Fréttir


Fjórða könnunin (QIS4) vegna áhrifa væntanlegs Solvency II staðals á vátryggingamarkaði er hafin

10.6.2008

Fjórða könnunin (QIS4) vegna áhrifa væntanlegs Solvency II staðals á vátryggingamarkaði er hafin. Könnunin er að þessu sinni á ábyrgð Framkvæmdastjórnar ESB og er ætlað að kanna hvernig útfæra megi nánar ýmis atriði er varða fjárhagslegar kröfur til vátryggingafélaga og samstæðna í drögum að tilskipun vegna Solvency II. Gert er ráð fyrir að endanleg tilskipun liggi fyrir á árinu 2009. Samstarfsnefnd evrópskra eftirlitsaðila á vátryggingasviði (CEIOPS) sér um framkvæmdina og er á heimasíðu hennar hægt að nálgast allar upplýsingar og gögn.

Fjármálaeftirlitið hélt fyrsta kynningarfundinn af fjórum vegna QIS4 22. maí sl. Fundirnir eru opnir fulltrúum vátryggingafélaga sem hyggjast taka þátt í QIS4. Á þessum fundi voru fulltrúar frá fjórum stærstu skaðatryggingafélögunum og öllum líftryggingafélögunum.

Gerð var grein fyrir nýjungum og umbótum í QIS4, hvaða gögn væri að finna á heimasíðu CEIOPS og farið var yfir uppbyggingu grunnútfyllingarskjalsins og notkun þess og notkun hjálpar- og einföldunarflipa. Auk þess var rætt um útfyllingu upplýsinga um liði efnahagsreiknings og iðgjöld og hvernig reikna eigi út gjaldþolskröfu (SCR) vegna markaðs- og mótaðilaáhættu. Að lokum var gerð grein fyrir hvernig lágmarksgjaldþolið (MCR) verður reiknað út í QIS4.

Síðasti fundur var haldinn 9. júní sl., en á honum var fjallað um QIS4 frá sjónarhorni skaðatryggingafélaga.

Næsti fundur verður haldinn þann 12. júní nk. kl: 13:30 þar sem umfjöllunin verður sniðin að líftryggingafélögum.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica