Fréttir


Ábendingar og Gjallarhornið

24.3.2009

Ábendingar neytenda, sem og ábendingar eftirlitsskyldra aðila og starfsmanna á þeirra vegum, eru mikilvægur og nauðsynlegur þáttur í sérhverju eftirliti. Fjármálaeftirlitinu hafa á undanförnum mánuðum borist fjölmargar ábendingar, sem margar hverjar hafa orðið grundvöllur að frekari rannsóknum.

Allar ábendingar og kvartanir sem berast Fjármálaeftirlitinu eru metnar og skoðað hvort tilefni sé til nánari athugunar. Telji Fjármálaeftirlitið ástæðu til að taka mál til athugunar er það gert á grundvelli almenns eftirlits, þ.e. hvort starfsemi viðkomandi eftirlitsskylds aðila sé í samræmi við lög, reglur og eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, en Fjármálaeftirlitið hefur ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum. Þrátt fyrir að kvörtun eða ábending frá einstaklingi eða fyrirtæki leiði til slíkrar athugunar, telst sá hinn sami ekki sjálfkrafa aðili máls og ekki er víst að slík athugun leiði sjálfkrafa til lausnar máls í tilviki viðkomandi aðila.

Fjármálaeftirlitið leitast einnig við að veita almennar upplýsingar m.a. um hugsanlega réttarstöðu aðila eða leiðbeiningar um þau úrræði sem eru til staðar til að hægt sé ná fram rétti sínum, m.a. hvaða aðili eða aðilar fari með úrskurðarvald og/eða dómsvald í þeirra málum.

Ef þú hefur í störfum þínum fyrir eftirlitsskyldan aðila tekið eftir hugsanlegu misferli hvetjum við þig til að upplýsa um slíkt. Fjármálaeftirlitið hefur fyrir nokkru komið á fót sérstakri síðu fyrir slíkar ábendingar, sem nefnist Gjallarhornið. Neytendum er bent á að hringja í neytendasíma Fjármálaeftirlitsins í síma: 525 2755 eða senda tölvupóst á fyrirspurn@fme.is.

Fólk er hvatt til þess að koma fram undir réttu nafni, en Fjármálaeftirlitið tekur þó einnig við nafnlausum ábendingum. Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á trúnað við þá sem koma fram með ábendingar, en getur þó ekki ábyrgst nafnleynd, ef lög mæla fyrir um annað. Þess skal þó getið að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru bundnir ríkri trúnaðarskyldu um allt það sem þeir komast að í störfum sínum.

Fjármálaeftirlitið þakkar fyrir allar þær ábendingar sem þegar hafa borist, og hvetur alla til þess að halda áfram að veita því liðsinni í þeim umfangsmiklu  rannsóknum sem nú fara fram og koma á framfæri upplýsingum um hugsanleg brot á lögum sem gilda um fjármálamarkaði. Þannig fáum við mikilvæga aðstoð við að upplýsa um möguleg brot framin í leynd sem kunna að hafa valdið almenningi og atvinnulífi  tjóni. Þannig stuðlum við að góðum viðskiptaháttum, trausti á fjármálastarfsemi og öflugri neytendavernd, til framtíðar.

 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica