Fréttir


Álagning stjórnvaldssekta

30.1.2009

Álagning stjórnvaldssekta

Fjármálaeftirlitið hefur lagt  stjórnvaldssektir á tæplega 30  aðila frá miðju ári  2007 til ársloka  2008. Um er að ræða álagningu stjórnvaldssekta vegna brota á lögum um vátryggingastarfsemi, lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um verðbréfaviðskipti.

Brot gegn lögum um fjármálafyrirtæki

Virkir eignarhlutir

Nokkur málanna sneru að brotum gegn reglum um virka eignarhluti samkvæmt VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki. Með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild í fyrirtæki sem nemur 10% eða meira af eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fyrirtækis.  Meðal annars var um að ræða brot sem laut að því að ekki var sótt fyrirfram um að fara með virkan eignarhlut, eins og lög gera ráð fyrir.

Viðskipti starfsmanna við fjármálafyrirtæki

Eitt mál sneri að broti gegn 1. mgr. 57. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki vegna viðskipta starfsmanna við fjármálafyrirtæki. Umrædd lagagrein kveður á um að samningur fjármálafyrirtækis um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við framkvæmdastjóra sé  háð samþykki stjórnar fyrirtækisins.

Tilkynning um starfsemi erlendis

Á tímabilinu var eitt fjármálafyrirtæki sektað vegna brots á tilkynningarskyldu, 38. gr. laga um fjármálafyrirtæki, vegna misbrests á því að tilkynnt væri um fyrirhugaða starfsemi erlendis, áður en hún hófst.

Brot gegn lögum um vátryggingastarfsemi

Á tímabilinu var í tveimur tilvikum sektað vegna brots á reglum um virka eignarhluti í lögum um vátryggingastarfsemi. 

Brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti

Nokkur hluti þeirra mála sem beitt var sektum í varða brot á lögum um verðbréfaviðskipti.
Af þessum  málum voru 17 málanna tilkynningarskyldubrot (tilkynninga- og birtingarskyldubrot), þ.e.a.s. brot vegna of seint fram kominna tilkynninga vegna viðskipta innherja eða aðila þeim tengdum, með vísan til laga um verðbréfaviðskipti. 

Samkvæmt 139. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti (vvl.) er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum er varða ákvæði laganna.

Fjárhæðir sekta

Hæsta sekt sem Fjármálaeftirlitið hefur lagt á lögaðila er 20.000.000 kr.
Hæsta sekt sem Fjármálaeftirlitið hefur lagt á einstakling er 1.000.000 kr.

Málum vísað til lögreglu

Á tímabilinu var þremur málum vísað til lögreglu.

Ársskýrsla og ársfundur

Fyllri upplýsingar um stjórnvaldssektir verður að finna í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins. Útgáfu ársskýrslu sem og ársfundi hefur verið frestað fram á vor vegna þeirra aðstæðna sem uppi hafa verið á fjármálamarkaði.

Nánari upplýsingar til fjölmiðla veitir Sigurður G. Valgeirsson, sgv@fme.is, S: 525-2700 og GSM: 840-3861.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica