Fréttir


Samanlagt tap innlendu skaðatryggingafélaganna tæpir 50 milljarðar króna árið 2008

16.7.2009

Innlendu skaðatryggingafélögin (vátryggingafélög í annarri starfsemi en líftryggingastarfsemi) töpuðu
samanlagt 49,6 ma.kr. á síðasta ári. Til samanburðar var samanlagður hagnaður félaganna 20,3 ma.kr.
árið 2007. Tapið má nær eingöngu rekja til mikils taps af fjárfestingum félaganna en á undanförnum
árum hafa fjárfestingar skilað umtalsverðum hagnaði. Á árinu 2007 var hagnaður af fjármálarekstri
tæpir 10 ma.kr.

Rekstur skaðatryggingafélaga skiptist í vátryggingarekstur og fjármálarekstur. Vátryggingarekstur er
kjarnastarfsemin í starfsemi félaganna og felst í móttöku iðgjalda, ávöxtun þeirra, útgreiðslu tjóna og
rekstrarkostnaði. Algengast er að liðurinn fjárfestingartekjur af vátryggingarekstri sé reiknaður út frá
þeirri ávöxtun sem félagið telur að vátryggingaskuldin muni að jafnaði skila. Sá liður skilaði 6,4 ma.kr.
tekjum á síðasta ári til vátryggingarekstrarins, samanborið við 5,8 ma.kr. á árinu 2007. Sé ávöxtun
fjárfestinga verri en í meðalári skilar það sér í tapi af fjárfestingarekstri eins og sást á síðasta ári. Þrátt
fyrir þennan bókhaldslega aðskilnað eru þessir tveir þættir óaðskiljanlegir í vátryggingarekstri.

Tap skaðatryggingafélaga af vátryggingarekstri var 3,8 ma.kr. á síðasta ári en þar vegur þyngst tap
Viðlagatryggingar vegna jarðskjálftans á Suðurlandi. Að undanskilinni Viðlagatryggingu var hagnaður
skaðatryggingafélaga af vátryggingarekstri 856 m.kr. Við annan samanburð hér á eftir er
Viðlagatrygging einnig undanskilin.

Eignir skaðatryggingafélaganna lækkuðu um 33 ma.kr. eða 25,1% á milli ára. Þær voru í árslok 2008 um
97,9 ma.kr., samanborið við 130,6 ma.kr. í árslok 2007. Eigið fé skaðatryggingafélaganna nam 5,5 ma.kr.
og lækkaði á árinu um 88,1%. Töluverðar breytingar urðu einnig á eignasamsetningu félaganna á árinu.
Verðbréf með breytilegum tekjum, þ.e. hlutabréf og hlutabréfatengd verðbréf voru í árslok 2008 5,8
ma.kr. samanborið við 16,5 ma.kr. í árslok 2007. Skuldabréf voru 13,9 ma.kr. í árslok 2008 samanborið
við 7,4 ma.kr. í árslok 2007. Mesta lækkunin var í virði fjárfestinga í samstæðu- og hlutdeildarfélögum
sem var 40,2 ma.kr. í árslok 2008 en var 59,8 ma.kr. í árslok 2007 sem svarar til 32,7% lækkunar.

Í lok ársins 2008 uppfylltu tvö skaðatryggingafélög, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., og Vörður tryggingar
hf. ekki kröfur um lágmarksgjaldþol skv. 33. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi og hafa
starfað samkvæmt áætlun um að rétta við fjárhag félaganna innan skamms tíma skv. 3. mgr. 90 gr.
laganna. Fjármálaeftirlitið telur fyrirætlanir eiganda félaganna raunhæfar og hefur því ekki talið ástæðu
til að beita ákvæðum 8. mgr. 90. gr. sem heimilar Fjármálaeftirlitinu að takmarka eða banna ráðstöfun
vátryggingafélags á fjármunum sínum og eignum eða að grípa til annarra aðgerða sem hindra daglegan
rekstur.

Nánari upplýsingar um ársreikninga skaðatryggingafélaga má sjá í meðfylgjandi töflu.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Valgeirsson , sgv@fme.is, S: 525-2700 og farsími: 840 3861.

 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica