Fréttir


Fjármálaeftirlitið hefur staðfest Sameiginlegar reglur fjármálafyrirtækja um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja

4.3.2010

Fjármálaeftirlitinu var falið að staðfesta reglur eftirlitsskyldra aðila um skuldbreytingar og breytingar á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga sem kunna að leiða til eftirgjafar skulda eða annarra ívilnana fyrir fyrirtæki. Var það gert með lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

Í athugasemdum með frumvarpi til laganna er m.a. fjallað um mikilvægi þess að kröfuhafar samræmi vinnubrögð og gæti hlutlægni í ákvörðunum sínum. Þá er einnig fjallað um samstarf eftirlitsskyldra aðila um setningu slíkra reglna, auk þess sem að gæta þurfi að samkeppnissjónarmiðum.

Í þessu skyni sömdu Samtök fjármálafyrirtækja Sameiginlegar reglur fjármálafyrirtækja um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja.

Fjármálaeftirlitið staðfesti þann 2. mars 2009 að Sameiginlegar reglur fjármálafyrirtækja um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja taka m.a. til atriða sem kveðið er á um í 1. til 6. tl. 3. mgr. 3. gr. laganna og innihaldi tilvísun til 7. tl. 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Lögin kveða á um að reglurnar skuli m.a. taka til mats á greiðslugetu og eigna- og skuldastöðu skuldara, skilyrði fyrir ákvörðunum um breytingar á skilmálum samninga og hlutlægni við ákvörðunartöku.

Staðfestingin er gerð með þeim fyrirvara að Samkeppniseftirlitið veiti undanþágu frá samkeppnislögum eða telji reglurnar ekki brjóta í bága við samkeppnislög.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, sími: 525-2700 og farsími: 840-3861.
Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica