Fréttir


QIS5: Könnun á áhrifum Solvency II

16.9.2010

Um þessar mundir stendur yfir könnun á áhrifum tilskipunar nr. 2009/138/EB, sem er ný tilskipun um vátryggingastarfsemi, öðru nafni Solvency II. Könnunin er sú fimmta sem framkvæmd hefur verið í undirbúningi Solvency II og kallast QIS5 (Quantitative Impact Study 5). Könnunin er liður í vinnu Framkvæmdastjórnar ESB við nánari útfærslu á ákvæðum tilskipunarinnar, sem liggja mun fyrir með reglugerð vorið 2011. Samstarfsnefnd eftirlitsstjórnvalda á vátryggingamarkaði (CEIOPS) sér um framkvæmd QIS5.

Markmiðið með þessari könnun er að meta áhrif væntanlegrar tilskipunar og útfærslu hennar á kröfur til gjaldþols vátryggingafélaga og að meta hvort aðferðir til útreiknings á gjaldþolskröfum séu raunhæfar og framkvæmanlegar. Auk  útreikninga sem vátryggingafélög eru beðin um að framkvæma eru þau spurð um viðhorf og undirbúning vegna Solvency II. Fjármálaeftirlitið fer fram á það við öll vátryggingafélög sem falla munu undir tilskipunina, að þau taki þátt í QIS5. Til að auðvelda vinnu vátryggingafélaganna hélt Fjármálaeftirlitið kynningu á QIS5 í Húsi atvinnulífsins 8. september, sjá glærur hér.

Skilafrestur vátryggingafélaga er til 31. október nk. en samstæður hafa viðbótarfrest til 15. nóvember nk. Upplýsingar um QIS5 má nálgast á heimasíðu CEIOPS, http://www.ceiops.eu/index.php?option=content&task=view&id=732

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica