Fréttir


Hvað er að frétta af rannsóknum Fjármálaeftirlitsins?

2.2.2009

Það er skiljanlegt að marga þyrsti í að vita meira um rannsóknir á vegum Fjármálaeftirlitsins í aðdraganda og kjölfar falls bankanna þriggja. Þessar línur eru skrifaðar til að veita þær upplýsingar sem mögulegt er innan þess  lagaramma sem Fjármálaeftirlitið starfar en sá rammi  takmarkar möguleika starfsmanna Fjármálaeftirlitsins til að tjá sig um mál sem þar eru til skoðunar. Þá er einnig sá möguleiki fyrir hendi að opinber umfjöllun um einstök mál á rannsóknarstigi geti spillt rannsóknum eða ónýtt mál fyrir dómi. 

Fljótlega eftir að bankarnir féllu aflaði Fjármálaeftirlitið gagna um verðbréfaviðskipti í aðdraganda fallsins. Þessi rannsókn stendur enn yfir og er töluvert umfangsmikil enda eru skoðuð  öll verðbréf útgefin af bönkunum þremur. Fjármálaeftirlitið kannaði einnig  ábendingar frá ýmsum aðilum.  Sumar þeirra eru enn til athugunar en aðrar reyndust ekki eiga við rök að styðjast en tekið skal fram að allar ábendingar eru teknar alvarlega og skoðaðar.  Þessu til viðbótar hefur verðbréfasjóðasvið Fjármálaeftirlitsins unnið að því að kanna ýmis mál tengd verðbréfasjóðunum, s.s. markaðssetningu þeirra og eignasamsetningu.

Fjármálaeftirlitið beindi  einnig þeim tilmælum til skilanefnda bankanna að ráða endurskoðendateymi til að rannsaka tiltekna þætti í starfsemi bankanna þriggja fyrir fall þeirra. Skoðun þeirra beindist að ákveðnum þáttum sem snúa meðal annars að innri reglum bankanna og þeim lögum sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með.  Meðal þess sem var til skoðunar voru mögulegar óeðlilegar fjármagnshreyfingar innan samstæðu eða milli landa, skilmálabreytingar lánasamninga, breytingar á tryggingum og veðum, meðferð afleiðusamninga,  viðskipti með verðbréf og hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða og meðferð rekstrarfjármuna.

Rannsóknir starfsmanna Fjármálaeftirlitsins og endurskoðendateymanna fóru fram samhliða og voru skipulagðar þannig að ekki yrði um tvíverknað að ræða.  Fjármálaeftirlitið hélt reglulega fundi með endurskoðendunum meðan á athugun þeirra stóð. Á þeim fundum var ekki rætt um einstök mál, þar sem um þrjú fjármálafyrirtæki er að ræða heldur var m.a. fjallað um aðferðarfræði, hvað þyrfti að skoða og fleira því tengt.

Fjármálaeftirlitinu bárust  niðurstöður endurskoðendateymanna  um tvo af bönkunum í kringum áramótin. Þær eru mjög umfangsmiklar en niðurstöðurnar telja mörg hundruð blaðsíður með fylgiskjölum og viðaukum.  Nú er unnið að greiningu og úrvinnslu þessara gagna.  Þar eru erfiðustu, flóknustu og alvarlegustu málin sett í forgang. Fjármálaeftirlitið hefur fengið til liðs við sig utanaðkomandi lögfræðinga og aðra sérfræðinga til að skoða einstaka þætti skýrslnanna. Það er gert til að reyna að flýta fyrir niðurstöðum vegna þess fjölda mála sem er til athugunar eða umfjöllunar hjá Fjármálaeftirlitinu.

Í skýrslunum eru einstaklingar og lögaðilar nafngreindir. Ekki er enn búið að kanna hvort um sé að ræða brot á lögum eða reglum. Það væri óábyrgt af Fjármálaeftirlitinu að birta nöfn þessara aðila. Í þessu samhengi skal árétta þá grunnreglu réttarríkisins að menn skulu taldir saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð. Þá væri það enn óábyrgara að koma af stað orðrómi sem gæti eyðilagt, ekki bara mannorð fólks, sem er nógu alvarlegt, heldur beinlínis fólkið sjálft. Starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru einnig bundnir þagnarskyldu samkvæmt lögum.

Fyrstu málum vegna framangreindra rannsókna mun ljúka á næstu vikum. Hluti þeirra mála sem eru til skoðunar er flókinn og mun rannsókn þeirra því taka lengri tíma. Meðal þess sem getur valdið því að rannsóknir taki tíma er til að mynda umfangsmikil gagnaöflun ef mál teygja sig yfir landamæri og mat á þeim gögnum sem berast. Ef niðurstaða í málum sem eru til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu teljast lögbrot getur stjórn þess ákveðið að ljúka þeim með álagningu stjórnvaldssektar. Meiriháttar brotum vísar Fjármálaeftirlitið til lögreglu. 

Eftir Guðrúnu Jónsdóttur, sviðsstjóra á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 31. janúar 2009.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica