Þjálfun starfsmanna

Þjálfun starfsmanna er eitt af lykilatriðum í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og hluti af virku innra eftirliti tilkynningarskyldra aðila. Tilkynningarskyldir aðilar skulu sjá til þess að starfsmenn þeirra, þar á meðal umboðsmenn, dreifingaraðilar og starfsmenn útibúa, hljóti sérstaka þjálfun í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og öðlist viðeigandi þekkingu á ákvæðum laga nr. 140/2018, reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra.

Tíðni þjálfunar

Þjálfunin skal fara fram við upphaf starfs og reglulega á starfstímanum til að tryggja að starfsmenn þekki skyldur tilkynningarskyldra aðila samkvæmt lögum nr. 140/2018, þar á meðal um áreiðanleikakönnun viðskiptamanna og tilkynningarskyldu, ásamt því sem þeir fái upplýsingar um þróun innan málaflokksins og nýjustu aðferðir við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Miðað er við að almenn þjálfun þurfi að fara fram að lágmarki einu sinni á ári og eftir atvikum einnig við sérstakar aðstæður, t.d. ef breytingar eru gerðar á regluverki, áhættumati eða aðferðum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það fer síðan eftir áhættu, eðli og stærð tilkynningarskylda aðilans hvort þörf er á sértækari þjálfun fyrir tiltekna starfsmenn oftar en einu sinni á ári.

Æskilegt er að fyrir hendi sé áætlun um hvernig þjálfun verði háttað. Í slíkri áætlun ætti að koma fram mat á þörf og tíðni þjálfunar, t.d. eftir starfssviðum, einstökum rekstrareiningum, tegundum viðskiptamanna eða verkefnum.

Hvað þurfa starfsmenn að kunna?

Að lágmarki þurfa starfsmenn að kunna skil á:

  • lögum, reglugerðum, reglum og eftir atvikum leiðbeinandi tilmælum um málaflokkinn, m.a. hvað varðar skyldur til að framkvæma áhættumat og áreiðanleikakönnun á grundvelli áhættumats, hvernig sinna á reglubundnu eftirliti (sérstaklega hvað varðar grunsamleg viðskipti) og tilkynningum til ábyrgðarmanns og skrifstofu fjármálagreininga lögreglu,
  • hvaða afleiðingar það getur haft fyrir tilkynningarskyldan aðila, starfsmenn hans og viðskiptamann ef reglur á þessu sviði eru ekki virtar,
  • helstu hættum og nýjustu aðferðum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Gagnlegir tenglar

 

Til baka

Aðgerðir tilkynningarskyldra aðila

Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að grípa til fyrirbyggjandi og áhættumiðaðra aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra sé misnotuð til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Þetta er meðal annars gert með því að framkvæma áhættumat, móta stefnu og verklag, þjálfa starfsmenn, kanna áreiðanleika viðskiptamanna, áhættuflokka viðskiptamenn, viðhafa reglubundið eftirlit með þeim og rannsaka og tilkynna grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Smelltu á mynd til að vita meira.

Áhættumat á starfsemi Stefna, stýringar og verkferlar Þjálfun starfsmanna Áreiðanleikakönnun Áhættumat á samningssamböndum og einstökum viðskiptum Reglubundið eftirlit Rannsóknar- og tilkynningarskylda




Þetta vefsvæði byggir á Eplica