Eftirlit með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Á Íslandi tóku gildi ný lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með lögum nr. 140/2018. Lögin eru innleiðing á fjórðu Evróputilskipun 2015/849/EB og hluta af fimmtu Evróputilskipun 2018/843/EB í íslenskan rétt.

Um eftirlitið fer eftir lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og þeim sérlögum sem um starfsemi eftirlitsskyldra aðila gilda, þ.m.t. framangreindum lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Um viðurlög við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka gilda almenn hegningarlög nr. 19/1940.

Þeir aðilar sem falla undir löggjöfina eru kallaðir tilkynningarskyldir aðilar þar sem þeim er skylt að tilkynna, án tafar, alla vitneskju eða grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka í starfsemi sinni til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.

Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að hafa eftirlit með þessum aðilum og tryggja að þeir að framfylgi ákvæðum framangreindra laga.

Hafi tilkynningarskyldur aðili vitneskju eða grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal hann senda tilkynningu til skrifstofu fjármálagreiningu lögreglu.

Markmið laga nr. 140/2018 er að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með því að skylda aðila sem stunda starfsemi er kann að verða notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka til að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum og starfsemi þeirra og tilkynna um það til lögbærra yfirvalda vakni grunur um eða verði þeir varir við slíka ólögmæta starfsemi.

Hvers vegna eru aðgerðir gegn peningaþvætti mikilvægar?

 • Umfang peningaþvættis í heiminum fer sívaxandi og áætlað er að árleg velta peningaþvættis sé um 2-5 % af vergri þjóðarframleiðslu heimsins.
 • Peningaþvætti hefur neikvæð áhrif á fjármálakerfi samfélagsins, heftir frjálsa samkeppni og hindrar að markaðsöflin fái að njóta sín.
 • Það hindrar efnahagslega og félagslega framþróun og grefur undan fjármálastöðugleika.
 • Veikt eftirlit með peningaþvætti hefur skaðleg áhrif á orðspor íslensks fjármálakerfis og viðskiptalífs.
 • Peningaþvætti er aðalforsenda þess að skipulögð afbrotastarfsemi þrífst innan samfélags og yfir landamæri.
 • Það er mikilvægt að ríki sé með traust og sýnilegt eftirlit og sjái til þess að tilkynningarskyldir aðilar séu með viðeigandi eftirlitskerfi í starfsemi sinni. Slíkur sýnileiki fælir afbrotamenn frá því að herja á fjármálakerfi viðkomandi ríkis.
 • Hröð framþróun nýrrar tækni í fjármálum gerir peningaþvætti sífellt auðveldara ef ekki er reynt að mæta þeirri þróun og setja upp varnir.

Að framangreindu virtu er brýnt að Ísland sé virkur þátttakandi í að koma í veg fyrir að fjármálakerfi þess sé notað í peningaþvætti.

Hvernig geta tilkynningarskyldir aðilar komið í veg fyrir peningaþvætti?

Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og taka upp áhættumiðað eftirlit vegna hættu á peningaþvætti. Þetta er gert meðal annars með því að:

 • Tryggja að þeir búi yfir fullnægjandi upplýsingum um viðskiptamenn sína, viti deili á þeim og sannreyni upplýsingar um þá.
 • Uppfæra upplýsingarnar reglulega.
 • Móta stefnu og verkferla um eftirlit með peningaþvætti.
 • Þjálfa og upplýsa starfsmenn sína um peningaþvætti og efla vitund um málaflokkinn innan starfseminnar.
 • Rannsaka og greina grunsamleg viðskipti, kanna bakgrunn og tilgang þeirra.
 • Tilkynna vitneskju og grun um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka til Skrifstofu fjármálagreininga lögreglu. Þetta felur einnig í sér að forðast viðskiptin þegar vitneskja eða grunur liggur fyrir.

Ef viðskiptamaður veitir ekki upplýsingar sem krafist er samkvæmt lögum, ber hinum tilkynningarskylda aðila að binda enda á viðskiptasambandið.

Tilkynningarskyldir aðilar

Listi yfir tilkynningarskylda aðila

Tilkynningarskyldir aðilar eru taldir upp í 2. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með eftirtöldum tilkynningarskyldum aðilum:

 • Fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
 • Líftryggingafélög samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi.
 • Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn samkvæmt lögum um miðlun vátrygginga þegar þeir miðla líftryggingum eða öðrum áhættu- og söfnunartengdum líftryggingum.
 • Greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.
 • Rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris.
 • Útibú erlendra fyrirtækja sem staðsett eru á Íslandi og falla undir a–e lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 140/2018.
 • Umboðs- og dreifingaraðilar fyrirtækja og samsvarandi erlendra fyrirtækja með starfsemi hér á landi sem falla undir a-e. lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 140/2018.
 • Lífeyrissjóðir samkvæmt skilgreiningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
 • Gjaldeyrisskiptastöðvar að undanskildum þeim aðilum sem uppfylla öll eftirfarandi skilyrði:
  • gjaldeyrisskipti eru hliðarstarfsemi sem tengist með beinum hætti meginstarfsemi aðilans og aðeins veitt viðskiptavinum aðilans,
  • heildarvelta af gjaldeyrisskiptum nemur minna en 5 milljónum króna á ári, og
  • gjaldeyrisskipti fyrir einstakan viðskiptavin fara ekki yfir 100.000 krónur, hvort sem viðskiptin fara fram í einni færslu eða fleiri sem virðast tengjast hver annarri.
 • Þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla.
 • Þjónustuveitendur stafrænna veskja, sbr. skilgreiningu í 3. gr laga nr. 140/2018.

Stofnanir, samtök og alþjóðlegt samstarf

Íslenskar stofnanir og samtök

Alþjóðlegt samstarf

Financial Action Task Force (F A T F )

FATF er alþjóðlegur framkvæmdahópur sem vinnur að aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í heiminum. Með örri heimsþróun í viðskiptum og fjármagnsflæði milli ríkja, hefur þörfin fyrir alþjóðlegt samstarf og samræmingu á þessu sviði aldrei verið meiri. Ísland gerðist aðili að FATF árið 1991 og með inngöngu skuldbatt Ísland sig til samræma löggjöf og starfsreglur að tillögum stofnunarinnar. Starf og tilmæli FATF hefur verið leiðandi á heimsvísu og hafa tilskipanir Evrópusambandsins um peningaþvætti verið í samræmi við tilmælin.

FATF semur staðla fyrir aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Leggur mat á aðgerðir ríkja til að innleiða þessa staðla og rannsakar og lærir að þekkja aðferðir þeirra sem stunda peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Lög, reglur og starfsaðferðir hvers aðildarríkis FATF eru teknar út og skrifaðar eru skýrslur um aðgerðir þeirra. Árið 2017 gerði stofnunin úttekt á eftirliti með peningaþvætti á Íslandi og var meginniðurstaða skýrslunnar sem gefin var út árið 2018 að því væri verulega ábótavant. Frá því að skýrslan kom út hefur verið unnið að úrbótum til að bregðast við niðurstöðu FATF. Á meðal þeirra aðgerða er innleiðing nýrrar löggjafar (í samræmi við fjórðu Evróputilskipun2015/849/EB), breytt eftirlitshlutverk, aukin fræðsla og almenn vitundarvakning á þessum málaflokk.

 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica