Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki fjallar um ágreining viðskiptamanna við lánastofnanir (t.d. viðskiptabanka eða sparisjóð og lífeyrissjóði), verðbréfafyrirtæki, eða dótturfyrirtæki þessara fjármálafyrirtækja. Einnig fjallar nefndin um ágreining um yfirfærslur á milli viðskiptareikninga milli landa.

Heimilisfang er Guðrúnartún 1, 105 Reykjavík. Tölvupóstur: fjarmal@nefndir.is Sími úrskurðarnefndarinnar er: 578-6500Síminn er opinn þriðjudaga kl. 10-11 og fimmtudaga kl. 14-15.

Samþykktir úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki

Hverjir geta leitað til nefndarinnar?

Viðskiptamenn sem eru í samningssambandi við viðkomandi fjármálafyrirtæki geta snúið sér til nefndarinnar. Fjármálafyrirtæki eiga að kynna viðskiptamönnum með tryggilegum hætti möguleika þeirra á að skjóta málum til nefndarinnar. Það eru viðskiptamenn hverju sinni sem hafa val um það hvort þeir leiti til nefndarinnar, þeir þurfa m.ö.o. ekki samþykki fjármálafyrirtækis fyrir málskoti.

Athygli er vakin á því að áður en málskotsaðili getur leitað til nefndarinnar skal hann hafa lagt kröfur sínar fyrir hlutaðeigandi lánastofnun. Bregðist hún ekki við skriflegri kröfu málskotsaðila innan fjögurra vikna frá móttöku hennar er málskotsaðila heimilt að leita með málið beint til úrskurðarnefndar.

Málskotsaðili getur á hvaða stigi sem er dregið mál til baka, en fær þá ekki málskotsgjald endurgreitt nema málið sé afgreitt hjá viðkomandi lánastofnun á grundvelli krafna hans. Málskotsgjald er ekki heldur endurgreitt í þeim tilvikum sem máli er vísað frá nefndinni á grundvelli 6. gr. samþykktanna.

Málskot og fylgiskjöl þess skulu vera á íslensku. Óski málskotsaðili eftir að fá að skjóta máli til nefndarinnar á öðru tungumáli en íslensku er það háð samþykki nefndarinnar.

Hvernig á að óska eftir úrskurði?

Fylla þarf út sérstakt eyðublað sem er aðgengilegt hér.

Eyðublaðið þarf að fylla út og senda í tölvupósti á fjarmal@nefndir.is .

Málskotsaðili greiðir eftirfarandi málskotsgjald um leið og málskot berst úrskurðarnefnd:a. einstaklingur utan atvinnurekstrar, kr. 10.000b. einstaklingur í atvinnurekstri, kr. 25.000c. lögaðili, kr. 50.000

Nauðsynlegt er að setja kvittun fyrir greiðslunni með málskotinu. Gjaldið fæst endurgreitt falli mál að hluta til eða öllu leyti málskotsaðila í vil.

Upplýsingar um kennitölu og reikningsnúmer vegna málskotsgjaldsins:

Reikningsnúmer: 0370-26-030321
Kennitala: 450122-0250

Hvernig vinnur nefndin?

Eftir móttöku kvörtunar sendir nefndin gögn sem kvörtuninni fylgja til viðkomandi fjármálafyrirtækis

Hafi fjármálafyrirtæki ekki sent mótmæli eða athugasemdir til nefndarinnar innan fjögurra vikna frá móttöku kvörtunar má afgreiða málið á grundvelli framlagðra gagna nema nefndin samþykki beiðni fjármálafyrirtækis um lengri frest.

 

Kvörtun má draga til baka á hvaða stigi sem er. Málið fellur niður ef fjármálafyrirtæki og viðskiptamaður ná samkomulagi um lausn þess.

Nefndin tekur ákvörðun um hvaða gagna þurfi að afla áður en úrskurður verður felldur.

Niðurstaða nefndarinnar skal send aðilum með staðfestum hætti innan 10 daga frá því úrskurður er kveðinn upp. Viðskiptamaður skal um leið upplýstur um, að hann geti lagt málið fyrir dómstóla eða aðra aðila sé um það að ræða. Almennt skal veita 4 vikur frá útsendingu til að fullnægja úrskurði.

Nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls og skal víkja sæti eigi vanhæfisreglur 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við um hann. Nefndarmaður getur ávallt sagt sig frá máli telji hann sig vanhæfan.

Takmörk eru sett fyrir heimild til endurupptöku mála sem undirstrika mikilvægi þess að vandað sé til málskots hverju sinni. Samkvæmt samþykktum nefndarinnar getur nefndin tekið ákvörðun um að mál sem úrskurðað hefur verið í af nefndinni skuli tekið fyrir aftur ef fram koma nýjar upplýsingar sem eru þess eðlis að hefðu þær legið fyrir við uppkvaðningu úrskurðar gætu þær hafa leitt til annarrar niðurstöðu.

Úrskurður nefndarinnar hindrar ekki umfjöllun dómstóla síðar.

Hverjir standa að nefndinni og skipa hana?

 Í nefndinni sitja fimm nefndarmenn sem skulu vera lögráða, hafa óflekkað mannorð og ætíð hafa haft forræði bús síns. Formaður og varaformaður skulu auk þess uppfylla hæfisskilyrði héraðsdómara. Skulu tveir nefndarmenn skipaðir sameiginlega af fjármálafyrirtækjum sem aðild eiga að nefndinni, tveir af Neytendasamtökunum og einn af fjármála- og efnahagsráðherra sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Varamenn eru skipaðir með sama hætti og skulu uppfylla sömu hæfisskilyrði. Varamaður formanns er formaður í forföllum hans.

 

  • Auður Inga Ingvarsdóttir, formaður, skipuð af fjármála- og efnahagsráðuneyti. Yfirlögfræðingur hjá Mílu ehf.
  • Hjörleifur Gíslason, varaformaður, skipaður af fjármála- og efnahagsráðuneyti. Sérfræðingur hjá ráðuneytinu.
  • Jóhann Tómas Sigurðsson lögm. nefndarmaður skipaður af Neytendasamtökunum. Lögmaður á lögmannsstofu.
  • Hildigunnur Hafsteinsdóttir, nefndarmaður, skipuð af Neytendasamtökunum. Lögfræðingur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
  • Einar Bjarni Einarsson, varamaður skipaður af Neytendasamtökunum. Lögfræðingur hjá Neytendasamtökunum.
  • Magnús Fannar Sigurhansson, nefndarmaður, skipaður af Samtökum fjármálafyrirtækja. Lögfræðingur hjá Íslandsbanka hf.
  • Fura Sóley Hjálmarsdóttur, nefndarmaður, skipuð af Samtökum fjármálafyrirtækja. Lögfræðingur hjá Arion banka hf.
  • Hrannar Jónsson, varamaður, skipaður af Samtökum fjármálafyrirtækja. Lögfræðingur hjá Landsbankanum hf.
  • Ágúst Bragi Björnsson, skipaður af Samtökum fjármálafyrirtækja. Lögfræðingur hjá Kviku banka hf.

Samantekt úrskurða

Samantekt úrskurða 2001
Samantekt úrskurða 2002
Samantekt úrskurða 2003
Samantekt úrskurða 2004
Samantekt úrskurða 2005
Samantekt úrskurða 2006
Samantekt úrskurða 2007
Samantekt úrskurða 2008
Samantekt úrskurða 2009
Samantekt úrskurða 2010
Samantekt úrskurða 2011
Samantekt úrskurða 2012
Samantekt úrskurða 2013
Samantekt úrskurða 2014
Samantekt úrskurða 2015
Samantekt úrskurða 2016
Samantekt úrskurða 2017
Samantekt úrskurða 2018
Samantekt úrskurða 2019
Samantekt úrskurða 2020
Samantekt úrskurða 2021
Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica