Fréttir


Athugun á framkvæmd tjónsuppgjörs þegar gert er við með notuðum varahlutum

18.2.2011

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur skv. 4. mgr. 65. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi eftirlit með viðskiptaháttum vátryggingafélaga sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi, sölustarfsemi þeirra og tjónsuppgjöri. Á grundvelli þess ákvæðis hefur eftirlitið nýverið lokið athugun á verklagi vátryggingafélaga við notkun notaðra varahluta í ökutækjatjónum.

Meðal þess sem athugunin laut að voru þau viðmið sem vátryggingafélög leggja til grundvallar til að skera úr um hvort notaður varahlutur, sem settur er í ökutæki sem orðið hefur fyrir tjóni, teljist fela í sér fullnægjandi bætur til tjónþola.

Í því sambandi lagði FME áherslu á að ekki væru notaðir eldri varahlutir en sem næmi árgerð viðkomandi ökutækis, nema sérstök rök leiddu til annars, enda lægi fyrir mat viðkomandi verkstæðis á gæðum varahlutarins.

FME gerir ekki athugasemdir við að vátryggingafélög feli þeim réttingar-, málningar og/eða öðrum verkstæðum sem sérhæfa sig í viðgerð ökutækja sem hafa orðið fyrir tjóni mat á því hvort notaðir varahlutir séu fullnægjandi til viðgerðar. Í niðurstöðum sínum áréttaði FME hins vegar mikilvægi þess að rekjanleiki varahlutarins ásamt nauðsynlegum upplýsingum um hann lægju fyrir, ekki síst í þeim tilvikum þegar vátryggingafélögin sjálf legðu varahlutina til.

Varðandi upplýsingar til tjónþola um hvernig staðið hafi verið að viðgerð ökutækja sem hafa orðið fyrir tjóni telur FME ekki óeðlilegt að viðkomandi þjónustuaðili veiti þær upplýsingar, sbr. einnig 1. mgr. 4. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Hins vegar telur eftirlitið að síðastgreint ákvæði leysi vátryggingafélög ekki undan skyldu skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 30/2004  um vátryggingarsamninga til þess að upplýsa tjónþola á fullnægjandi hátt um bótarétt sinn og sundurliðun á því hvernig bætur eru ákveðnar óski tjónþoli slíkra upplýsinga frá vátryggingafélaginu sjálfu.

Almennt virðist framkvæmd vátryggingafélaga við tjónsuppgjör, þar sem settir eru notaðir varahlutir í ökutæki sem hafa orðið fyrir tjóni, í slíku horfi að ekki sé þörf á sérstökum aðgerðum eftirlitsins. Hins vegar hefur FME áréttað við vátryggingafélögin hvaða sjónarmið og starfshætti eftirlitið telur að leggja beri til grundvallar til þess að framkvæmd tjónsuppgjörs í nefndum málum samræmist góðum viðskiptaháttum og venjum á vátryggingamarkaði, sbr. 6. gr. laga um vátryggingastarfsemi.
Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica