Fréttir


Tilmæli fjármálastöðugleikaráðs um beitingu eiginfjárauka

26.1.2016

Fyrsti fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu var haldinn 22. janúar 2016. Eftirfarandi tilmælum var beint til Fjármálaeftirlitsins.

1) Að settur verði 2% eiginfjárauki á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, á samstæðugrunni, frá 1. apríl 2016. Kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki eru Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. eins og skilgreint var á fundi fjármálastöðugleikaráðs 14. apríl 2015.

2) Að settur verði á eiginfjárauki vegna kerfisáhættu sem nemur 3% af áhættuvegnum innlendum eignum á kerfislega mikilvægar innlánsstofnanir, það er Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankann hf., frá 1. apríl 2016. Eiginfjárauki vegna kerfisáhættu á aðrar innlánsstofnanir [1] fari stighækkandi og verði 1% af áhættuvegnum innlendum eignum 1. apríl 2016, 1,5% frá 1. janúar 2017, 2,0% frá 1. janúar 2018 og 3% frá 1. janúar 2019. Eiginfjáraukinn taki til þessara innlánsstofnana á samstæðugrunni.

3) Að settur verði 1% sveiflujöfnunarauki á öll fjármálafyrirtæki á samstæðugrunni, nema þau sem eru undanskilin eiginfjáraukanum skv. 4. mgr. 84. gr. d laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og að hann taki gildi 12 mánuðum frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið mun á næstu vikum bregðast við tilmælum ráðsins.


[1] Kvika banki hf., Sparisjóður Austurlands hf., Sparisjóður Höfðhverfinga ses. Sparisjóður Strandamanna ses. og Sparisjóður Suður-Þingeyinga ses.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica