Áhættumat á starfsemi

Áhættumat á starfsemi felur í sér að bera kennsl á og meta hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í starfsemi tilkynningarskylds aðila. Áhættumatinu er ætlað að leiða í ljós helstu veikleika og ógnir sem beinast að viðkomandi og skal í því tilgreina aðferðir og leiðir til að stýra og draga úr greindri hættu á að starfsemin sé misnotuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka.

Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að gera áhættumat á starfsemi sinni skv. lögum nr. 140/2018 og skal það uppfært a.m.k. á tveggja ára fresti eða oftar ef tilefni er til. 

Áhættumatið skal innihalda skriflega heildstæða greiningu og m.a. taka mið af áhættuþáttum sem tengjast viðskiptamönnum, viðskiptalöndum eða svæðum, vörum, þjónustu, viðskiptum, tækni og dreifileiðum. Áhættumat þarf alltaf að fara fram áður en nýjar vörur eða þjónusta er sett á markað og þegar teknar eru í notkun nýjar dreifileiðir og ný tækni.

Tilkynningarskyldir aðilar stunda efnisólíka starfsemi og umfang starfsemi getur verið mismunandi. Áhættumat skal því taka mið af stærð, eðli og umfangi á starfsemi tilkynningarskyldra aðila og margbreytileika starfseminnar.

Áður en áhættumat er unnið skal skjalfesta þá aðferðafræði sem notuð er við gerð þess. Þar skal koma skýrt fram hvernig matið fer fram, m.a. hvernig bera skal kennsl á áhættuþætti, hvar og hvernig gagna er aflað, hvernig áhættuflokkun fer fram og hvaða viðmið eru notuð við áhættuflokkun. Færa skal rök fyrir þeirri nálgun sem tilkynningarskyldur aðili kýs að beita við áhættumat sitt. Reglulegt mat á aðferðafræði skal fara fram og það uppfært ef tilefni er til. Við gerð áhættumats ber tilkynningarskyldum aðilum að hafa áhættumat ríkislögreglustjóra til hliðsjónar.

Í áhættumati skal m.a. fjallað um:

  • eðlislæga áhættu, áhættuflokkun einstakra áhættuþátta og forsendur þeirrar niðurstöðu,
  • gæði stýringa og annarra aðferða til að draga úr áhættu,
  • eftirstæða áhættu og áhættuflokkun einstakra áhættuþátta.

Evrópska bankaeftirlitsstofnunin EBA hefur gefið út viðmiðunarreglur um áhættuþætti sem tengjast aðgerðum tilkynningarskyldra aðila á fjármálamarkaði gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (e. The Risk Factors Guidelines). Tilkynningarskyldir aðilar skulu kynna sér viðmiðunarreglurnar og taka mið af þeim við gerð áhættumats.

Nánar er fjallað um gerð áhættumats í reglugerð nr. 545/2019 og er þar m.a. kveðið á um aðferðafræði við gerð áhættumats, áhættuflokkun, vöktun og eftirlit, stýringar og verkferla.

Gagnlegir tenglar

Til baka

Aðgerðir tilkynningarskyldra aðila

Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að grípa til fyrirbyggjandi og áhættumiðaðra aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra sé misnotuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Þetta er meðal annars gert með því að framkvæma áhættumat, móta stefnu og verklag, þjálfa starfsmenn, kanna áreiðanleika viðskiptamanna, áhættuflokka viðskiptamenn, viðhafa reglubundið eftirlit með þeim og rannsaka og tilkynna grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Smelltu á mynd til að vita meira.

Áhættumat á starfsemi Stefna, stýringar og verkferlar Þjálfun starfsmanna Áreiðanleikakönnun Áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum Reglubundið eftirlit Rannsóknar- og tilkynningarskylda




Þetta vefsvæði byggir á Eplica