Fréttir


47 stjórnarmenn hafa farið í hæfismat

25.3.2011

Ráðgjafarnefnd Fjármálaeftirlitsins um hæfi stjórnarmanna hefur nú metið 47 stjórnarmenn fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga, þar af átta úr stjórnum eignarhaldsfélaga. Niðurstaðan var sú að þekking, skilningur og viðhorf stjórnarmannanna varðandi helstu efni sem tengjast verksviði þeirra var fullnægjandi í 35 tilvikum en ófullnægjandi í 12 tilvikum. 

Af þeim tólf sem reyndust ekki hafa viðunandi hæfi hafa átta mætt í endurtekið mat og stóðust þeir það allir nema einn. Þá hefur það gerst í níu tilvikum að stjórnarmenn hafa sagt sig úr stjórn og því ekki komið í hæfismat hjá Fjármálaeftirlitinu.

Mat ráðgjafarnefndarinnar er byggt á ítarlegu viðtali við stjórnarmenn þar sem farið er yfir þekkingu, skilning og viðhorf þeirra varðandi helstu efni sem tengjast verksviði þeirra. Könnuð er meðal annars þekking á starfsemi fjármálafyrirtækja/vátryggingafélaga almennt og starfsemi þess fyrirtækis sem í hlut á sérstaklega. Enn fremur er spurt um hvert sé hlutverk, ábyrgð og helstu verkefni stjórnar og einstakra stjórnarmanna í fjármálafyrirtæki. Þá er lagt mat á sjálfstæði, dómgreind og viðhorf viðkomandi.

Tilgangur Fjármálaeftirlitsins með stofnun ráðgjafanefndarinnar í janúar 2010 var að stuðla að bættu og hertu eftirliti með því að hæfisskilyrði um stjórnarmenn eftirlitsskyldra aðila væri uppfyllt og ekki síður að tryggja að stjórnarmenn væru  vel meðvitaðir um hvaða þekkingar er krafist og hvað felst í ábyrgð sem fylgir stjórnarstörfum. Nefndin veitir umsögn um hæfi og hæfni viðkomandi stjórnarmanns og er sú umsögn höfð til hliðsjónar við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um hæfið. Fjármálaeftirlitið ákveður með hliðsjón af umfangi á starfsemi viðkomandi eftirlitsskylds aðila, þar á meðal starfsleyfis, reksturs og markaðshlutdeildar, hvort óskað er eftir umsögn ráðgjafanefndarinnar.

Ráðgjafanefnd um hæfi stjórnarmanna er skipuð þeim Jóni Sigurðssyni, rekstrarhagfræðingi, sem er formaður, Einari Guðbjartssyni, dósent hjá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Rúnari Guðmundssyni, sviðsstjóra hjá Fjármálaeftirlitinu.

Metnir

Stóðust

Þurftu að endurt.

Endurtóku

Stóðst ekki í 2. tilr.

47

35

12

8

1


Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica