Fréttir


Fundur um Pillar I ákvæði Solvency II og helstu nýjungar og áherslur í QIS4

11.2.2008

Þann 5. febrúar sl. hélt Fjármálaeftirlitið (FME) fyrsta kynningarfund af fjórum um drögin að Solvency II tilskipuninni og helstu áherslur FME sem tengja má við fyrirhugaða löggjöf. Um 20 fulltrúar vátryggingafélaga, móðurfélaga þeirra, fjármálafyrirtækja og endurskoðunarfyrirtækja sóttu fundinn.

Tilgangur þessa fundar var tvíþættur. Annars vegar var um að ræða fyrstu kynningu af fjórum þar sem teknir voru fyrir einstakir hlutar í tilskipunardrögunum. Að þessu sinni var fjallað um svokallaðan Pillar I hluta, eða útreikning á eignum og skuldbindingum, vátryggingaskuld, eiginfjárgrunni, gjaldþolskröfu (SCR), lágmarksgjaldþoli (MCR) auk þess sem fjallað var um væntanlegar reglur um fjárfestingar.

Hins vegar var fjallað um væntanlega áhrifskönnun (QIS4) sem fer fram í fjórða sinn næsta sumar. Einkum var áherslan lögð á reynsluna af QIS3 og hvernig hún hefði verið nýtt til að endurbæta útreikninga og leiðbeiningar. Farið var yfir hvaða atriði Pillar I QIS4 væri ætlað að gefa upplýsingar um.

FME leggur mikla áherslu á að QIS4 takist vel til og ráðleggur vátryggingafélögunum að gefa sér góðan tíma í verkefnið og huga vel að verkefnadreifingu milli starfsmanna til að koma í veg fyrir að öll ábyrgð hvíli á herðum eins aðila. Félögin geta notað tölulegar niðurstöður könnunarinnar og meðfylgjandi spurningalista til að fá góða mynd af stöðu sinni vegna undirbúnings Solvency II og hafa í kjölfarið tækifæri til að bregðast við ef einhverju reynist ábótavant.

Mikilvægi QIS4 umfram fyrri kannanir felst m.a. í því að hægt verður að prófa einfaldari útreikninga sem nú er í fyrsta skipti gefinn kostur á og að vegna þess að stöðugt styttist í gildistöku er líklegt að niðurstaðan verði ekki ósvipuð niðurstöðu gjaldþolsreglna Solvency II. CEIOPS hefur lagt mikla vinnu í að endurbæta leiðbeiningar og þjónustu við þátttakendur og því telur FME hér um tækifæri að ræða sem nauðsynlegt er fyrir alla aðila á vátryggingamarkaði að nýta.

Um málefni QIS4 fyrir samstæður vátryggingafélaga verður fjallað á sérstökum fundi sem haldinn verður 28. febrúar nk.

Næsti kynningarfundur verður haldinn hjá FME fimmtudaginn 14. febrúar kl 13-15 þar sem farið verður yfir skýrslur til eftirlita og opinber gögn (pillar III), ásamt kynningu á skýrsluskilum til FME.


Hér að neðan má nálgast glærur frá fundinum auk þess sem hér fylgir kynning Sigurðar Freys Jónatanssonar á niðurstöðum QIS3 á Íslandi sem haldin var á ráðstefnu í Brussel 13. nóvember 2007.

Pillar I ákvæði Solvency II
Frá QIS3 til QIS4
Icelandic experience of QIS3 – What to be expected in QIS4 and nearest future? 

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica