Fjármálaeftirlitsnefnd

Fjármálaeftirlit

Eitt meginhlutverka Seðlabanka Íslands er að stuðla að stöðugu, öruggu og virku fjármálakerfi. Fjármálaeftirlit Seðlabankans fylgist með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli og að hún sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti.

Fjármálaeftirlitsnefnd

Ákvarðanir sem faldar eru fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum skulu teknar af fjármálaeftirlitsnefnd. Nefndin getur framselt til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits vald sitt til töku ákvarðana sem ekki teljast meiri háttar.

Í fjármálaeftirlitsnefnd sitja varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og þrír sérfræðingar í málefnum fjármálamarkaðar sem ráðherra sem fer með málefni fjármálamarkaðar skipar til fimm ára í senn. Samsetning fjármálaeftirlitsnefndar skal vera þannig að nefndin búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að vinna þau verkefni sem nefndinni eru falin. Ráðherra getur aðeins skipað sama mann í fjármálaeftirlitsnefnd tvisvar sinnum. Varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits er formaður fjármálaeftirlitsnefndar og er varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika staðgengill hans. Við töku ákvarðana um setningu starfsreglna fjármálaeftirlitsnefndar, ákvarðana um framsal valds til varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits til töku ákvarðana sem teljast ekki meiri háttar ákvarðanir sem og ákvarðana sem varða eigið fé, laust fé og fjármögnun kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja tekur seðlabankastjóri sæti í fjármálaeftirlitsnefnd sem formaður nefndarinnar og er þá varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits staðgengill hans.

Fundir fjármálaeftirlitsnefndar

Fjármálaeftirlitsnefnd er ályktunarhæf ef fjórir nefndarmenn sitja fund nefndarinnar. Ákvarðanir fjármálaeftirlitsnefndar skulu teknar með einföldum meirihluta, en falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

Fjármálaeftirlitsnefnd skal halda fundi að jafnaði tíu sinnum á ári. Auk þess getur fjármálaeftirlitsnefnd haldið fund ef formaður ákveður eða þrír nefndarmenn krefjast þess. Fjármálaeftirlitsnefnd setur sér starfsreglur, m.a. um undirbúning, rökstuðning og birtingu ákvarðana sinna. Fjármálaeftirlitsnefnd skal halda fundargerðir. Fjármálaeftirlitsnefnd er heimilt að birta opinberlega ákvarðanir sínar. Þó skal ekki birta ákvörðun verði hún talin stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu, varði hún ekki hagsmuni markaðarins sem slíks eða ef ætla má að birting hennar valdi hlutaðeigandi aðilum tjóni sem telst ekki í samræmi við tilefni ákvörðunarinnar.

Fjármálaeftirlitsnefnd skal skila Alþingi skýrslu um störf sín einu sinni á ári. Skýrsluna skal ræða í þeirri þingnefnd sem þingforseti ákveður.

Í fjármálaeftirlitsnefnd eru Unnur Gunnarsdóttir, sem er formaður, Gunnar Jakobsson, Ásta Þórarinsdóttir, Guðrún Þorleifsdóttir og Gunnar Þór Pétursson. Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri tekur sæti í fjármálaeftirlitsnefnd sem formaður nefndarinnar þegar ákvarðanir, sem eru nánar tilteknar í 2. mgr. 15. gr. laga um Seðlabanka Íslands, eru teknar.

Starfsreglur fjármálaeftirlitsnefndar

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica