Virkur eignarhlutur

Seðlabankinn metur hvort aðilar séu hæfir til að fara með virkan eignarhlut og koma þar ýmsir þættir til skoðunar.

Með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags (t.d. með stjórnarsetu). Með óbeinni hlutdeild er átt við að aðili, annar en beinn hluthafi í eftirlitsskyldum aðila, fari annaðhvort með yfirráð í beina hluthafanum (e. control criterion) eða eigi í gegnum keðju eignarhalds óbeint tilkall til 10% eða meira af hlutafé eða atkvæðisrétti í eftirlitsskyldum aðila (e. multiplication criterion)[1].

Þeir sem ætla að eignast, einir sér eða í samstarfi við aðra, virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki, greiðslustofnun, rafeyrisfyrirtæki, rekstrarfélagi verðbréfasjóða, rekstrarfélagi sérhæfðra sjóða eða vátryggingafélagi ber að tilkynna Seðlabanka Íslands um fyrirhuguð viðskipti. Sama á við um þá sem hyggjast, einir sér eða í samstarfi við aðra, auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur fari yfir 20%, 30% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að eftirlitsskyldi aðilinn verði talið dótturfélag hans.

Seðlabankinn metur hvort aðilar séu hæfir til að fara með virkan eignarhlut og koma þar ýmsir þættir til skoðunar:

 

  • Orðspor þess sem mun fara með virka eignarhlutinn,
  • fjárhagslegt heilbrigði hans,
  • reynsla og orðspor nýrra stjórnenda,
  • hvort líklegt sé að eignarhaldið verði til þess að aðilinn á fjármálamarkaði uppfylli ekki lengur varúðarkröfur og reglur (t.d. um eiginfjárkröfur),
  • hvort ætla megi að eignarhaldið muni leiða til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka, eða geti aukið líkur á að slíku athæfi.

 

Þeir aðilar sem fara með virkan eignarhlut eru ekki eftirlitsskyldir aðilar með sama hætti og þeir sem stunda leyfisskylda starfsemi. Þeir sem hafa heimild til að fara með virkan eignarhlut eru þó háðir ýmsum lagaskilyrðum sem Seðlabankinn hefur eftirlit með að séu uppfyllt auk þess sem lögin leggja á framangreinda aðila ýmsar skyldur. Á þeim sem fara með virkan eignarhlut hvílir til að mynda skylda til að tilkynna fyrir fram um allar breytingar sem geta haft áhrif á matið.

Lagaákvæði um virka eignarhluti byggja á evrópskum grunni. Seðlabankinn hefur því hliðsjón af sameiginlegum viðmiðunarreglum sem evrópsku eftirlitsstofnanirnar á fjármálamarkaði (EBA, EIOPA og ESMA) hafa gefið út. Seðlabankinn fer fram á sömu upplýsingar og evrópskar systurstofnanir sínar auk þess sem beðið er um frekari upplýsingar vegna séríslenskra aðstæðna.

Virkur eignarhlutur í lánastofnunum

Á grundvelli VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki afgreiðir Seðlabankinn tilkynningar um virka eignarhluti í lánastofnunum. Líkt og fram kemur í yfirliti um upplýsingar sem fylgja skulu umsókn um starfsleyfi skal fylgja tilkynningu um virkan eignarhlut ásamt starfsleyfisumsókninni, sjá yfirlitið á eyðublaðasíðu vefsins undir „Starfsleyfi“. Tilkynning um virkan eignarhlut verður þó ekki afgreidd fyrr en starfsleyfi lánastofnunar hefur verið veitt. Tímafrestir byrja ekki að líða fyrr en þann dag er lánastofnun fær starfsleyfi.

Virkur eignarhlutur í vátryggingafélagi

Á grundvelli X. kafla laga um vátryggingastarfsemi afgreiðir Seðlabankinn tilkynningar um virka eignarhluti í vátryggingafélögum. Líkt og fram kemur í yfirliti um upplýsingar sem fylgja skulu umsókn um starfsleyfi skal fylgja tilkynningu um virkan eignarhlut ásamt starfsleyfisumsókninni, sjá yfirlitið á eyðublaðasíðu vefsins undir „Starfsleyfi“. Tilkynning um virkan eignarhlut verður þó ekki afgreidd fyrr en starfsleyfi vátryggingafélags hefur verið veitt. Tímafrestir byrja ekki að líða fyrr en þann dag er vátryggingafélag fær starfsleyfi.

Nánari upplýsingar um virkan eignarhlut

Frekari upplýsingar um mat Seðlabankans á virkum eigendum, tímafresti, áhrif þess að tilkynning sé ekki send inn eða þess að óhæfur aðili eignist hlut og viðvarandi mat má einkum finna í VI. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (lánastofnanir), I. kafla 2. þáttar laga nr. 115/2021, um markaði fyrir fjármálagerninga (verðbréfafyrirtæki), X. kafla laga nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi (vátryggingafélög), 5. gr. laga nr. 114/2021, um greiðsluþjónustu (greiðslustofnanir), 14. gr. laga nr. 17/2013, um útgáfu og meðferð rafeyris (rafeyrisfyrirtæki), 13. gr. laga nr. 116/2021, um verðbréfasjóði (rekstrarfélög verðbréfasjóða) og 16. gr. laga nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða (rekstraraðilar sérhæfðra sjóða).

Kröfur til upplýsingagjafar aðila sem hyggjast eignast virkan eignarhlut má finna á eyðublaðasíðu vefsins undir liðnum „Virkur eignarhlutur“.

Athygli er vakin á því að innheimt er tímagjald fyrir mat á virkum eiganda, sbr. gjaldskrá Seðlabanka Íslands nr. 165/2023, vegna verkefna sem tengjast fjármálaeftirliti.

 


[1] Dæmi. Aðili B á beinan, 100% virkan eignarhlut í A. C á 51% hlut í B, og D á 20% hlut í C. Þá telst D eiga 10,2% óbeinan, virkan eignarhlut í A (0,2*0,51*1=0,102). Nánari skýringu, með dæmum, er að finna í viðauka II í evrópsku viðmiðunarreglunum.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica