Fréttir


Fjármálaeftirlitið endurnýjar samninga um eftirlitsverkefni við Kauphöll Íslands

10.2.2009

Forstjórar Fjármálaeftirlitsins og Kauphallar Íslands hafa endurnýjað yfirlýsingu um eftirlitsverkefni sem Kauphöllin annast fyrir Fjármálaeftirlitið. Þá hafa Kauphöllin og Fjármálaeftirlitið einnig endurnýjað samning um að Kauphöllin taki að sér að annast yfirlestur og staðfestingu lýsinga.

Samkvæmt yfirlýsingunni felur Fjármálaeftirlitið Kauphöllinni eftirlitsverkefni sem í megindráttum beinast að upplýsingaskyldu útgefanda, flöggunarskyldu, tilboðsskyldu, tilkynningarskyldu um viðskipti innherja, innherjasvikum og markaðsmisnotkun. Telji Kauphöllin að lög á verðbréfamarkaði kunni að hafa verið brotin vísar hún málum áfram til Fjármálaeftirlitsins. Lögbundið eftirlitshlutverk með framangreindum þáttum hvílir eftir sem áður á Fjármálaeftirlitinu.

Samningur Kauphallarinnar og Fjármálaeftirlitsins um að Kauphöllin taki að sér að annast yfirlestur og staðfestingu lýsinga vegna verðbréfa sem taka á til viðskipta í Kauphöllinni sem og annarra lýsinga sem gefnar eru út af skráðum félögum í Kauphöll, hvort sem þau skulu tekin til viðskipta í Kauphöllinni eða ekki, felur í sér að Kauphöllin skal tryggja að form og efnisinnihald lýsinga sé í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og reglna sem settar eru samkvæmt þeim. Kauphöllin skuldbindur sig til að ráða yfir starfsfólki sem hefur færni, þekkingu og sérfræðikunnáttu sem nauðsynleg er til að sinna yfirlestri og staðfestingu lýsinga með fullnægjandi hætti og innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í reglum sem settar eru á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti.

Samningur um yfirlestur og staðfestingu lýsinga má finna hér.

Yfirlýsing Fjármálaeftirlitsins og Nasdaq OMX Iceland hf.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica