Fréttir


Ímyndarkrísur, upplýsingagjöf og orðsporsáhætta

5.12.2007

Frett.5.12.2007.KrisufundurJónas Fr. Jónsson, forstjóri FME, fjallaði um ímyndarkrísur, upplýsingagjöf og orðsporsáhættu á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í morgun (5.desember). Á fundinum voru kynntar niðurstöður skýrslu Dr. Friðriks Más Baldurssonar og Dr. Richard Portes, um alþjóðavæðingu íslenska fjármálakerfisins en skýrslan var unnin í samstarfi við Frosta Ólafsson, hagfræðing hjá Viðskiptaráði.

Stöðugur áhugi erlendra aðila
Í erindi sínu fjallaði Jónas almennt um viðbrögð FME við auknum áhuga erlendra aðila á íslensku fjármálakerfi. Hann sagði fjárfestatengsl og samskipti við markaðinn þurfa að taka mið af þeim veruleika að erlendir aðilar, fjárfestar, lánshæfismatsfyrirtæki, greiningaraðilar og fjölmiðlar fylgjast  náið með stöðu íslensku fjármálafyrirtækjanna. Það væri því mjög mikilvægt að skýrslugjöf fyrirtækjanna til markaðarins veki ekki upp fleiri spurningar en hún svarar með þögn um tiltekin atriði.

Jónas sagði íslensku fjármálafyrirtækin enn geta bætt upplýsingagjöfina og sagði mikilvægt að þau veittu skýrar og tæmandi upplýsingar, m.a. í ársskýrslum og árshlutauppgjörum.

Aðilar sýni stillingu á óróleikatímum
Jónas sagði síðustu daga hafa endurspeglað ákveðna erfiðleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og að þeir erfiðleikar hefðu nú bein áhrif á Ísland. Hann sagði ennfremur mikilvægt að aðilar sýndu stillingu þegar gæfi á bátinn og að tveggja stafa hækkanir á ársgrundvelli á hlutabréfamörkuðum væri ekki náttúrulögmál. Fjárfestingar í hlutabréfum væri áhætta og stórar stöður þyrftu að byggja á mati á undirliggjandi arðsemi viðkomandi rekstrar en ekki eingöngu á hækkunarvæntingum. Það sama ætti við um lán til kaupa á hlutabréfum, auk þess sem að í slíkum tilfellum bæri  lánveitendum að gæta að viðbótartryggingum.

Orðsporsáhætta hluti af rekstraráhættu
Jónas sagði gegnsæi og upplýsingagjöf mikilvægan þátt í stjórnun orðsporsáhættu og að fyrirtæki þyrftu í auknum mæli að fara líta á orðsporsáhættu sem hluta af rekstraráhættu.  Jónas sagði upplýsingagjöf, gegnsæi og trausta framkvæmd varúðarreglna ekki vera skammtíma átaksverkefni heldur mikilvægan lykilþátt í starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja.

Ræða Jónasar Fr. Jónssonar og kynning Jónasar Fr. Jónssonar má finna hér.

 

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica