MiFID II og MiFIR

MiFID (e. Markets in Financial Instruments Directive) er samheiti yfir evrópskt regluverk um markaði fyrir fjármálagerninga. Fyrsta kynslóð MiFID tók gildi árið 2007 í Evrópusambandinu og var MiFID I tilskipunin ásamt undirgerðum innleidd í íslenskan rétt sama ár. Nú hefur önnur kynslóð MiFID-regluverksins litið dagsins ljós í Evrópusambandinu með útgáfu nýrrar tilskipunar og reglugerðar, MiFID II og MiFIR. Það eru höfuðgerðir hins endurskoðaða regluverks. Þeim fylgja afleiddar gerðir, sem byggja á tæknistöðlum gefnum út af ESMA, evrópsku verðbréfaeftirlitsstofnuninni, og Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. MiFID II og MiFIR mun taka gildi í aðildarríkjum Evrópusambandsins hinn 3. janúar 2018 og í kjölfarið verður regluverkið tekið upp í íslenskan rétt, í ljósi aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn).

Fjármálaeftirlitið hefur sett á laggirnar netfang til að taka á móti fyrirspurnum vegna innleiðingar MiFID II og MiFIR: mifid2@sedlabanki.is.

MIFID II

MiFID I markaði tímamót í samræmingu á reglum og umgjörð evrópskra fjármálamarkaða. MiFID II (http://eur-lex.europa.eu/legal-content/EN/TXT/?uri=CELEX:02014L0065-20160701) tekur mið af tækninýjungum sem komið hafa fram á sjónarsviðið frá setningu MiFID I. MiFID II hefur víðtækara gildissvið og er meðal annars ætlað að auka gagnsæi í viðskiptum með fjármálagerninga og skerpa á fjárfestavernd. MiFID II hefur í för með sér breytingar á núgildandi reglum um starfsleyfi, viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, skipulagskröfur fjármálafyrirtækja og nýjar tegundir viðskiptavettvanga, svo eitthvað sé nefnt.

MiFIR

MiFIR (https://ec.europa.eu/info/law/markets-financial-instruments-mifir-regulation-eu-no-600-2014_en) er önnur höfuðgerð regluverksins, en notkun reglugerða sem meginlöggjafarforms hefur færst í aukana hjá Evrópusambandinu. Ákvæði reglugerða fela ekki í sér svigrúm við innleiðingu í landsrétt, líkt og ákvæði tilskipana, sem stuðlar að samræmi í framkvæmd á hinum innri markaði. Ákvæði MiFIR munu öðlast lagagildi á Íslandi. Í reglugerðinni er meðal annars að finna víðtækari kröfur en í MiFID I um gagnsæi fyrir og eftir viðskipti og þá er eftirlitsstjórnvöldum færðar valdheimildir til að hlutast til um markaðssetningu, dreifingu eða sölu tiltekinna fjármálaafurða, samsettra innstæðna og samsettra innstæðna með tiltekin einkenni, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Íhlutunarheimildir geta einnig náð til tiltekinnar fjármálastarfsemi eða framkvæmdar á fjármálamarkaði.

Afleiddar gerðir

Yfirlit yfir afleiddar gerðir MiFID II og MiFIR er að finna á vefsíðu framkvæmdastjórnar ESB, en um er að ræða reglugerðartæknistaðla (Regulatory Technical Standards), innleiðingartæknistaðla (Implementing Technical Standards) og framseldar gerðir Framkvæmdastjórnarinnar (delegated acts).

Afleiddar gerðir MiFID II: https://ec.europa.eu/info/sites/info/files/mifid2-level-2-measures-full_en.pdf

Afleiddar gerðir MiFIR: https://ec.europa.eu/info/sites/info/files/mifir-level-2-measures-full_en.pdf

Skýrsla um nýmæli í nýrri Evrópulöggjöf um markaði fyrir fjármálagerninga

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út skýrslu sem unnin var af innleiðingarnefnd MiFID II og MiFIR um helstu breytingar sem löggjöfin hefur í för með sér. Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins á sæti í nefndinni ásamt fulltrúum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og Kauphöll Íslands. https://www.fjarmalaraduneyti.is/media/frettatengt2016/MiFID-II-skyrsla.pdf

Glærukynningar frá MiFID II / MiFIR kynningarfundi 13. febrúar 2019

Fjármálaeftirlitið hélt, hinn 13. febrúar 2019, kynningarfund á völdum atriðum úr MiFID II og MiFIR.

1 – Gagnsæi og innmiðlun
2 – Hvatagreiðslur
3 – Upplýsingagjöf um kostnað og gjöld
4 – Mat á hæfi og tilhlýðileika
5 – Product Governance
6 – Þekking og hæfni

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica