Fréttir


Flest vátryggingafélög rekin með hagnaði á árinu 2009

28.5.2010

Rekstur skaðatryggingafélaga

Samanlagður hagnaður skaðatryggingafélaga sem starfandi voru í árslok 2009 var um 2,5 ma.kr. Þar af hagnaðist Viðlagatrygging, sem er ríkisstofnun sem starfar samkvæmt sérlögum og býr við sveiflukennda starfsemi, um rúma 3 ma.kr. Sé horft framhjá Viðlagatryggingu töpuðu skaðatryggingafélögin samanlagt um 669 m.kr. Tapið stafar að mestu leyti af tapi af fjármálarekstri, sem nam 2,5 ma.kr. Það tap má rekja til afskrifta óefnislegra eigna um 6,7 ma.kr. hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. sem valda því að það félag var rekið með tapi. Önnur skaðatryggingafélög skiluðu hagnaði af starfsemi sinni á árinu 2009.
Breytingar hafa orðið á skaðatryggingamarkaði sem gera samanburð við heildartölur síðasta árs erfiðar. Sjóvá Almennar tryggingar hf. hætti vátryggingarekstri og var vátryggingastofn þess færður í nýtt félag með nafninu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Eldra félagið heitir nú SJ Eignarhaldsfélag hf. Einungis er birtur ársreikningur fyrir nýja félagið í yfirlitstölum Fjármálaeftirlitsins.
Eignir félaganna höfðu þegar verið færðar töluvert niður á árinu 2008 þannig að smávægileg hækkun varð á árinu 2009. Án Viðlagatryggingar námu eignir skaðatryggingafélaganna 101 ma.kr. í árslok 2009 en voru 98 ma.kr. í árslok 2008.
Eigið fé skaðatryggingafélaganna hækkaði verulega á milli ára, úr 5,5 ma.kr. í 33 ma.kr.  Þessi hækkun skýrist að mestu leyti af stöðu Sjóvár Almennra trygginga hf. í árslok 2008 og 2009.  Í árslok 2008 var eigið fé Sjóvár Almennra trygginga hf. neikvætt um 16 ma.kr.  Á árinu 2009 var vátryggingastofn Sjóvár fluttur til nýs félags sem ber sama heiti og eldra félagið.  Hlutafjárframlag eiganda nýja félagsins var ríflega 15 ma.kr.  Staða eigin fjár Sjóvár í árslok 2008 gaf því ranga mynd af samtölu eiginfjárliða skaðatryggingafélaganna á árinu 2008.  Auk þess má geta að nýir eigendur Varðar trygginga hf. lögðu félaginu til nýtt hlutafé á liðnu ári.  Önnur skaðatryggingafélög hafa skilað jákvæðri rekstrarafkomu samfellt til nokkurra ára. 
Fjármálaeftirlitið birtir nú í fyrsta skipti upplýsingar um sjóðstreymi vátryggingafélaga. Handbært fé skaðatryggingafélaganna (án Viðlagatryggingar) lækkaði um 1,5 ma.kr. á árinu 2009. Einungis eitt skaðatryggingafélag greiddi arð á árinu 2009, Íslensk endurtrygging hf. greiddi rúmlega 11 m.kr.

Rekstur líftryggingafélaga

Öll líftryggingafélögin 5 voru rekin með hagnaði á árinu 2009. Samanlagður hagnaður félaganna var 1,7 ma.kr. sem er 13,6% hærra en á síðasta ári. Þar af var hagnaður af líftryggingarekstri 1,5 ma.kr. eða 15,2% hærri en á síðasta ári. Hagnaður af fjármálastarfsemi var rétt rúmlega 300 m.kr. sem er 5,8% lækkun frá síðasta ári.
Samanlagðar eignir líftryggingafélaganna voru 13,5 ma.kr. í árslok 2009, sem er 10,1% aukning frá árslokum 2008. Eigið fé líftryggingafélaganna var 5,3 ma.kr. sem er 20,9% hækkun frá árslokum 2008.
Tvö líftryggingafélög greiddu arð á árinu 2009, Líftryggingafélag Íslands hf. greiddi 500 m.kr. og Okkar líftryggingar hf. greiddu 300 m.kr. Handbært fé líftryggingafélaga lækkaði um tæpa 3 ma.kr.

Rekstur einstakra vátryggingagreina

Við samantekt afkomu einstakra vátryggingagreina styðst Fjármálaeftirlitið við upplýsingar um rekstur vátryggingastarfsemi gamla félags Sjóvár-Almennra trygginga hf., nú SJ Eignarhaldsfélag hf. Þannig fæst raunhæfur samanburður á afkomu vátryggingagreina á milli ára.
Bókfærð iðgjöld skaðatryggingafélaga námu samtals tæplega 42 ma.kr. sem er 7,7% hækkun á milli ára. Þar af kemur tæplega helmingurinn, eða rúmlega 20 ma.kr. frá ökutækjatryggingum. Tjón ársins 2009 námu 35 ma.kr. í skaðatryggingum, sem er 11,6% lækkun frá síðasta ári. Hagnaður af rekstri skaðatrygginga var 3,8 ma.kr. en ef horft er framhjá Viðlagatryggingu nam hagnaður 1,9 ma.kr.
Hagnaður af rekstri ökutækjatrygginga var 1,7 ma.kr., sem er 27,2% hækkun á milli ára. Hagnaður af lögboðnum ökutækjatryggingum var 1,4 ma.kr. sem var tæplega 40% verri afkoma en árið á undan. Hins vegar skiluðu frjálsar ökutækjatryggingar hagnaði í fyrsta skipti í mörg ár, hagnaður var 232 m.kr.
Af öðrum greinum má nefna að tapi var snúið í hagnað í eignatryggingum og slysa- og sjúkratryggingum en í sjó- og flugtryggingum var tap eftir hagnað árið áður. Rekstur ábyrgðartrygginga hefur reynst vátryggingafélögum erfiður á undanförnum árum, tapið var um 280 m.kr. sem er svipað og árið áður.
Bókfærð iðgjöld í líftryggingum námu 3,3 ma.kr, sem er 7,2% hækkun frá síðasta ári. Líftryggingabætur ársins 2009 námu 1,3 ma.kr. sem er 42,3% hækkun frá síðasta ári.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, S: 525-2700 og farsími: 840 3861.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica