Eftirlit með aðilum á verðbréfamarkaði
Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með aðilum á verðbréfamarkaði, svo sem kauphöllum og verðbréfamiðstöðvum. Starfsemi þessara aðila er m.a. ætlað að tryggja að viðskipti á verðbréfamarkaði gangi hratt og örugglega sem og að tryggja skráningu eignarréttinda. Þessir aðilar eru mikilvægir og því er nauðsynlegt að eftirlit með þeim sé öflugt og skilvirkt. Þá felst eftirlit með verðbréfamörkuðum jafnframt í eftirliti með verðbréfastarfsemi fjármálafyrirtækja, sem veita ýmsa þjónustu til viðskiptavina á verðbréfamarkaði, og framkvæmd viðskipta.
Skipulegur markaður
Aðilar sem hafa starfsleyfi sem rekstraraðilar markaða (kauphallir) geta einir rekið skipulegan markað en á Íslandi er einn slíkur markaður starfræktur af Kauphöll Íslands (aðalmarkaður Kauphallarinnar). Þá geta rekstraraðilar markaða og verðbréfafyrirtæki rekið markaðstorg fjármálagerninga (MTF) og skipulegt markaðstorg (OTF). Saman falla skipulegir markaðir, MTF og OTF undir hugtakið viðskiptavettvangur en um rekstur viðskiptavettvangs gilda lög um markaði fyrir fjármálagerninga nr. 115/2021 (mffl.).
Markaðstorg fjármálagerninga (MTF)
Á Íslandi er eitt MTF starfrækt af Kauphöll Íslands en markaðstorgið First North Iceland hefur hlotið skráningu sem vaxtarmarkaður lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Almennt eru kröfur til útgefenda á MTF minni en á skipulegum markaði. Skráning slíkra markaða sem vaxtarmarkaðs lítilla og meðalstórra fyrirtækja kallar á enn frekari tilslakanir á kröfum sem gerðar eru til útgefenda og er tilgangurinn með því að auðvelda skráningar fyrir smærri útgefendur. Til viðbótar við hefðbundið eftirlit með Kauphöll Íslands á Seðlabanki Íslands sæti í norrænum eftirlitshópi vegna starfsemi kauphalla sem Nasdaq rekur á Norðurlöndunum.
Verðbréfamiðstöðvar
Um starfsemi verðbréfamiðstöðva gilda lög nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignaskráningu fjármálagerninga. Í lögunum er m.a. fjallað um hverjir hafa rétt til þess að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð, skráningarstarfsemi, uppgjör verðbréfa og réttaráhrif skráningar o.fl.
Verðbréfamiðstöðvar á Íslandi
Tvær verðbréfamiðstöðvar eru með starfsemi á Íslandi:
- Verðbréfamiðstöð Íslands sem starfar undir eftirliti Seðlabankans
- Nasdaq verðbréfamiðstöð sem er útibú frá Nasdaq CSD SE í Lettlandi
Eftirlit með viðskiptum á verðbréfamarkaði
Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með viðskiptum á verðbréfamarkaði, m.a. með notkun rafræns eftirlitskerfis. Kerfið vinnur með sjálfvirkum hætti úr gögnum sem eftirlitsskyldir aðilar senda bankanum um viðskipti og tilboð.
Tilkynningar um grunsamleg viðskipti
Þá hvíla þær skyldur á eftirlitsskyldum aðilum sem sinna þjónustu í verðbréfaviðskiptum og aðilum á verðbréfamarkaði að þeir fylgist með hegðun á markaðnum og tilkynni Seðlabankanum ef grunur vaknar um óeðlilega hegðun eða viðskipti.
Samstarf við Kauphöll Íslands
Seðlabankinn og Kauphöll Íslands eiga í nánu samstarfi um eftirlit með markaði. Á Kauphöllinni hvíla ríkar lagaskyldur um eftirlit með mörkuðum sem hún starfrækir, s.s. eftirlit með markaðssvikum (innherjasvikum og markaðsmisnotkun) og upplýsingaskyldu útgefenda en Kauphöllin rekur rafrænt eftirlitskerfi með viðskiptum sem á að tryggja eðlilega verðmyndun á markaði og að markaðsaðilar starfi eftir lögum og reglum.