Almennar upplýsingar um tegundir vátrygginga

Viðbótartryggingarvernd / séreignasparnaður

Samningar um viðbótartryggingarvernd, oft nefnt séreignasparnaður, eru samningar um tryggingavernd, sem er umfram þá lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir vegna skylduaðildar að lífeyriskerfinu.

Þegar slíkur samningur er gerður við erlent vátryggingafélag eða vörsluaðila séreignasparnaðar er hann í innlendum gjaldeyri og eru iðgjöld að jafnaði innheimt af innlendum félögum með söluumboð vegna afurðanna hér á landi. Gjaldeyrisviðskipti, þ.e. þegar innlendum gjaldeyri er skipt í erlendan gjaldeyri til þess að greiða iðgjald, eru framkvæmd með tvennum hætti. Annars vegar þannig að erlenda vátryggingafélagið framkvæmir þau eftir að hafa fengið greiðslu frá umboðsaðila í innlendum gjaldeyri. Hins vegar með því að umboðsaðilinn sjálfur framkvæmir gjaldeyrisviðskiptin og greiðir svo erlendan gjaldeyri inn á reikning erlenda vátryggingafélagsins hjá fjármálafyrirtæki hér á landi.

Seðlabanki Íslands telur gjaldeyrisviðskipti á grundvelli samninga sem gengið var til eftir tilkomu fjármagnshafta, þ.e. 28. nóvember 2008, falla undir takmarkanir laga og reglna um gjaldeyrismál.

Áður en framangreindum takmörkunum verður framfylgt mun Seðlabankinn veita fjögurra mánaða aðlögunartímabil svo unnt sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi framhald eða lok samninga. Þá verður áfram heimilt að greiða iðgjöld í innlendum gjaldeyri á reikning í eigu erlends tryggingafélags hjá fjármálafyrirtæki hér á landi. Þannig geta neytendur staðið við gerða samninga um viðbótartryggingarvernd og átt rétt á greiðslum í innlendum gjaldeyri frá erlendu vátryggingafélagi við upphaf lífeyristökualdurs eða skv. sérstakri fyrirframgreiðsluheimild.

Athygli er vakin á skilaskyldu erlends gjaldeyris samkvæmt 13. gr. l. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál.

Sparnaður

 Mörg erlend vátryggingafélög hafa boðið upp á sparnaðarleiðir sem fela í sér uppsöfnun á höfuðstól erlendis. Um er að ræða samninga í erlendum gjaldeyri þar sem innlendir einstaklingar skuldbinda sig til að greiða iðgjöld í erlendum gjaldeyri. Greidd iðgjöld eru svo nýtt til kaupa á einingum í sjóðum erlendis. Í flestum tilvikum fara greiðslur iðgjalda þannig fram að greiðslukort einstaklinga eru gjaldfærð í hverjum mánuði í erlendri mynt en sparnaður er ávallt laus til innlausnar.

 Seðlabanki Íslands telur gjaldeyrisviðskipti á grundvelli samninga sem gengið var til eftir tilkomu fjármagnshafta, þ.e. 28. nóvember 2008, falla undir takmarkanir laga og reglna um gjaldeyrismál.

 Áður en framangreindum takmörkunum verður framfylgt mun Seðlabankinn veita fjögurra mánaða aðlögunartímabil til þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi framhald eða lok samninga. Á aðlögunartímabili verður veitt undanþága til þess að standa við þegar gerða samninga en auknar greiðslur á aðlögunartímabilinu eru þó óheimilar.

 Í tilvikum þar sem skilmálar samninga heimila ekki ótímabundið greiðsluhlé mun Seðlabankinn veita heimild til að skilmálabreyta samningum og greiða samkvæmt þeim í innlendum gjaldeyri. Slík skilmálabreyting er þó háð samþykki viðkomandi vátryggingafélags. Þá verður leitast við að veita undanþágu til þess að standa við gerða samninga upp að innlausnarvirði að fjárhæð 550GBP

 Athygli er vakin á skilaskyldu erlends gjaldeyris samkvæmt 13. gr. l. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál.

Söfnunartryggingar

 Samningar um söfnunartryggingar sem erlend vátryggingafélög bjóða hérlendis eru afurð þar sem hefðbundnum slysa-, líf- og sjúkdómatryggingum er blandað saman við sparnað. Í þeim felst að hluta iðgjalda er varið til kaupa á hefðbundnum tryggingum og að hluta í sparnað með öflun fjárhagslegra réttinda. Rétthafi á því kröfu um uppsafnaðan sparnað í samræmi við stöðu eignarréttinda hans að ákveðnum tíma liðnum, enda hafi svokallað innlausnarvirði myndast af samningnum. Að þessu leyti er söfnunarhlutinn sambærilegur sparnaði á innlánsreikningi í banka. Samningar um söfnunartryggingar eru gerðir í erlendum gjaldeyri og skuldbinda einstaklingar sig til að greiða iðgjöld í erlendri mynt.

Seðlabanki Íslands telur gjaldeyrisviðskipti á grundvelli samninga sem gengið var til eftir tilkomu fjármagnshafta, þ.e. 28. nóvember 2008, falla undir takmarkanir laga og reglna um gjaldeyrismál.

Áður en framangreindum takmörkunum verður framfylgt mun Seðlabankinn veita fjögurra mánaða aðlögunartímabil til þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi framhald eða lok samninga. Á aðlögunartímabili verður veitt undanþága til þess að standa við samninga sem gerðir voru fyrir gildistöku nýrra reglna nr. 565/2014 um gjaldeyrismál. Auknar greiðslur á þessu aðlögunartímabili eru þó óheimilar.

Í tilvikum þar sem skilmálar samninga heimila ekki ótímabundið greiðsluhlé mun Seðlabankinn veita heimild til að skilmálabreyta samningum og greiða samkvæmt þeim í innlendum gjaldeyri. Slík skilmálabreyting er þó háð samþykki viðkomandi vátryggingafélags.

Þá verður veitt undanþága vegna tryggingahluta samninga um söfnunartryggingar með líf-, slysa-, og sjúkdómatryggingu  í þeim tilfellum sem hægt er að aðskilja söfnunarhluta frá vátryggingahluta samningsins.

 Athygli er vakin á skilaskyldu erlends gjaldeyris samkvæmt 13. gr. l. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál.

Eingreiðslulíftryggingar

 Eingreiðslulíftryggingar samkvæmt þeim samningum sem um ræðir eru söfnunarafurð þar sem hluti greiðslu, sem gerð er i erlendum gjaldeyri, er notaður til sjóðssöfnunar en hluti til kaupa á líftryggingu. Einstaklingurinn getur fengið andvirði samningsins greitt út þegar hann vill ganga að sparnaði sínum en við andlát hans er andvirði tryggingarfjárhæðar líftryggingarhluta samningsins greidd út til þess aðila sem einstaklingurinn tilgreinir í samningi. Iðgjaldagreiðslu samkvæmt samningi um eingreiðslulíftryggingu er varið til kaupa á einingum í fyrirfram ákveðnum sjóðum fjárfestis eftir að samningskostnaðurinn hefur verið dreginn frá. Þá eru í einhverjum tilvikum dregin frá áhættuiðgjöld vegna líftryggingar auk rekstrarkostnaður þess sjóðs sem einingar eru keyptar í.

Samningar um eingreiðslulíftryggingar eru gerðir í erlendum gjaldeyri og skuldbinda einstaklingar sig til að greiða iðgjaldið í erlendri mynt.  

 Seðlabanki Íslands telur þessi gjaldeyrisviðskipti falla undir takmarkanir laga og reglna um gjaldeyrismál.

 Ekki verða veittar undanþágur vegna eingreiðslulíftrygginga á undanþágutímabili.

Skaða- og persónutryggingar (Hreinar vátryggingarafurðir)

Nýjar reglur um gjaldeyrismál munu ekki hafa áhrif á samninga við erlend vátryggingafélög um hreinar vátryggingaafurðir, þ.e. skaða- eða persónutryggingar sem fela hvorki í sér söfnun, sparnað, endurgreiðslu iðgjalda né önnur áunnin réttindi.

Seðlabanki Íslands telur gjaldeyrisviðskipti á grundvelli slíkra samninga falla undir þjónustuviðskipti og eru því heimil skv. 13. gr. c. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál.    

 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica