Fréttir


Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins birt

24.11.2014

Eftirfarandi er sameiginleg fréttatilkynning frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands vegna ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins sem birt var í dag:

Í dag birti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit sitt vegna dómsmáls sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Landsbankanum hf. Í málinu reynir á hvort bankinn hafi í tíð eldri laga um neytendalán, nr. 121/1994, veitt fullnægjandi upplýsingar við gerð samnings um neytendalán sem bundinn er vísitölu neysluverðs. Lögin voru til innleiðingar á ákvæðum tilskipunar 87/102/EBE um neytendalán í íslenskan rétt (neytendalánatilskipunin).

Íslenskir dómstólar ákváðu við meðferð málsins að leita eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, m.a. á því hvort það samrýmdist ákvæðum tilskipunarinnar að miða útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar „við 0% verðbólgu en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi“. Málið sem um ræðir varðar ekki fasteignaveðlán.

Aðrar spurningar voru samhljóða þeim sem EFTA-dómstóllinn gaf álit sitt á 28. ágúst sl. (mál E-25/13, Gunnar V. Engilbertsson gegn Íslandsbanka hf.).

EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki samrýmanlegt tilskipuninni að miða útreikning við 0% verðbólgu ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi væri ekki 0%. Í álitinu segir meðal annars: „Að því gefnu að þeirri vernd sem neytendalánatilskipunin veitir samkvæmt túlkun dómstólsins sé ekki stefnt í hættu, er það landsdómstólsins að meta, að teknu tilliti til allra atvika málsins, hvaða áhrif röng upplýsingagjöf af þessu tagi hefur og hvaða úrræðum er hægt að b[ei]ta af því tilefni. Við slíkt mat verður landsdómstóllinn að hafa hliðsjón af því hvort viðkomandi neytandi geti talist almennur neytandi, sem er ágætlega upplýstur, athugull og forsjáll.“

Dómstóllinn ítrekar það sem áður hefur komið fram að tilskipun 93/13/EBE leggi ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu lána í samningum milli lánveitanda og neytanda.

Álit EFTA-dómstólsins er ráðgefandi og það er íslenskra dómstóla að ákvarða á grundvelli íslenskra laga hvaða áhrif álitið mun hafa við úrlausn réttarágreinings um verðtryggingu. Ekki er ljóst hvenær endanleg niðurstaða íslenskra dómstóla í því máli sem að framan greinir mun liggja fyrir.

Í fréttatilkynningu dómstólsins frá í dag er gerð frekari grein fyrir álitinu. Fréttatilkynninguna og álitið í heild sinni er að finna á vefslóð EFTA-dómstólsins: www.eftacourt.int.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica