Fréttir


Tilkynning vegna rannsóknar á lífeyrissjóðum

18.3.2009

Fjármálaeftirlitið hefur vísað til sérstaks saksóknara rannsókn á meintum brotum fimm lífeyrissjóða, sem eru í rekstri og eignastýringu hjá Landsbankanum, á 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Aðdragandi þessa máls er að í kjölfar yfirtöku ríkisins á viðskiptabönkunum í byrjun október sl. gerði Fjármálaeftirlitið áhættugreiningu á öllum lífeyrissjóðum í landinu, til að meta hugsanlegt tjón þeirra af völdum bankahrunsins. Þessi ákveðna áhættugreining sýndi að þörf væri á að taka til sérstakrar athugunar samsetningu eigna nokkurra lífeyrissjóða og óskaði Fjármálaeftirlitið eftir ítarlegum upplýsingum um eignir þessara sjóða í kjölfarið. Sú athugun náði meðal annars til fjölmargra lífeyrissjóða sem eru í vörslu og eignastýringu allra viðskiptabankanna.

Að þessari athugun lokinni þótti ekki ástæða til að efna til sérstakrar rannsóknar á fjárfestingum lífeyrissjóðanna, vegna fyrri hluta ársins 2008, nema þeirra sjóða sem voru í eignastýringu Landsbankans, en þar er um að ræða Íslenska lífeyrissjóðinn, Kjöl lífeyrissjóð, Lífeyrissjóð Tannlæknafélags Íslands, Eftirlaunasjóð FÍA og Lífeyrissjóð Eimskipafélags Íslands (deild II). Allir þessir lífeyrissjóðir hafa gert sérstaka samninga við Landsbankann um rekstur og eignastýringu sjóðanna, sem auk þess fela í sér að bankinn skipar framkvæmdastjóra og sjóðsstjóra hvers lífeyrissjóðs fyrir sig og sér um innri endurskoðun sjóðanna.
Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica