Fréttir


Til glöggvunar varðandi vátryggingafélög og svokallaða „bótasjóði“

15.3.2016

Í framhaldi af þeirri umræðu sem hefur verið um vátryggingafélög og bótasjóði þeirra vill Fjármálaeftirlitið koma eftirfarandi atriðum á framfæri.

Hugtakið „bótasjóður“
Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að árétta eftirfarandi varðandi notkun á hugtakinu „bótasjóður“. Í umræðunni hefur verið vísað í yfir 20 ára gömul blaðaviðtöl við þáverandi forstjóra vátryggingafélaga þar sem því er haldið fram að bótasjóður sé „eign“ tjónþola eða vátryggingartaka. Rétt er að taka fram að hugtakið „bótasjóður“ hefur hvorki verið notað í lögum um vátryggingastarfsemi né reikningsskilum vátryggingafélaga eftir 1994, þegar samevrópsk löggjöf um vátryggingastarfsemi var innleidd. Hugtakið „bótasjóður“ var tekið úr lögunum og hugtökin „vátryggingaskuld“  og „eignir til jöfnunar vátryggingaskuldar“ voru kynnt.

Vátryggingaskuld er, eins og nafnið gefur til kynna, á skuldahlið í efnahagsreikningi vátryggingafélaga og er skuldin þannig reiknuð út að hún á að samsvara óuppgerðum heildarskuldbindingum  vegna gerðra samninga um vátryggingar. Hluti af heildareignum vátryggingafélaga eru ætlaðar til að vega á móti vátryggingaskuldinni og eru þær notaðar þegar greiða þarf út tjón. Mat á vátryggingaskuld tekur tillit til áætlaðra tjóna og byggir á upplýsingum um tjónatíðni og kostnað vegna tjóna í fortíðinni. Hingað til hafa lög ekki mælt fyrir um samræmda aðferð við útreikning á vátryggingaskuld og hafa vátryggingafélögin fram til þessa bætt nokkuð háu álagi á vátryggingaskuldina til að tryggja að þau eigi nægar eignir á móti til að greiða út tjón.

Félagaform vátryggingafélaga
Til eru tvö félagaform utan um rekstur vátryggingafélaga, hlutafélög og gagnkvæm félög. Fram til ársins 1989 voru rekin gagnkvæm félög með sterka stöðu á íslenska vátryggingamarkaðnum. Gagnkvæm vátryggingafélög eru rekin á því formi að neytendur eignast hlut í því vátryggingafélagi sem þeir eru í viðskiptum við og bera vátryggingatakar fjárhagslega ábyrgð af rekstri félagsins. Komi upp þær aðstæður að gagnkvæmt félag þurfi aukið fjármagn til að mæta vátryggingaskuldbindingum sínum þurfa vátryggingatakar að leggja það til. Þessi eiginleiki gagnkvæmra félaga hefur valdið því að erfitt hefur verið fyrir þau að safna nauðsynlegu fjármagni þar sem ekki er víst að vátryggingatakar hafi fjárhagslegt bolmagn til þess að styðja við félagið.

Í ljósi þeirrar ábyrgðar sem vátryggingatakar bera á ábyrgð gagnkvæmra félaga, sem og aukinna lögboðinna krafna til fjárhagsgrundvallar vátryggingafélaga, hefur sú þróun átt sér stað í Evrópu að gagnkvæmum félögum hefur fækkað í gegnum samruna og með breytingu yfir í hlutafélagaform. Í dag eru öll íslensk vátryggingafélög rekin á hlutafélagaformi og eru þau fjármögnuð af hluthöfum sem gera ákveðna kröfu um að sú fjármögnun skili ávöxtun. Fari eigið fé félaganna undir tilskilin mörk (svokallað gjaldþolshlutfall) þurfa eigendur að auka við fé inn í félagið. Líkt og með önnur hlutafélög er það því svo að viðskiptavinir vátryggingafélaganna eiga ekki kröfu á þau, nema að þeir hafi lent í tjóni en þá geta þeir lagt inn tjónakröfu á viðkomandi vátryggingafélag.

Tvær stoðir vátryggingastarfsemi
Starfsemi vátryggingafélaga er tvískipt. Annars vegar vátryggingastarfsemi, sem er grunnstarfsemi félaganna, og hins vegar fjárfestingastarfsemi.

Mikilvægt er að vátryggingafélögin leggi áherslu á að vátryggingastarfsemi standi undir sér, þ.e. að innheimt iðgjöld standi undir tjónakostnaði og rekstrarkostnaði vegna starfseminnar. Staða grunnrekstursins endurspeglast í svokölluðu samsettu hlutfalli, en það sýnir hlutfall tjóna- og rekstrarkostnaðar af iðgjöldum vátryggingafélaganna. Ef samsetta hlutfallið er hærra en 100% nægja iðgjöldin ekki fyrir kostnaðinum. Síðastliðin tíu ár hefur samsetta hlutfallið hjá íslenskum vátryggingafélögum verið á bilinu 89% - 127% en það er nokkuð hærra hlutfall en hefur almennt þekkst í nágrannalöndunum.

Líkt og önnur fyrirtæki ávaxta vátryggingafélög m.a. eigið fé sitt á verðbréfamörkuðum en að auki fjárfesta þau greidd iðgjöld. Líkt og sagan hefur sýnt getur verið mikið flökt á verðbréfamörkuðum og því er mikilvægt að vátryggingafélögin reiði sig ekki á að fjárfestingartekjur haldist stöðugar.

Það er á ábyrgð stjórna vátryggingafélaganna að tryggja orðspor félaganna haldist gott, en það gera þau best með því að huga bæði að hagsmunum viðskiptavina og fjárfesta. Þær þurfa að ákvarða með hvaða hætti vátryggingafélögin láta viðskiptavini sína njóta góðs af hagnaði sínum. Þetta á við hvort sem um er að ræða hagnað af vátryggingastarfsemi eða fjárfestingastarfsemi.

Gjaldþol
Í lögum um vátryggingastarfsemi er fjallað um gjaldþol vátryggingafélaga en því er ætlað að mæla fjárhagslegan styrk þeirra. Gjaldþol er samtala viðurkenndra gjaldþolsliða, sem segja má að sé annað nafn yfir eigið fé. Í þessu samhengi má benda á að víkjandi skuldabréf sem uppfylla ákveðin skilyrði geta talist til gjaldþols vátryggingafélaga. Gjaldþolskrafa er fjárhæð sem er reiknuð út frá mælanlegum áhættum félagsins.

Gjaldþolshlutfall vátryggingafélaga er reiknað sem hlutfall gjaldþols og gjaldþolskröfu. Ef gjaldþolshlutfall vátryggingafélags er yfir 1,0 eru gjaldþolsskilyrði laga uppfyllt. Fari þetta hlutfallið undir 1,0 þarf vátryggingafélag að grípa til ráðstafana til þess að koma hlutfallinu upp fyrir 1,0. Slíkar ráðstafanir geta falið í sér aukningu á hlutafé, takmörkun á áhættu, t.d. með i varfærnari fjárfestingarstefnu eða aukinni endurtryggingavernd.  

Nú liggur fyrir frumvarp um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi, byggt á Solvency II tilskipuninni, sem tók gildi 1. janúar 2016 á evrópska efnahagssvæðinu. Í Solvency II eru gerðar strangari fjármagnskröfur gagnvart vátryggingafélagi sem stundar áhættusamari starfsemi.

Íslensk vátryggingafélög hafa markað sér þá stefnu að halda Solvency II gjaldþolshlutfalli sínu á bilinu 1,4 til 1,5. Þetta felur í sér að félögin eru með 40-50% meira fjármagn en Solvency II kveður á um. Evrópsk vátryggingafélög hafa markað sér sambærilega stefnu.

Auknar lögboðnar kröfur
Með tilkomu Solvency II munu lögboðnar kröfur til starfsemi vátryggingafélaga aukast. Í umræðunni hefur komið fram að vátryggingaskuld félaganna lækki með tilkomu Solvency II. Rétt er að breytt mat á vátryggingaskuld veldur því að í einhverjum tilvikum lækkar vátryggingaskuld félaganna, en á sama tíma og vátryggingaskuldin lækkar aukast kröfur til gjaldþols verulega með svokallaðri gjaldþolskröfu (e. Solvency Capital Requirement, SCR). Í töflunni hér á eftir má sjá hvernig lögboðnar kröfur aukast við innleiðingu Solvency II.

 

Núgildandi lög

Solvency II

Breyting

Gjaldþol

34.717

36.808

6,02%

Lágmarksgjaldþol/SCR

9.514

25.809

171,27%

Vátryggingaskuld

69.374

58.991

-14,97%

Eignir samtals

118.029

118.029

0,00%

 

 

 

 

Gjaldþolshlutfall

3,6

1,4

-60,92%

Heildarskuldbinding

78.888

84.800

7,49%

Í hlutfalli af eignum

66,8%

71,8%

7,49%


* Fjárhæðir eru í þús.kr. og byggjast á ársreikningum Sjóvá, TM og VÍS.

Heildarskuldbinding (lágmarksgjaldþol/SCR + vátryggingaskuld) í hlutfalli af heildareignum hækkar úr 66,8% m.v. núgildandi regluverk í 71,8% m.v. kröfur Solvency II. Fyrir einstök félög þýðir þetta að auknar kröfur liggja á bilinu 4,9% - 9,8%.

Þá ber einnig að geta þess að með innleiðingu á Solvency II verða gerðar ríkar kröfur til eftirlits með vátryggingaskuld félaganna, bæði til félaganna sjálfra og til Fjármálaeftirlitsins. Stjórnkerfi (e. system of governance) vátryggingafélags þarf að hafa áhættustýringu, regluvörslu, innri endurskoðun og starfssvið tryggingastærðfræðings. Hlutverk starfssviðs tryggingastærðfræðings er m.a. að sjá um útreikning vátryggingaskuldar, bera saman mat á tjónaskuld við reynslu ásamt því að upplýsa stjórn um hvort vátryggingaskuld sé áreiðanleg og viðeigandi. Þá er starfssviði tryggingastærðfræðings einnig gert að veita álit á áhættutöku vátryggingafélags vegna vátrygginga og meta nægjanleika iðgjalda.

Nánari upplýsingar um breytingar á löggjöf um vátryggingamarkað má finna í Fjármálum vefriti Fjármálaeftirlitsins,

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica