemur fram að aðili geti skráð sig ef hann fyrirhugar að gera aðeins vísitölur sem myndu teljast viðmiðanir sem eru ekki mikilvægar.

Með einingum undir eftirliti er átt við einhvern af þeim aðilum sem taldir eru upp í a. til m. lið 17. tl. 1. mgr. 3. gr. BMR.

Notkun á viðmiðunum

Með notkun á viðmiðunum er átt við eitthvert þeirra atriða sem eru talin upp í 7. tl. 1. mgr. 3. gr. BMR. Þar undir fellur m.a. að meta árangur fjárfestingasjóðs með því að nota vísitölu eða samsetningar vísitalna í þeim tilgangi að fylgjast með ávöxtun slíkrar vísitölu eða samsetninga vísitalna, til að skilgreina eignaskiptingu eignasafns eða að reikna út árangurstengdar þóknanir.

Gagnlegar upplýsingar

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica