Fréttir


Sjálfsmat stjórna

5.3.2018

Á árinu 2017 óskaði Fjármálaeftirlitið eftir því að stjórnir tiltekinna banka, sparisjóða, vátryggingafélaga, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs gerðu sjálfsmat í því skyni að leggja mat á hvort stjórn eftirlitsskylda aðilans væri þannig samsett að hún byggi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu til að skilja þá starfsemi sem eftirlitsskyldi aðilinn stundaði, þ.m.t. helstu áhættuþætti.

Helsti tilgangur sjálfsmatsins var að fá stjórnir eftirlitsskyldra aðila til að horfa með gagnrýnum augum á samsetningu stjórnarinnar með hliðsjón af þekkingu, hæfni og reynslu einstakra stjórnarmanna. Niðurstöðu sjálfsmatsins gætu stjórnir helst nýtt með tvennum hætti,  til að kortleggja þá þætti sem nauðsynlegt er að stjórn eftirlitsskylda aðilans hafi í heild sinni og jafnframt til að koma auga á möguleg úrbótatækifæri. Í því samhengi má benda á að í lögum um fjármálafyrirtæki og í reglugerð um vátryggingastarfsemi er gerð sú krafa að fyrirtæki verji fullnægjandi fjármunum og mannafla til að kynna starfsemi fyrirtækisins fyrir stjórnarmanni og tryggja að hann hljóti viðeigandi þjálfun til stjórnarsetunnar. Þá hafði sjálfsmatið þann tilgang að veita Fjármálaeftirlitinu nauðsynlegt yfirlit yfir heildarþekkingu, hæfni og reynslu stjórna eftirlitsskyldra aðila.

Í lögum, reglugerðum og leiðbeiningum um góða stjórnarhætti er gerð sú krafa að stjórnir eftirlitsskyldra aðila búi sameiginlega yfir fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu. Er því mikilvægt að stjórnir meti framangreint með reglubundnum hætti, þar með talið þegar breytingar verða á stjórn. Fjármálaeftirlitið hyggst því reglulega kalla eftir niðurstöðum slíks sjálfsmats frá eftirlitsskyldum aðilum. Til að auðvelda stjórnum eftirlitsskyldra aðila að framkvæma sjálfsmöt hefur Fjármálaeftirlitið útbúið form að sjálfsmati sem byggð eru á formi frá Evrópska bankaeftirlitinu (EBA). Framangreind form hafa verið birt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica