Fréttir


Séreignarsparnaður eykst og er um 13% af heildareignum lífeyriskerfisins

31.8.2007

Hrein eign til greiðslu lífeyris í árslok 2006 jókst um tæplega 23% og nam tæplega 1500 milljörðum króna samanborið við um 1.219 milljarða í árslok 2005. Samsvarar þetta um 15% raunaukningu miðað við vísitölu neysluverðs.

Hrein raunávöxtun miðað við neysluverðsvísitölu var um 10% á árinu og lækkaði um 3 prósentustig frá fyrra ári. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ára var 8,4% og meðaltal sl. 10 ára var 6,7%.

Á árinu fækkaði lífeyrissjóðum um 5 en þeir voru 41 í árslok 2006. Af framangreindum 41 lífeyrissjóðum taka 9 ekki lengur við iðgjöldum og eru því fullstarfandi sjóðir 32.

Iðgjöld lífeyrissjóða hækkuðu á milli ára úr 87 milljörðum króna á árinu 2005 í 96 milljarða króna á árinu 2006. Gjaldfærður lífeyrir var tæplega 35 milljarðar árið 2005 en var 40 milljarðar árið 2006.

Fjármálaeftirlitið hefur nú sett á heimasíðu sína, skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2006. Á heimasíðunni er jafnframt að finna excel skjal sem inniheldur talnaefni skýrslunnar.

Frett.31.08.2007.Mynd1

Aukinn séreignarsparnaður
Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila á árinu 2006 jókst um 50 milljarða , eða um 34% og nam um 198 milljörðum króna samanborið við rúmlega 146 milljörðum í árslok 2005. Séreignarsparnaður í heild nam um 13% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2006. Langstærstur hluti uppsafnaðs séreignarsparnaðar í árslok 2006 var í vörslu lífeyrissjóða sem voru hreinir séreignarsjóðir fyrir gildistöku laga nr. 129/1997 eða 117,4 milljarðar. Í kjölfar þessara sjóða koma vörsluaðilar aðrir en lífeyrissjóðir, þ.e. bankar, sparisjóðir, verðbréfasjóðir og líftryggingafélög, sem voru með 55,7 ma.kr. í sinni vörslu í árslok 2006 og að lokum aðrir lífeyrissjóðir með 24,5 ma.kr. í vörslu. Iðgjöld til séreignarlífeyrissparnaðar hækkuðu úr 22 ma.kr. í 25,7 ma.kr. á árinu 2006.

Frett.31.08.2007.Mynd2

Tryggingafræðileg staða batnaði
Eitt af mikilvægari ákvæðum lífeyrissjóðalaganna kveður á um að jafnvægi skuli vera milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Komi í ljós við tryggingafræðilega athugun að munur á eignum og skuldbindingum er yfir 10% eða meiri en 5% samfellt í fimm ár ber lífeyrissjóði að grípa til viðeigandi ráðstafana.

Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða án ábyrgðar í árslok 2006 batnaði frá fyrra ári. Deildum með neikvæða stöðu fækkaði og halli þeirra var minni. Að sama skapi fjölga deildum með jákvæða stöðu og voru sjö deildir með jákvæða stöðu yfir 10%.  Þeir lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis, sveitarfélags og banka eru undanþegnir ákvæðum laganna sem fjalla um jafnvægi milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóða. Lítil breyting er á stöðu þessara sjóða á milli ára en verulegur halli er á nánast öllum deildum og brúar ábyrgð viðkomandi aðila það sem á vantar. Samtryggingardeildir lífeyrissjóða með ábyrgð annarra voru samtals 13 í árslok 2006 og var halli þeirra á bilinu 43,6 til 99,3%. Ein deild var í jafnvægi.

Frett.31.08.2007.Mynd3

Athygli skal vakin á því að skýrslan verður aðeins birt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

Ársreikningaskýrsla 2006

Töflur úr ársreikningum 2006

Til baka

Þetta vefsvæði byggir á Eplica