Fréttir


Útganga Bretlands úr ESB án samnings: Upplýsingar til fyrirtækja á fjármálamarkaði

26.2.2019

Talsverð óvissa er uppi um fyrirkomulag útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB). Ekki er því hægt að útiloka útgöngu Bretlands úr ESB án samnings. Af þessum sökum hafa íslensk stjórnvöld sett upp sérstaka upplýsingasíðu. Allir þeir sem eiga í viðskiptum eða öðrum samskiptum við Bretland eru hvattir til að kynna sér efni síðunnar.

Frá og með þeim degi sem Bretland gengur úr ESB án samnings verður landið að óbreyttu skilgreint sem þriðja ríki, þ.e. ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) á grundvelli Evrópulöggjafar á fjármálamarkaði, í samskiptum við Ísland og önnur ríki innan EES. Áhrif þess á bresk og íslensk fjármálafyrirtæki munu, eðli málsins samkvæmt, fara eftir starfsemi fyrirtækja í hverju tilviki fyrir sig.

Á upplýsingasíðu stjórnvalda vegna útgöngu Bretlands án samnings er sérstaklega fjallað um fjármálaþjónustu og þau áhrif sem búist er við að útganga án samnings hafi á hana. Til viðbótar við þær upplýsingar sem þar koma fram vill Fjármálaeftirlitið koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri við fyrirtæki á fjármálamarkaði:

Til fyrirtækja á fjármálamarkaði

Fjármálaeftirlitið vinnur í samstarfi við Evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði, þ.e. Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina (EBA), Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunina (EIOPA) og Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunina (ESMA), að því að safna upplýsingum og greina þær áhættur sem varða neytendur í tengslum við útgöngu Bretlands úr ESB. Nú þegar hafa verið birtar upplýsingar á vefsíðum þessara stofnana, sem snúa að fyrirtækjum á fjármálamarkaði, sem ætlaðar eru til að aðstoða þessi fyrirtæki við að búa sig undir útgöngu Bretlands úr ESB. Hér fyrir neðan má finna helstu upplýsingar er varða samskipti og viðskipti við neytendur á hverjum markaði fyrir sig.

EBA: fjármálafyrirtæki

 

  • EBA birti í júní 2018 álit stofnunarinnar á hvernig fyrirtæki ættu að undirbúa sig fyrir útgöngu Bretlands.
  • Í desember 2018 kallaði EBA eftir frekari aðgerðum frá fyrirtækjum, sem útganga Bretlands úr ESB mun hafa áhrif á, í þá átt að upplýsa viðskiptavini sína á skýran hátt um stöðu mála. Vakin skal athygli á þeim áhættuþáttum sem geta haft áhrif á viðskiptavini sem og veita upplýsingar um ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að koma í veg fyrir að viðskiptasambandið breytist.

 

     Nánari upplýsingar um málið má finna hér.

EIOPA: vátrygginga- og lífeyrismarkaður

 

  • EIOPA birti í desember 2017 álit stofnunarinnar um hvernig tryggja skuli áframhaldandi þjónustu vátryggjenda í tengslum við útgöngu Bretlands úr ESB. Í álitinu eru vátryggingafélög hvött til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja áframhaldandi þjónustu vátryggingasamninga yfir landamæri milli Bretlands og annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu eftir útgöngu Bretlands úr ESB.
  • Í nóvember 2018 kallaði EIOPA eftir frekari aðgerðum til að tryggja áframhaldandi þjónustu í tengslum við vátryggingar yfir landamæri. Þar kemur fram að vátryggðir, með samning við vátryggingafélög frá Bretlandi eða Gíbraltar, ættu að fá upplýsingar frá vátryggingafélögunum um þær aðgerðir sem þau hafa gripið til og hver áhrifin eru á þeirra vátryggingarsamninga og þjónustu.

 

ESMA: verðbréfamarkaður

Þann 19. desember 2018 birti ESMA áminningu til fyrirtækja um að þau ættu að veita viðskiptavinum sínum nákvæmar upplýsingar um hvaða áhrif það getur haft á veitingu þjónustu og réttindi fjárfesta þegar Bretland yfirgefur Evrópusambandið.

Áhrif á starfsleyfi

Gangi Bretland úr ESB án samnings munu bresk fyrirtæki ekki geta starfað lengur í öðrum löndum EES, þar á meðal Íslandi, á grundvelli starfsleyfis sem veitt er í Bretlandi og tilkynninga þaðan til eftirlitsaðila í aðildarríkjunum. Bresk fyrirtæki munu því þurfa að sækja um starfsleyfi í viðkomandi ríki hyggist þau halda áfram starfsemi innan EES. Þetta mun hafa áhrif á starfsemi þessara fyrirtækja hér á landi en áhrifin munu þó verða mismunandi eftir eðli starfseminnar.

Breska viðskiptaháttaeftirlitið (FCA) og seðlabanki Bretlands (Bank of England) hafa sett á laggirnar fyrirkomulag sem nefnist: „Temporary Permissions Regime“. Það heimilar aðilum á fjármálamarkaði innan EES, sem hafa tilkynnt um starfsemi í Bretlandi fyrir 29. mars nk., að stunda tímabundna starfsemi þar að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Umræddir aðilar þurfa að skrá sig hjá framangreindum eftirlitsaðilum fyrir 29. mars nk. og upplýsa um að þeir hyggist sækja um starfsleyfi í Bretlandi. Með þessu verður ekki rof á starfsemi fyrirtækjanna í Bretlandi þar til að umsókn þeirra um starfsleyfi hefur verið afgreidd. Fjármálaeftirlitið hefur ekki milligöngu um framangreindar skráningar en óskar eftir að vera upplýst um þær. Hér að neðan eru frekari upplýsingar um framangreint fyrirkomulag:

 

 

Þá hafa bresk stjórnvöld gefið út leiðbeiningar fyrir fyrirtæki á fjármálamarkaði innan EES sem veita þjónustu í Bretlandi.

Hyggist íslensk fyrirtæki á fjármálamarkaði hefja starfsemi í Bretlandi eftir útgöngu þeirra úr ESB verður það einungis gert með því að sækja um starfsleyfi í Bretlandi. Upplýsa skal Fjármálaeftirlitið um slíkar fyrirætlanir en stofnunin mun ekki lengur annast milligöngu gagnvart breskum eftirlitsaðilum vegna slíkrar starfsemi.

Fjármálaeftirlitið hefur sent íslenskum eftirlitsskyldum aðilum dreifibréf og upplýst þá um framangreint.

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica