Áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum

Áhættumat á starfsemi er grundvöllur að áhættumati á samningssamböndum og einstökum viðskiptum sem stýrir því hvernig viðskiptamenn eru áhættuflokkaðir. Tilkynningarskyldir aðilar skulu tryggja að áhættumat á samningssamböndum endurspegli fyrirliggjandi áhættu á hverjum tíma og sé í samræmi við þau viðskipti sem viðskiptamaður stundar.

Áhættuþættir

Þegar áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum er framkvæmt skal horft til allra viðeigandi áhættuþátta sem geta, einir og sér eða samanlagt, aukið eða dregið úr áhættu vegna peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Horfa skal til þeirrar heildaráhættu sem tengist samningssambandi og einstökum viðskiptum. 

Meðal annars skal horft til:

  • starfsemi, orðspors og stjórnmálalegra tengsla viðskiptamanns og raunverulegs eiganda,
  • ríkja eða ríkjasvæða sem tengjast viðskiptasambandinu,
  • áhættuþátta sem tengjast þeirri vöru, þjónustu eða færslum sem sóst er eftir,
  • dreifileiða sem notaðar eru,
  • hvort viðskiptamaður noti milligönguaðila til að koma fram fyrir sína hönd,
  • hvort viðskiptamaður sé lögaðili með flókið eignarhald eða stjórnskipulag,
  • hvort viðskiptamaður sé fjárvörslusjóður eða sambærilegur aðili
  • hvort viðskiptamaður stundi aðallega reiðufjárviðskipti.

Þegar einstakur áhættuþáttur er metinn skulu tilkynningarskyldir aðilar að lágmarki tryggja að:

  • einn matsþáttur hafi ekki óeðlileg áhrif til lækkunar á áhættuflokkun,
  • ákvörðun um vægi einstakra áhættuþátta komi ekki í veg fyrir að samningssambönd geti verið flokkuð sem mikil áhætta,
  • fjárhagsleg og hagnaðardrifin sjónarmið hafi ekki áhrif á áhættuflokkun,
  • ákvæði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka varðandi tilvik þar sem ávallt á að beita aukinni áreiðanleikakönnun gangi alltaf framar en áhættuflokkun tilkynningarskylds aðila,
  • möguleiki sé á að ganga fram hjá sjálfvirkri áhættuflokkun þar sem það er talið nauðsynlegt. Skjalfesta skal rökstuðning fyrir slíkri ákvörðun.

Tilkynningarskyldum aðilum er heimilt að nota sjálfvirk upplýsingatæknikerfi til þess að komast að niðurstöðu um áhættuflokkun í því skyni að flokka samningssambönd og einstök viðskipti. Tilkynningarskyldur aðili þarf aftur á móti að geta útskýrt fyrir eftirlitsaðila hvernig kerfið virkar og hvernig það sameinar áhættuþætti til þess að komast að endanlegri niðurstöðu varðandi áhættuflokkun. Hann þarf einnig að tryggja að niðurstaðan endurspegli hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og geta rökstutt slíka niðurstöðu gagnvart eftirlitsaðilum.

Gagnlegir tenglar

Til baka

Aðgerðir tilkynningarskyldra aðila

Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að grípa til fyrirbyggjandi og áhættumiðaðra aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra sé misnotuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Þetta er meðal annars gert með því að framkvæma áhættumat, móta stefnu og verklag, þjálfa starfsmenn, kanna áreiðanleika viðskiptamanna, áhættuflokka viðskiptamenn, viðhafa reglubundið eftirlit með þeim og rannsaka og tilkynna grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Smelltu á mynd til að vita meira.

Áhættumat á starfsemi Stefna, stýringar og verkferlar Þjálfun starfsmanna Áreiðanleikakönnun Áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum Reglubundið eftirlit Rannsóknar- og tilkynningarskylda




Þetta vefsvæði byggir á Eplica