Fréttir


Fjármálaeftirlitið hefur birt leiðbeinandi tilmæli um áhættustýringu vátryggingafélaga

17.2.2011

Fjármálaeftirlitið hefur birt á heimasíðu sinni ný leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2011 um áhættustýringu vátryggingafélaga. Tilmælin leysa af hólmi eldri tilmæli nr. 1/2006 er fjölluðu um álagspróf og upplýsingagjöf um áhættustýringu. Markmið tilmælanna er að leiðbeina vátryggingafélögum um bestu framkvæmd áhættustýringar.

Samkvæmt 4. mgr. 65. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með áhættustýringu vátryggingafélaga. Einnig er hafinn undirbúningur að innleiðingu tilskipunar 2009/138/EB um stofnun og starfrækslu vátryggingafélaga (Solvency II tilskipunin) sem á að taka gildi 1. janúar 2013. Í þeirri tilskipun og reglugerð sem henni fylgir verða gerðar mun víðtækari kröfur en áður hafa þekkst til áhættustýringar vátryggingafélaga. Fjármálaeftirlitið telur að með því að fara að áðurnefndum tilmælum, muni vátryggingafélögin geta mætt þeim kröfum að mestu í tæka tíð.

Tilmæli þessi eru tvíþætt. Annars vegar er fjallað um fyrirkomulag samhæfðrar áhættustýringar og hins vegar um stýringu einstakra áhættuþátta. Köflunum um stýringu einstakra áhættuþátta er skipt í almenn markmið annars vegar og viðmiðunarkröfur hins vegar. Kaflarnir um almenn markmið fela í sér leiðbeiningar til stjórnenda um hvernig staðið skuli að mótun stefnu varðandi stýringu einstakra áhættuþátta. Kaflarnir um viðmiðunarkröfur fela í sér þær kröfur sem Fjármálaeftirlitið mun miða við í eftirliti með áhættustýringu vátryggingafélaga. Farið verður yfir með reglulegum hætti hvort vátryggingafélög uppfylli viðmiðunarkröfurnar, t.d. með eftirlitsheimsóknum og skýrslugjöf.

Tilmælin má sjá hér.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica