Fréttir


Ný lög um vátryggingastarfsemi

25.6.2010

Nýverið tóku gildi lög um vátryggingastarfsemi nr. 56/2010 sem leystu af hólmi eldri lög nr. 60/1994. Lögin gilda um frumtryggingastarfsemi á sviði skaðatrygginga og persónutrygginga auk hvers konar endurtrygginga en eftirlit með þeim er sem fyrr í höndum Fjármálaeftirlitsins.

Auk staðfestingar á tilteknum þáttum gildandi réttar á vátryggingamarkaði fela lögin í sér ýmis nýmæli. Meðal þeirra helstu er að vátryggingafélög skulu nú rekin sem hlutafélög, sbr. 2. gr. laganna, starfsleyfisveitandi á vátryggingamarkaði er Fjármálaeftirlitið í stað efnahags- og viðskiptaráðherra áður, sbr. 18. gr., auk þess sem strangari kröfur eru gerðar til stjórnar og stjórnarmanna vátryggingafélaga en áður var, sbr. 54. gr. Varðandi síðastgreint má nefna að stjórn skal samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna setja reglur, sem staðfestar skulu af Fjármálaeftirlitinu, um innra eftirlit, innri endurskoðun, fjárfestingarstarfsemi, lánveitingar og viðskipti við tengda aðila.

Samkvæmt 55. gr. laganna er kveðið á um tiltekin skilyrði sem vátryggingafélög þurfa að uppfylla til þess að gera megi starfslokasamning við framkvæmdastjóra eða aðra lykilstarfsmenn eða viðhafa kaupaukakerfi en ekki var kveðið á um slíkt í eldri lögum. Loks má nefna að samkvæmt nýju lögunum varðar brot gegn ákvæðum laganna um eignir til jöfnunar vátryggingaskuldar (títtnefnt „bótasjóður“) nú fésektum eða fangelsi í stað einungis stjórnvaldssekta eins og áður var.

Fjármálaeftirlitið hefur þegar hafið athugun á því hjá eftirlitsskyldum aðilum á vátryggingamarkaði hvernig þeir munu kynna starfsmönnum sínum hin nýju lög.
Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica