Fréttir


Afskipti Fjármálaeftirlitsins af Sjóvá Almennum tryggingum hf.

27.1.2010

Fjárfestingar Sjóvár Almennra trygginga hf. og lánveitingar hafa verið til ítarlegrar umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu. Vegna rannsóknarhagsmuna og þagnarskyldu getur Fjármálaeftirlitið ekki tekið afstöðu til hennar en vill þó koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri. 

Fyrri hluta ársins 2008 hóf Fjármálaeftirlitið ítarlega skoðun á fjárhagsstöðu Sjóvár Almennra trygginga hf. eftir að félagið hafði veitt lögbundnar upplýsingar í skýrsluskilum til eftirlitsins vegna reikningsársins 2007. Kallað var eftir ítarlegri upplýsingum úr ársskýrslu 2007 sem og milliuppgjörum á árinu 2008.  Í framhaldi af skoðun Fjármálaeftirlitsins var Sjóvá Almennar tryggingar hf. tekið til sértæks eftirlits í október 2008 þar sem félagið  uppfyllti ekki skilyrði laga um gjaldþol vátryggingafélags.  

Skilyrði laganna eru nánar skilgreind í III. kafla laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994.  Þegar vátryggingafélag uppfyllir ekki skilyrði gjaldþols er XI. kafla áðurnefndra laga fylgt og þá sérstaklega 90. gr. laganna. Samkvæmt henni er félagið tekið undir sérstakt eftirlit og þarf að skila með reglubundnum hætti, ítarlegum fjárhagslegum upplýsingum þar sem fylgst er með rekstrar- og efnahagsreikningum félagsins. Lögð er áhersla á að félagið geti staðið við skuldbindingar gagnvart vátryggingartökum og vátryggðum. 

Eins og rakið var í fréttatilkynningu Fjármálaeftirlitsins sem birtist hinn 8. júlí á síðasta ári skipaði eftirlitið sérstakan  endurskoðanda til að gera úttekt á ákveðnum þáttum í rekstri og fjárfestingum félagsins í lok árs 2008. Niðurstöðum þessarar úttektar var skilað til Fjármálaeftirlitsins í lok janúar 2009.  Framangreind úttekt leiddi í ljós að viðskipti Sjóvár Almennra trygginga hf. og félaga tengdum eigendum voru ekki með eðlilegum hætti auk þess sem skýrsluskilum félagsins til Fjármálaeftirlitsins  var verulega ábótavant.  Áframhaldandi skoðun á rekstri félagsins og fjárfestingum leiddi til þess að ákveðnum þáttum er vörðuðu starfsemi Sjóvár Almennra trygginga hf. var vísað til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara í mars 2009.

Stærsti kröfuhafi félagsins tók yfir rekstur þess í mars 2009. Í kjölfar þess var skipt um stjórn félagsins og nýr forstjóri tók til starfa í júní sl. Aðkoma ríkisvaldsins að endurskipulagningu félagsins er öllum kunn en henni lauk með því að stofnað var nýtt vátryggingafélag er yfirtók vátryggingastofna gamla vátryggingafélagsins. 

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica