Eftirlit með mörkuðum

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi kauphalla, skipulagðra verðbréfamarkaða, markaðstorga fjármálagerninga og verðbréfamiðstöðva í samræmi við 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998.

Starfsemi fyrrgreindra aðila er ætlað að tryggja að viðskipti á verðbréfamarkaði gangi hratt og örugglega fyrir sig sem og að tryggja skráningu eignarréttinda. Um er að ræða kerfislega mikilvægar stofnanir og er því mikilvægt að eftirlit með þeim sé öflugt og skilvirkt. Um starfsemi kauphalla og skipulagðra verðbréfamarkaða gilda lög um kauphallir nr. 110/2007.

Í lögunum er m.a. fjallað um þau skilyrði sem kauphöll þarf að uppfylla til að geta rekið skipulagðan verðbréfamarkað, reglur um aðild að skipulegum verðbréfamarkaði, eftirlitskerfi, töku fjármálagerninga til og úr viðskiptum, gagnsæi, eftirlit o.fl. Fjármálaeftirlitið hefur náið samstarf við fjármálaeftirlit Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands vegna eftirlits með Kauphöllinni en þar starfa einnig NASDAQ OMX kauphallir.  

Um starfsemi markaðstorga fjármálagerninga (MTF) er fjallað í IV. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. MTF eru marghliða viðskiptakerfi sem starfrækt eru af fjármálafyrirtæki eða kauphöll sem leiða saman kaupendur og seljendur fjármálagerninga. Minni kröfur eru gerðar til útgefenda sem eru með verðbréf skráð á MTF en þeirra sem eru með verðbréf skráð á skipulagðan verðbréfamarkað. Sem dæmi má nefna að taka verðbréfa til viðskipta á MTF er ekki háð útgáfu lýsingar eins og þegar um skráningu á skipulagðan verðbréfamarkað er að ræða. Eitt MTF starfar á Íslandi en það er First North sem Kauphöllin rekur. 

Um starfsemi verðbréfamiðstöðva, rafræna skráningu eignarréttinda og uppgjör verðbréfa er fjallað í lögum um rafræna eignarskráningu nr. 131/1997 og reglugerð um rafræna eignarskráningu verðbréfa í verðbréfamiðstöð nr. 397/2000. Í lögunum er m.a. fjallað um hverjir hafa rétt til þess að hafa milligöngu um eignarskráningar í verðbréfamiðstöð, skráningarstarfsemi, uppgjör verðbréfa og réttaráhrif skráningar o.fl. Ein verðbréfamiðstöð starfar á Íslandi en það er Verðbréfaskráning Íslands hf.

Eftirlit með viðskiptum á verðbréfamarkaði

NASDAQ OMX Iceland hf. (Kauphöllin) rekur rafrænt eftirlitskerfi með viðskiptum sem á að tryggja eðlilega verðmyndun á markaði og að markaðsaðilar starfi eftir lögum og reglum. Fjármálaeftirlitið og Kauphöllin eiga í nánu samstarfi um eftirlit með markaði. Fjármálaeftirlitið hefur þannig falið Kauphöllinni ákveðin eftirlitsverkefni, s.s. eftirlit með markaðssvikum (innherjasvikum og markaðsmisnotkun) og upplýsingaskyldu útgefenda.

Markaðsmisnotkun

Með markaðsmisnotkun er átt við að:

 • eiga viðskipti eða gera tilboð sem:
 1. gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, eða
 2. tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleiri fjármálagerningum, nema aðilinn sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði,
 • eiga viðskipti eða gera tilboð sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem notuð eru einhver form blekkingar eða sýndarmennsku,
 • dreifa upplýsingum, fréttum eða orðrómi sem gefa eða eru líkleg til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga, enda hafi sá sem dreifði upplýsingunum vitað eða mátt vita að upplýsingarnar voru rangar eða misvísandi. Þegar fjölmiðlamenn miðla slíkum upplýsingum í krafti starfs síns ber að meta upplýsingamiðlunina með hliðsjón af reglum um starfsgrein þeirra, svo fremi þessir aðilar hljóti hvorki ávinning né hagnist af miðlun viðkomandi upplýsinga með beinum eða óbeinum hætti.

Athygli er vakin á því að fjármálafyrirtæki sem heimild hefur til verðbréfaviðskipta er óheimilt að hafa milligöngu um verðbréfaviðskipti hafi starfsmenn þess vitneskju eða grun um að um markaðsmisnotkun sé að ræða. Vakni grunur hjá starfsmanni fjármálafyrirtækis um markaðsmisnotkun skal hann þegar í stað tilkynna það til næsta yfirmanns eða regluvarðar. Viðkomandi fyrirtæki er skylt að tilkynna slíkan grun þegar í stað til Fjármálaeftirlitsins en starfsmanni er það einnig heimilt. Upplýsingagjöf fjármálafyrirtækis eða starfsmanns þess sem veitt er í góðri trú samkvæmt þessari málsgrein telst ekki brot á þagnarskyldu sem viðkomandi er bundinn af samkvæmt lögum eða með öðrum hætti. Slík upplýsingagjöf leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi aðilum. Óheimilt er að upplýsa viðskiptamann eða annan utanaðkomandi aðila um að Fjármálaeftirlitinu hafi verið veittar upplýsingar um hugsanlega markaðsmisnotkun.

Innherjasvik

Innherjasvik eru ólögmæt viðskipti innherja.  Innherja er óheimilt að:

 • afla eða ráðstafa fjármálagerningum með beinum eða óbeinum hætti, fyrir eigin reikning eða annarra, búi hann yfir innherjaupplýsingum,
 • láta þriðja aðila innherjaupplýsingar í té, nema það sé gert í eðlilegu sambandi við starf, stöðu eða skyldur þess sem upplýsingarnar veitir,
 • ráðleggja þriðja aðila á grundvelli innherjaupplýsinga að afla fjármálagerninga eða ráðstafa þeim eða hvetja að öðru leyti til viðskipta með fjármálagerningana.

 

 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica