Fréttir


Tilkynning um óbreyttan eiginfjárauka vegna kerfisáhættu og áframhaldandi eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki

15.5.2018

Fjármálaeftirlitið tilkynnti í dag um óbreyttan eiginfjárauka vegna kerfisáhættu og áframhaldandi eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki í samræmi við tilmæli fjármálastöðugleikaráðs frá 13. apríl 2018.

Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. b laga um fjármálafyrirtæki ber fjármálastöðugleikaráði að endurskoða tilmæli sín um eiginfjárauka vegna kerfisáhættuauka innan tveggja ára frá því að þau komu til framkvæmda. Óverulegar breytingar hafa orðið á ósveiflutengdri kerfisáhættu undanfarin tvö ár enda er eðli áhættunnar tregbreytanlegt. Því hefur fjármálastöðugleikaráð beint tilmælum til Fjármálaeftirlitsins um óbreyttan kerfisáhættuauka. Með vísan til tilmælanna hefur Fjármálaeftirlitið tilkynnt að ákvörðun eftirlitsins frá 1. mars 2016 um eiginfjárauka vegna kerfisáhættu gildir áfram óbreytt. Gildi kerfisáhættuauka er því áfram 3% af innlendum áhættuskuldbindingum fjármálafyrirtækja sem hafa heimild til móttöku innlána. Þó skal gildi aukans fyrir slík fjármálafyrirtæki, sem ekki teljast kerfislega mikilvæg, hækka úr 2% nú í 3% frá 1. janúar 2020, en ekki frá 1. janúar 2019 eins og áður hafði verið ákveðið. Eiginfjáraukanum skal jafnframt áfram viðhaldið á samstæðugrunni.

Árleg endurskoðun á kerfislegu mikilvægi fjármálafyrirtækja leiddi í ljós að Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. teljist kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á Íslandi. Fjármálafyrirtækin þrjú þurfa því að viðhalda áfram 2% eiginfjárauka vegna kerfislegs mikilvægis sem skal viðhaldið á samstæðugrunni og skal hann jafnframt taka til allra áhættuskuldbindinga fjármálafyrirtækjanna.

Hér má finna nánari upplýsingar um eiginfjárauka.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica