Fréttir


Vegna umfjöllunar um málefni tengd Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

8.7.2009

Vegna umfjöllunar fjölmiðla um mál sem Fjármálaeftirlitið hafði til rannsóknar og sneri m.a. að  Sjóvá-Almennum tryggingum hf. telur Fjármálaeftirlitið rétt að fram komi að málinu var vísað til embættis sérstaks saksóknara samkvæmt ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins þann 25. mars sl.

Aðdragandi málsins er sá að Fjármálaeftirlitið hefur verið með ákveðin málefni tengd Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til skoðunar frá fyrri hluta árs 2008. Þann 15. desember sl. skipaði Fjármálaeftirlitið  sérstakan endurskoðanda til að fara yfir málefni félagsins og skilaði hann skýrslu til Fjármálaeftirlitsins í lok janúar sl. Skýrsla hans, auk athugana Fjármálaeftirlitsins, leiddi til þess að Fjármálaeftirlitið vísaði tilteknum þáttum er vörðuðu starfsemi Sjóvár-Almennra trygginga hf. og annarra  aðila til sérstaks saksóknara.

Eins og kunnugt er gerði embætti sérstaks saksóknara húsleitir á nokkrum  stöðum í gær. Með vísan til tilkynningar embættis sérstaks saksóknara þá tóku um 25 manns þátt í umfangsmiklum aðgerðum.   Starfsmenn frá Fjármálaeftirlitinu voru þeirra á meðal, en um var að ræða þátt í góðri samvinnu á milli embættis sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitsins.

Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, S: 525-2700 og farsími: 840 3861.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica