Fréttir


Undirbúningur vátryggingafélaga fyrir gildistöku Solvency II tilskipunarinnar

12.3.2010

Evrópusambandið hefur gefið út nýja tilskipun um stofnun og starfrækslu vátryggingafélaga, nr. 2009/138/EB. Meginmarkmið hinnar nýju tilskipunar er að innleiða nýjar áhættumiðaðar gjaldþolsreglur fyrir vátryggingafélög og gengur tilskipunin í daglegu tali undir heitinu Solvency II. Innleiða þarf tilskipunina í íslenska löggjöf eigi síðar en 1. janúar 2013. Samstarfsnefnd evrópskra eftirlitsaðila á vátryggingamarkaði (CEIOPS) vinnur nú tillögur að nánari útfærslum tilskipunarákvæða sem fyrirhugað er að liggi fyrir í árslok 2011. Tilskipunina má sjá hér.

Fjármálaeftirlitið (FME) sendi vátryggingafélögum dreifibréf 18. nóvember 2009 þar sem lögð var áhersla á nauðsyn þess að efla undirbúning fyrir Solvency II, m.a. með því að leggja mat á fjármagnsþörf og undirbúa nauðsynlegar skipulagsbreytingar. Kröfur Solvency II fela í sér þörf á breytingu á kerfum og ferlum. Þrátt fyrir að nánari útfærslu sé ekki endanlega lokið gefur tilskipunin og ráðgjöf CEIOPS grunn að því að meta þær kröfur sem vátryggingafélög þurfa að uppfylla fyrir árslok 2012. Óskað var greinargerðar um aðgerðir sem félögin hefðu gripið til eða hygðust grípa til vegna undirbúnings að Solvency II.

FME hefur fengið svör frá öllum vátryggingafélögunum og upplýst þau um afstöðu eftirlitsins til undirbúnings þeirra. FME telur félögin almennt vera á réttri leið. Mismunandi er eftir stærð þeirra og starfsemi hversu mikil áhrif Solvency II mun hafa. Því er mikilvægt að sérkenni hvers félags sé haft að leiðarljósi í undirbúningi.

FME leggur sérstaka áherslu á að fimmta könnun áhrifa Solvency II á vátryggingafélög, svokölluð QIS5 (Quantitative Impact Study 5) sem fyrirhuguð er á tímabilinu ágúst til október í ár heppnist vel. FME mun krefjast þess að öll vátryggingafélög sem falla munu undir Solvency II taki þátt í QIS5.

FME og vátryggingafélögin eru sammála um að þátttaka í QIS5 er öllum félögum sem falla undir Solvency II nauðsynleg til að hægt sé að leggja mat á stöðu þeirra í undirbúningi vegna tilskipunarinnar.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica