Fréttir


Ný löggjöf um verðbréfaviðskipti

30.10.2007

Þann 1. nóvember 2007 taka gildi ný lög um verðbréfaviðskipti og ný lög um kauphallir auk þess sem gildandi lög um fjármálafyrirtæki taka breytingum. Breytingar þessar eru hluti af innleiðingarferli svokallaðrar MiFID tilskipunar Evrópusambandsins, sem nær til allra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Tilskipunin er hornsteinn þeirrar endurskipulagningar á fjármálamörkuðum sem Evrópusambandið hefur unnið að undanfarin ár og umfangsmesta Evrópulöggjöfin sem gerð hefur verið á þessu sviði.

Tilgangur MiFID er að koma á einsleitum innri markaði með fjármálagerninga með samræmingu á þeim reglum sem gilda um slíka markaði og þannig auka samkeppnishæfni evrópskra verðbréfamarkaða. Þá er tilskipuninni ætlað að efla traust fjárfesta á verðbréfamarkaði Evrópu með aukinni fjárfestavernd og aukinni upplýsingagjöf. Nýju lögin hafa í för með sér umtalsverðar breytingar á því umhverfi sem verðbréfaviðskipti eiga sér stað.

Fjárfestar njóta sömu réttarverndar á öllu EES-svæðinu
Hlynur Jónsson, sviðsstjóri á Verðbréfasviði FME segir að MiFID tilskipunin samræmi reglur um viðskipti með fjármálagerninga í Evrópu. Hún auðveldi útrás fjármálafyrirtækja á markaði í öðrum Evrópuríkjum, þar sem fyrirtækin þurfa ekki að aðlaga starfsemi sína að mismunandi regluverki í hverju ríki. Hlynur segir að fjárfestar geti gengið að því sem vísu að þeir njóti sömu réttarverndar á öllu EES-svæðinu. Með tilskipuninni verður fjármálafyrirtækjum einnig heimilt að starfrækja markaði með fjármálagerninga, í samkeppni við kauphallir og önnur fjármálafyrirtæki.

Öflugra eftirlit og aukin úrræði
Til að tryggja að markmið tilskipunarinnar náist er kveðið á um öflugra eftirlit í aðildarríkjum og aukin úrræði eftirlitsaðila, m.a. í formi upplýsingagjafar. Fjármálaeftirlitið hefur tekið virkan þátt í samstarfsnefnd evrópskra eftirlitsaðila, CESR, við undirbúning löggjafarinnar og mun það samstarf halda áfram. Nefndinni er ætlað að tryggja samræmda framkvæmd og nána samvinnu eftirlitsaðila. Fjármálaeftirlitið hefur einnig verið í norrænu samstarfi við smíði rafræns kerfis til eftirlits með fjármálafyrirtækjum til að tryggja að þau starfi af heilindum og sanngirni.

Aukin upplýsingagjöf til neytenda
Hlynur leggur áherslu á að MiFID eykur kröfur til fjármálafyrirtækja í því skyni að auka fjárfestavernd og efla traust neytenda, bæði evrópskra og annarra, í verðbréfaviðskiptum. “Þannig er t.d. ríkari krafa lögð á fjármálafyrirtæki um mat á aðstöðu og þörfum viðskiptavina sinna þegar þau bjóða þeim þjónustu. Upplýsingagjöf til neytenda eykst einnig verulega og lagðar eru auknar kröfur á fjármálafyrirtæki um faglega framkvæmd og innra eftirlit með eigin viðskiptaháttum, meðal annars til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra”, segir Hlynur og bætir við að framangreindar reglur um aukna neytendavernd og ríkara eftirlit eigi að tryggja trausta og heilbrigða viðskiptahætti, fjárfestum til hagsbóta.

Eflir samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar
Hlynur Jónsson, segir FME hafa unnið hörðum höndum að innleiðingu á MiFID tilskipuninni frá árinu 2004. ,,Afraksturinn er heildstæð löggjöf sem stuðlar að auknu gegnsæi á verðbréfamarkaði og tryggir hagsmuni íslenskra fjárfesta í verðbréfaviðskiptum við fjármálafyrirtækin. Með þessu er verið að treysta enn frekar samkeppnishæfni íslenska fjármálamarkaðarins í alþjóðlegu umhverfi”, segir Hlynur.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica