Fréttir


Þrír viðskiptabankar með óháðan umboðsmann viðskiptavina

30.11.2016

Fjármálaeftirlitið hefur aflað upplýsinga um umboðsmenn viðskiptavina hjá Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankanum hf.

Á vefjum  bankanna kemur fram að ef viðskiptavinur telur að úrlausn sinna mála sé ekki í samræmi við gildandi lög eða reglur geti hann leitað til umboðsmanns viðskiptavina. Til að erindi geti farið til umboðsmanns þarf að vera komin niðurstaða í málið hjá útibúi bankans eða hjá viðeigandi deild.

Hjá Arion banka hf. heyrir umboðsmaður viðskiptavina beint undir bankastjóra og varð þetta starf til í upphafi árs 2009. Á vef  bankans kemur meðal annars fram að markmið umboðsmanns sé að byggja upp traust á starfsemi bankans og að sanngirni og hlutlægni við úrlausn mála sé höfð að leiðarljósi. Einnig að viðskiptavinum sé ekki mismunað og gætt sé að því að ferli mála séu skráð og gegnsæ. Nánari upplýsingar er hægt að finna á vef bankans.

Umboðsmaður viðskiptavina tilheyrir viðskiptabankasviði Íslandsbanka hf. og hefur  þessi staða eða hliðstæð verið til í bankanum og forverum hans frá því árið 1995. Á vef  bankans kemur m.a. fram að hlutverk umboðsmanns sé að nálgast málin hlutlaust og að leitast sé við að vinna úr málum eftir þeim leiðum sem eru í boði hverju sinni innan bankans og eru sanngjarnar miðað við aðstæður. Einnig er þar að finna upplýsingar um hvernig bankinn vinnur úr kvörtunum. Nánari upplýsingar er að finna á vef bankans.

Umboðsmaður viðskiptavina Landsbankans hf. tilheyrir regluvörslu bankans sem heyrir beint undir bankastjóra og hefur verið starfandi frá því þann 29. janúar 2009. Á vef  bankans kemur m.a. fram að stefna hans sé að kvartanir og önnur erindi fái fljóta, skilvirka og sanngjarna afgreiðslu. Einnig er að finna á heimasíðunni upplýsingar um hvernig bankinn vinnur úr kvörtunum. Nánari upplýsingar er að finna á vef bankans.

Fjármálaeftirlitið telur að umboðsmenn viðskiptavina bankanna gegni mikilvægu hlutverki. Það er brýnt að viðskiptavinir nýti sér þá þjónustu sem umræddir aðilar veita þeim til handa eftir atvikum hverju sinni.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica