Fréttir


Umfjöllun Helga Seljan og Kristins Hrafnssonar í Kastljósi um Fjármálaeftirlitið

28.1.2009

Í Kastljósi þann 27. janúar fjölluðu þeir Helgi Seljan og Kristinn Hrafnsson um viðskipti Roberts Tchenguiz við Kaupþing. Í umfjölluninni komu fram alvarlegar missagnir um starfsemi Fjármálaeftirlitsins og rakalausar ásakanir og dylgjur sem ekki er hægt að láta ósvarað.

Kristinn Hrafnsson hélt því meðal annars fram að Fjármálaeftirlitinu bæri að hafa eftirlit með stórum lánveitingum bankanna.  Einstakar lánveitingar eru viðskiptaákvarðanir sem eru á ábyrgð stjórnar og stjórnenda fjármálafyrirtækja.  Fjármálaeftirlitið fylgist hins vegar með útlánaáhættu fjármálafyrirtækja og hefur í því sambandi sett ýmsar reglur og leiðbeinandi tilmæli sem þeim ber að fylgja.

Kristinn Hrafnsson sagði í viðtalinu að heimildarmenn sínir hefðu gagnrýnt Fjármálaeftirlitið fyrir að draga lappirnar í rannsóknum sínum og hafa ekki nýtt allar leiðir til að afla upplýsinga. Fjármálaeftirlitið vísar þessari fullyrðingu á bug. Starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hafa unnið hörðum höndum undanfarið við að leysa úr þeim málum sem upp hafa komið í kjölfar hruns bankanna þriggja. Þá leitar Fjármálaeftirlitið aðstoðar hjá erlendum eftirlitsaðilum þegar þurfa þykir.

Helgi Seljan sendi Fjármálaeftirlitinu röð fyrirspurna, sem tengdust viðtalinu, rétt fyrir klukkan tvö síðdegis, sama dag og viðtalið var birt. Útskýrt var fyrir ritstjóra þáttarins að ekki væri hægt að svara spurningum Helga. Svör við spurningum af þessu tagi geta spillt rannsóknarhagsmunum, varðað við lög og/eða valdið frávísun mála fyrir dómstólum.  Kastljós sá ekki ástæðu til að nefna þessar ástæður heldur kaus að segja að svör hefðu ekki borist.

Gera verður þá kröfu til ábyrgs fjölmiðils að þegar ásakanir eru settar fram séu þær rökstuddar. Almennt þekkingarleysi á þeirri löggjöf sem Fjármálaeftirlitið starfar eftir og þeim heimildum sem eftirlitið hefur til að tjá sig lögum samkvæmt eru ekki afsökun fyrir óvandaðri umfjöllun.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica