Fréttir


Kynningarfundur um eftirlit með vátryggingasamstæðum, þ.e. núverandi fyrirkomulag, ákvæði Solvency II og QIS4

7.4.2008

Þann 28. febrúar sl. hélt Fjármálaeftirlitið (FME) þriðja kynningarfund af fjórum um drögin að Solvency II tilskipuninni og helstu áherslur FME sem tengja má við fyrirhugaða löggjöf. Tólf fulltrúar vátryggingafélaga, móðurfélaga þeirra, fjármálafyrirtækja og endurskoðunarfyrirtækja sóttu fundinn.

Fyrsti hluti fundarins fjallaði um núverandi lagaumhverfi og fyrirkomulag eftirlits með vátryggingasamstæðum og fjármálasamsteypum. Fjallað var um markmið löggjafarinnar og gerð var grein fyrir nokkrum af þeim hugtökum sem notuð eru í tengslum við vátryggingasamstæður og fjármálasamsteypur. Fjallað var um ákvæði um eftirlit með viðskiptum innan samstæðu og aðlagað gjaldþol. Í umfjöllun um fjármálasamsteypur kom fram að innleiðing tilskipunar 2002/87/EC um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum er á lokastigi og verða reglur FME birtar í Stjórnartíðindum á næstu vikum. Endurskoðun tilskipunarinnar er fyrirhuguð á þessu ári og mun FME fylgjast með þeirri vinnu. Loks var gerð grein fyrir skýrsluskilum vegna eftirlits með samstæðum, þ.á m. var kynnt ný útgáfa eyðublaðs vegna viðskipta innan samstæðu.

Annar hluti fundarins fjallaði um ákvæði um eftirlit með samstæðum í Solvency II. Fjallað var um hvers konar samstæður eftirlit eigi við og skýrt var frá skipun, réttindum og skyldum eftirlitsaðila samstæðu (group supervisor). Farið var yfir þær aðferðir sem hægt er að nota við útreikning á gjaldþoli samstæðu samkvæmt Solvency II tilskipunardrögunum og útskýrt hvað stuðningur móðurfélags (group support) felur í sér og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að stuðningurinn verði virkur. Einnig var fjallað um önnur atriði til að koma á skilvirku eftirliti með samstæðum eins og t.d. að sérstök áhersla verður á eftirliti með samþjöppunaráhættu, áhættuuppbyggingu samstæðunnar, viðskiptum innan samstæðu og fleira.  FME hvatti auk þess vátryggingafélögin til að kíkja á umræðuskjal um eftirlit með vátryggingasamstæðum á heimasíðu CEIOPS http://www.ceiops.eu/ þar sem umsagnarfrestur er til 25.apríl 2008.

Að lokum var gerð grein fyrir markmiðum og framkvæmd QIS4 fyrir samstæður. Samstæður þar sem FME gegnir hlutverki samræmingaraðila (coordinator/lead supervisor/group supervisor) munu skila gögnum til FME sem sendir þau síðan áfram í miðlægan gagnagrunn á vegum CEIOPS sem er í vörslu fjármálaeftirlitsins í Austurríki. Athygli er vakin á því að þetta er ekki í samræmi við það sem kom fram á fundinum enda er um að ræða breytingu á fyrirkomulagi frá QIS3. Glæru 17 um hagnýtar upplýsingar hefur verið breytt til samræmis. Jafnframt er hér að neðan slóð á drög að fyrirkomulagi framkvæmdar QIS4 fyrir samstæður sem CEIOPS birti til umsagnar 29. febrúar sl.

Hér fyrir neðan má nálgast glærur frá fundinum auk þess sem finna má áðurnefnda vefslóð:

Núverandi fyrirkomulag og lagaákvæði vegna eftirlits með vátryggingasamstæðum/fjármálasamsteypum
Eftirlit með vátryggingasamstæðum í Solvency II
QIS4 fyrir samstæður
Processing QIS4 Group Results at EU Level

Fjórði og síðasti kynningarfundurinn mun fjalla um Pillar II ákvæði Solvency II auk þess sem kynnt verða ný drög að leiðbeinandi tilmælum um áhættustýringu vátryggingafélaga. Fundurinn verður 10. apríl kl. 13-15 sem er breyting frá áður auglýstum tíma.

Til baka

Language


Þessi síða notar vefkökur.
Lesa meira

X
Þetta vefsvæði byggir á Eplica