Rannsóknar- og tilkynningarskylda

Tilkynningarskyldum aðilum ber að tilkynna skrifstofu fjármálagreininga lögreglu (hér eftir SFL) tímanlega um grunsamleg viðskipti og fjármuni sem grunur leikur á um að rekja megi til refsiverðrar háttsemi. Með hugtakinu grunur er vísað til lægsta stigs gruns og er því ekki gerð jafn ítarleg og afdráttarlaus krafa og almennt gildir í réttarfari um rökstuddan grun heldur er hér átt við nægjanlegan grun. Í samræmi við alþjóðlegar reglur á sviði aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er talið betra að tilkynningarskyldir aðilar tilkynni oftar en sjaldnar. Það er í höndum SFL að annast frekari meðferð og greiningar á upplýsingum sem fylgja tilkynningum.

Tilkynningarskyldir aðilar þurfa að sinna rannsóknarskyldu sinni og annast ákveðna frumrannsókn og greiningu. Skylt er að forðast viðskipti, þegar fyrir hendi er vitneskja eða grunur um að þau megi rekja til refsiverðrar háttsemi.

Rannsóknarskylda tilkynningarskyldra aðila getur t.a.m. kviknað þegar:

  • viðskipti, millifærslur fjármuna eða annars konar umsýsla með eignir eða fjármuni virðist bera með sér að hafa ekki efnahagslegan eða lögmætan tilgang,
  • um er að ræða óvenjulega umfangsmikil eða flókin viðskipti,
  • viðskiptin eru óvenjuleg miðað við fyrri viðskipti hlutaðeigandi aðila,
  • um er að ræða viðskipti sem varða aðila í áhættusömum ríkjum eða
  • viðskipti sem hafa að öðru leyti á sér óvenjulegan blæ.

Tilkynningar skulu sendar SFL í gegnum goAML kerfið og þarf efni þeirra að vera það skýrt að ekki fari á milli mála hvaða einstöku eða afmörkuðu viðskipti eða millifærslu verið er að tilkynna og hvers vegna grunur sé um að hún tengist refsiverðri háttsemi.

Tilkynningarskyldir aðilar skuli senda tilkynningar á lögbært stjórnvald þess ríkis sem tilkynningarskyldi aðilinn er með staðfestu í, þ.e. þar sem hann hefur starfsleyfi og er með höfuðstöðvar. Samkvæmt því skulu tilkynningarskyldir aðilar, með staðfestu á Íslandi, senda tilkynningar sínar til SFL.

Tilkynningarskyldir aðilar skuli senda tilkynningar á lögbært stjórnvald þess ríkis sem tilkynningarskyldi aðili er með staðfestu í, þ.e. hafa starfsleyfi og eru með höfuðstöðvar. Samkvæmt því skulu tilkynningarskyldir aðilar, með staðfestu á Íslandi, senda tilkynningar sínar til SFL.

Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að tilnefna sérstakan ábyrgðarmann úr hópi stjórnenda og skal sá að jafnaði annast tilkynningar til SFL. Tilkynningarskyldir aðilar skulu tilnefna ábyrgðarmann til SFL og til Seðlabanka Íslands. Ábyrgðarmaður þarf að hafa skilyrðislausan aðgang að áreiðanleikakönnun viðskiptamanna, viðskiptum eða beiðnum um viðskipti ásamt öllum þeim gögnum sem geta skipt máli vegna tilkynninga.

Gagnlegir tenglar

Til baka

Aðgerðir tilkynningarskyldra aðila

Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að grípa til fyrirbyggjandi og áhættumiðaðra aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra sé misnotuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Þetta er meðal annars gert með því að framkvæma áhættumat, móta stefnu og verklag, þjálfa starfsmenn, kanna áreiðanleika viðskiptamanna, áhættuflokka viðskiptamenn, viðhafa reglubundið eftirlit með þeim og rannsaka og tilkynna grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Smelltu á mynd til að vita meira.

Áhættumat á starfsemi Stefna, stýringar og verkferlar Þjálfun starfsmanna Áreiðanleikakönnun Áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum Reglubundið eftirlit Rannsóknar- og tilkynningarskylda
Þetta vefsvæði byggir á Eplica