Fréttir


Meirihluti innlána bankanna í eigu erlendra aðila

23.11.2007

Viðskiptabankar og sparisjóðir hafa á undanförnum tveimur árum lagt aukna áherslu á að hækka innlán. Gagnrýni sem bankarnir fengu í umræðunni vorið 2006 beindist m.a. að því að hve litlu leyti þeir fjármögnuðu sig með innlánum. Hlutfall innlána af útlánum var lágt samanborið við aðra sambærilega banka en þetta hlutfall hefur nú farið hækkandi vegna aukinnar áherslu á söfnun innlána.  Hlutfall innlána af útlánum hefur hækkað úr u.þ.b. 31% í lok árs 2005 í 52% um mitt ár 2007.

Guðmundur Jónsson, sviðsstjóri á Lánasviði Fjármálaeftirlitsins segir athyglisvert að skoða þróun innlána innlánsstofnana (móðurfélög og útibú) frá því í desember 2005 til loka ágúst 2007. “Sú jákvæða þróun hefur átt sér stað að á tímabilinu hafa innlán nær þrefaldast og sé litið til síðustu sex mánaða hafi aukningin verið um 33% að meðaltali.”

Meirihluti frá erlendum aðilum
Það vekur ekki síður athygli að meirihluti innlána íslenskra innlánsstofnana koma frá erlendum aðilum. Þetta hlutfall hefur vaxið úr um 7% innlána í lok árs 2005 í um 51% í ágúst 2007. Skiptir þar mestu að viðskiptabankarnir hafa lagt áherslu á söfnun innlána í erlendum starfstöðvum sínum.
“Með auknum innlánum er fjármögnun bankanna orðin fjölbreyttari en áður og þeir eru minna háðir lántöku á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Það verður þó að hafa í huga að innlán eru ekki algerlega áhættulaus fjármögnun”, segir Guðmundur.

 

Þróun innlána

Mynd: Þróun innlána

 

 Í ma. kr.

 Des.05

 Jún06

 Des.06

 Jún.07

 Ágú.07

 Innlán alls

 709

899

 1.151

 1.952

 2.126

 Hlutdeild innlendra innlána

 657

 742

 787

 981

 1.046

 Hlutfall (%) af innlánum, alls

 93%

 83%

 68%

 50%

 49%

 Hlutdeild erlendra aðila, alls

 52

 157

 364

 971

 1.080

 Hlutfall (af) innlánum alls

 7%

 17%

 32%

 50%

 51%


Tafla: Greining á innlánum innlánsstofnana.

 

Fjallað verður um stöðu og horfur á íslenskum fjármálamarkaði á ársfundi Fjármálaeftirlitsins 27. nóvember nk.

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica