Fréttir


Þagnarskylda þeirra er taka að sér verk í þágu fyrirtækis

21.4.2010

Fjármálaeftirlitinu hafa borist ábendingar um að starfsmenn vörslusviptingafyrirtækja er starfa fyrir eignaleigufélögin hafi haft samband við aðra aðila en þá sem skráðir eru leigjendur ökutækis sem þeim er ætlað að vörslusvipta. Við þetta tækifæri hafa þeir sagt frá því að ætlunin væri að vörslusvipta ökutæki og óskað eftir upplýsingum um staðsetningu þess. Í tilefni af því hefur Fjármálaeftirlitið sent dreifibréf á eignaleigufyrirtækin þar sem minnt er á ákvæði í lögum um þagnarskyldu.

Fjármálaeftirlitið lítur svo á að ákvörðun um vörslusviptingu varði viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna viðkomandi fjármálafyrirtækis. Fjármálaeftirlitið bendir á að samkvæmt lögum getur Fjármálaeftirlitið lagt stjórnvaldssektir á hvern þann er brýtur gegn ákvæðinu, auk þess sem það getur varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Fjármálaeftirlitið fer fram á að fjármálafyrirtækin ítreki þetta við aðila er fyrir þau starfa. Að öðrum kosti verður Fjármálaeftirlitið að grípa til aðgerða á grundvelli laganna.

Dreifibréf Fjármálaeftirlitsins til eignaleigufyrirtækjanna má sjá hér.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica